Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:51:37 (4653)


     Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í skýrslu þeirri sem gerð var eftir fundinn í Brussel mun hafa staðið, eftir því sem Morgunblaðið sagði fyrir kosningar: Forsrh. vildi taka fram að Ísland hefði verið og væri reiðubúið til að ganga frá fiskveiðisamningi sem tæki til rannsókna, þróunar, nýtingar og gæslu sameiginlegra fiskstofna og mögulegum gagnkvæmum skiptingum á fiskveiðiheimildum. Sem sagt, þetta er eflaust orðrétt það stendur í skýrslunni. Og staðreyndin er vitanlega sú að við höfum lengi verið skuldbundnir til þess að ganga frá samningi sem tekur til rannsókna, þróunar, nýtingar og gæslu sameiginlegra fiskstofna. En það voru síðustu orðin, ,,mögulegum, gagnkvæmum skiptum á veiðiheimildum`` sem leiddu til þess að Marin kom ekki til Íslands því að hann vildi fá nánari útlistun á því hvaða möguleikar þetta væru og ég varð að segja honum að eini stofninn sem við gætum hugsanlega boðið upp á, væri kolmunni. Það væri eini vannýtti stofninn. Þetta er staðreynd málsins og ég vona að hæstv. ráðherra vefengi þetta ekki því að sjálfur núv. forsrh. Davíð Oddsson var með þetta á kosningafundi hjá sjálfstæðismönnum fyrir kosningar. Og ég veit að í viðtölum sem fóru fram á eftir við Hannes Hafstein þá var þetta endurtekið, að við gætum því miður ekki boðið upp á aðra fiskstofna og það varð til þess að ekkert varð úr viðræðum. Þetta er staðreynd málsins og ég veit ekki hvað þarf út af fyrir sig að deila um það frekar.
    Ég vil vekja athygli á því að ég sagði í framsöguræðu minni fyrir minnihlutaálitinu að við hefðum talið samningu um skipti á loðnu og langhala miklu frekar koma til greina af því að langhalinn væri vannýttur fiskstofn.