Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:21:51 (4646)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vakti aðeins athygli á því varðandi staðsetningartækin að við verðum með eftirlitsmenn um borð í þessum skipum allan tímann sem þau eru innan íslenskrar landhelgi og það verður þess vegna mjög auðvelt fyrir okkur að fylgjast með því hvar þau eru staðsett. Ég er síður en svo að hafa á móti slíkum staðsetningartækjum en þau ráða ekki úrslitum í þessu efni um eftirlitið. Við höfum tryggt það að fullu.
    Varðandi löndunarhafnirnar, þá eru hér viðurkenndar þær hafnir þar sem við viðurkennum löndun úr íslenskum skipum og höfum talið það og teljum að eftirlitið sé fulltryggt með afla sem landað er úr íslenskum skipum. Þetta liggur fyrir í þessu máli og hefur margsinnis komið hér fram og ég veit að hv. þm. er ekki að heyra í fyrsta skipti.