Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:53:54 (4654)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það sem máli skiptir er það að hv. 7. þm. Reykv. hefur staðfest hér að hann lýsti því yfir á nefndum fundi með framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins að Íslendingar væru reiðubúnir að ganga frá samningi sem fæli í sér hugsanleg skipti á veiðiheimildum. Það er kjarni þessa máls sem hv. þm. hefur hér staðfest að hann hafi lýst yfir. Og auðvitað er það alveg fráleitt að sá maður sem hefur lýst þessu yfir fyrir Íslands hönd geti komið hér nokkrum missirum seinna og sakað aðra um að hafa gefið eftir í landhelgissigrinum. Auðvitað er það alveg fráleitt. Hitt er annað mál að hér var aðeins lesinn upp mjög lítill hluti af þessari fundargerð og það væri auðvitað æskilegt að hv. þm. beitti sér fyrir því að hún yrði birt í heild til þess að skýra þetta mál að öðru leyti, sérstaklega að því er varðar boð til Marins á þessum fundi um að koma hingað og hvaða aðrar fisktegundir voru nefndar á fundinum sem hugsanleg skipti á veiðiheimildum. Vegna þess að hv. 7. þm. Reykv. hefur nefnt það hér að á þessum fundi hafi verið tilgreindar tilteknar tegundir og fram hafi komið á fundinum boð til Marins um að koma hingað, þá er nauðsynlegt að fundargerðin sé birt að stærri hluta til þannig að sá hluti sem lýtur að heimboðinu og þessum tilteknu tegundum verði birtur.