Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 11:07:09 (4659)

     Guðjón A. Kristjánsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna ummæla hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur vil ég láta þess getið að bæði Farmannasambandið, Sjómannasamband Íslands og Sjómannafélag Reykjavíkur hafa haft af því verulegar áhyggjur á undanförnum árum hvernig kaupskipaútgerð hefur verið að þróast hér á landi og hvert þau störf væru yfirleitt að fara. Það var sett á fót nefnd á vegum samgrn. til að skoða þetta mál. Hún hefur ekki lokið störfum og ekki skilað af sér. Þar af leiðandi hefur ráðherra ekki lagt upp með neina stefnumörkun í málinu. En það er alveg ljós stefnumörkun frá Farmannasambandinu í þessu máli. Við viljum með öllum tiltækum ráðum reyna að tryggja þessi störf íslenskum þegnum og af því að þetta kom inn í umræðuna teljum við að það verði ekki gert með öðrum hætti en að gera íslenskar útgerðir samkeppnisfærar við útgerðir í öðrum löndum. Það þýðir einfaldlega, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, að tekjuskattur manna á farskipum, sem greiðist núna til íslenska ríkisins, þarf að falla niður. Þetta hefur verið gert í Danmörku með hvað bestum árangri. Danir hafa farið þá leið að fella niður tekjuskatt af sjómönnum sínum til danska ríkisins, en í staðinn hefur útgerð í Danmörku vaxið. Hún hefur vaxið mikið og er 80--90% af störfunum í danska flotanum gegnt af dönskum þegnum. Þar eru greidd svokölluð nettólaun.
    Mönnum kann að finnast það ankannalegt að tala um að það skuli fella niður tekjuskatt af fyrirtækjum sem jafnvel eru með hagnað, eins og sum skipafélög hér á landi, en þetta er samt staðreynd hins alþjóðlega umhverfis, að menn verða að geta keppt á jafnréttisgrundvelli. Verði það ekki mun að því koma að hér verður engin farskipaútgerð. Henni verður allri flaggað út. Menn þurfa að taka á þessu máli.