Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:24:58 (4649)


     Guðjón A. Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Mér finnst nauðsyn á að koma hér upp og ræða aðeins um þennan samning og þá aðallega framkvæmdahlið hans. Það var vikið að því í morgun af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að honum fyndist furðuleg afstaða mín til þessa samnings og lét hann að því liggja jafnframt að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefði líka einkennilega afstöðu til þessa samnings. Ég held að ég verði að láta þess getið varðandi það sem lýtur að framkvæmdahlið samningsins, að ég held að bæði aðalsjómannasamtökin í landinu hafi lýst því yfir að þau teldu framkvæmdahliðina í lagi, þ.e. eftirlitið. Það var gerð krafa um það frá sjómannasamtökunum að það yrðu veiðieftirlitsmenn um borð í þessum skipum. Það náðist fram. Og það teljum við fullnægjandi tryggingu fyrir veiðieftirlitinu og framkvæmd veiðanna.
    Ég vil aðeins geta þess að það var mikið gert úr því hér að það væri gott að geta fylgst með þessum skipum í gegnum gervitungl og þá hafa menn jafnvel sagt sem svo: Með því er hægt að sjá hvort skipin eru að veiðum eða ekki. Þetta er ekki rétt. Menn sjá það alls ekki í gegnum gervitungl með staðsetningu hvort skipin eru að veiðum. Menn geta sé hraða skipanna, geta séð hvort þau eru á siglingu, þeir geta séð hvort þau eru á hægri siglingu eða hraðri siglingu. Þeir sjá ekkert um það hvort skipin eru með veiðarfæri í sjó eða ekki þannig að það eru eingöngu veiðieftirlitsmennirnir sem geta staðreynt það hvort skipin eru raunverulega að veiðum eða hvort þau eru að gera eitthvað annað. Hraði skipsins getur verið misjafn af mörgum ástæðum og þarf ekki endilega að þýða það að skipið sé að veiðum þó það sé á togferð þannig að sjálfvirk skylda um þetta atriði kveður ekki á um það með óyggjandi hætti þannig að menn geti staðreynt það hvort skip er að veiðum eða ekki að veiðum. En það gera hins vegar veiðieftirlitsmenn. Þeir hafa þær skyldur að fylgjast með aflasamsetningunni. Það er ein af þeim kröfum sem settar voru fram og þær náðust fram varðandi framkvæmd á því. Menn voru líka mikið að tala um veiðisvæðin, hvar þau ættu að vera. Svo einkennilegt sem það er, þegar þessi samningur kom upp, þá voru Sjómannasamtökin frekar inni á því að veiðisvæðin yrðu frekar útfærð þannig að þessi skip gætu einhvern tíma lokið veiðum.
    Það voru uppi tvö sjónarmið í þessum samningum á sínum tíma. Annars vegar að reyna að útfæra veiðisvæðin þannig að menn næðu litlum árangri við veiðarnar og hins vegar að þeir næðu upp aflanum sem þeir ættu að ná. Það var niðurstaða sjómannasamtakanna, tel ég vera eftir því sem ég veit best, að menn voru á því að láta þá hafa þau veiðisvæði þar sem þessum veiðum lyki þannig að menn væru ekki með þessi 5 skip hér of lengi inni í landhelginni. Það var sett niður tímabilið frá júlí til áramóta, það var líka að okkar ósk. Við vildum gjarnan að það yrði seinni hluta árs og vissulega væri það æskilegast í framkvæmd á þessum samningi að þessum EB-skipum tækist að klára aflaheimildir sínar einhvern tíma, t.d í okt., nóv., að þau væru ekki inni í landhelginni nema 4--5 mánuði á ári. Það væri vissulega ágætisstaða að þessum veiðum lyki sem fyrst. Þess vegna voru veiðisvæðin sett út með það að markmiði að menn næðu árangri við veiðarnar og væru ekki hér lengur en nauðsynlegt væri. Það voru tvö sjónarmið uppi í þessu máli eins og ég gat um áður. Það var annars vegar að gera skipunum jafnvel erfitt fyrir og hins vegar að þessu lyki og niðurstaða okkar varð sú að við vildum frekar að þessu lyki, menn kláruðu veiðiheimildirnar.
    Það hefur mikið verið talað hér um verðmæti og gagnkvæmni veiðiheimildanna. Nú geta menn vafalaust deilt mikið um það fram og til baka og ætla ég ekki að gerast dómari í því hvort veiðiheimildirnar eru hér á einhverjum jöfnum skyldum eða ekki. En það er samt ljóst að verðmæti þessara heimilda, ef við mundum landa þeim t.d. í Austurlandskjördæmi, þá mundu 3 þús. tonn af karfa leggja sig á meðalverði Austfjarða á 105 millj. en loðnan á 120 millj. ef við notum 35 kr. verð á karfa í Austurlandskjördæmi og hins vegar 4.000 kr. á loðnutonnið.
    Nú er það auðvitað ekki svo sem réttilega hefur verið bent hér á að karfanum sé öllum landað hér innan lands. Honum er að hluta til landað erlendis og menn leitast við að fá heimild til þess að gera það, en þá kemur hins vegar til 10% skerðing á karfaheimildunum. Menn þurfa að hafa fyrir því og það má vafalaust reikna sig þeim megin að það verði einhver plús út úr ef við segjum að 20% hlutfall sé selt á erlendum markaði, þá er vafalaust orðinn einhver plús út úr karfanum þannig veiddum og þannig seldum miðað við loðnu. En ætli menn verði þá ekki líka að setja eitthvað af loðnunni út og segja að það sé hægt að ná meira verði fyrir hana landaðri erlendis heldur en innan lands.
    Það má vafalaust um þetta deila. Ég ætla ekki að gerast dómari í þessu máli en svona lítur þetta út. Menn geta haft á þessu hver sína skoðun. Og ég tel að eftir atvikum hafi ekki komið við það athugasemdir frá Sjómannasambandinu eða Farmannasambandinu, þá geti menn við þetta unað í tengslum við EES-samninginn.