Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:12:41 (4638)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Þessar spurningar gefa tilefni til nokkuð lengri ræðu en hér gefst tækifæri til. En ég ítreka það að ég tel að þeir verðmætastuðlar sem sjútvrn. gefur út og hóf að gefa út í reglugerð meðan hv. 1. þm. Austurl. var sjútvrh., komist næst því að lýsa réttu verðmætamati á milli þessara tveggja tegunda. Það sé miklum mun meiri ágalli á öllum öðrum mælikvörðum og ég hef fært að því hér mjög gild rök. Ég hef aldrei haldið því fram að þessi mælikvarði væri alfullkominn. En hann kemst næst því að sýna þessa niðurstöðu.
    Ég hef aldrei haldið því fram að þessi samningsniðurstaða feli í sér einhvern umtalsverðan mun okkur í hag og tel ekki að fyrir því séu nein rök. Það hefur aldrei verið dregin dul á það að á undanförnum árum hefur hluti af þessari loðnu komið í okkar hlut en það hefur líka verið á það bent á móti að Grænlendingar geta mjög hæglega selt Norðmönnum þessa loðnu og við eigum ekki samkvæmt samningnum rétt til stærra hlutfalls en kveðið er á um í honum sjálfum.