Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:20:52 (4645)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að endurtaka þá gagnrýni sem fram hefur komið á málstað hæstv. sjútvrh. Hann er að verja vondan málstað. Til að núa nú enn salti í sárin vil ég geta fleiri atriða, atriða sem hann svaraði lítið sem ekkert. Það er varðaði eftirlit og þar finnast mér svör hæstv. ráðherra ekki gefa tilefni til bjartsýni um það að fara að taka upp INMARSAT-staðsetningarkerfið og bendi á að það er þá í trássi við skoðun hv. utanrmn. sem birtir í sínu áliti, þetta er meiri hlutinn sem ég er að vitna í, meirihlutaálit hv. sjútvn. en þar er einmitt talað um að með endurskoðun verði þetta að nást í gegn, hvatt til þess. Auk þess tel ég að ekki hafi verið svarað gagnrýni varðandi löndunarstaði og lýsi eftir því að fá þau svör.