Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:18:33 (4643)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er alveg með undarlegheitum að þetta skuli ekki komast inn í höfuðið á hæstv. sjútvrh. Við höfum fengið að veiða þessa loðnu og við hefðum fengið að veiða hana í vetur. Við fengum að veiða hana í fyrravetur. Hann er að gera samning til eins árs núna um það að við borgum 3.000 tonn af karfa fyrir þá loðnu sem við hefðum fengið að veiða ef hún verður til staðar á annað borð á þessari vertíð. Þannig lítur nú málið út. Ég undrast það að hæstv. sjútvrh. skuli leggja það á sig fyrir jafnlítið og hann hefur upp að rökstyðja fyrir þingi og þjóð þessa vitleysu sem hér er á ferðinni og hann skuli ekki frekar viðurkenna að það hljóti að vera einhver stærri og gildari ástæða fyrir því að menn gera þennan samning en sú að hann sé með jafngildum veiðiheimildum.