Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 11:12:16 (4662)

     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur fyrir að hreyfa þessu máli. Það er mjög brýnt að hagur íslenskrar kaupskipaútgerðar sé ræddur á hinu háa Alþingi og væri full ástæða til að gera það að sérstöku umræðuefni á dagskrá Alþingis.
    Nú eru aðeins eftir fjögur íslensk kaupskip í eigu Eimskips undir íslenskum fána. Það er ekki langt síðan eitt af skipum Eimskipafélagsins var fært undan íslenskum fána undir erlendan, en þó var engu öðru breytt, þ.e. áhöfnin er enn íslensk. Það er annað og miklu meira í farvatninu en bara það eitt að vera með skipin undir erlendum fána þegar sú staðreynd blasir líka við að skipafélögin eru með íslenskra áhafnir en þó undir erlendum fána. Það voru fjölmörg önnur atriði sem komu til greina sem ég veit að samgrh. er að láta skoða.
    Varðandi þá fækkun sem hefur orðið í íslenska kaupskipaflotanum, þ.e. í áhöfnum þeirra skipa og þeirra erlendu manna sem tekið hafa þeirra störf, þá er þó í EUROS-skráningunni gert ráð fyrir því að það sé takmörkun á þeim fjölda erlendra sjómanna sem geta verið við störf á tilteknum flota, hvort sem hann er íslenskur eða annarrar þjóðar.
    Ég held að það sé vissulega nokkur ávinningur að það sé hægt að sporna við fótum þannig að á öllum íslenskum kaupskipum verði Íslendingar að meginhluta til. Það má segja að þetta sé undanlát sjómannasamtakanna, en engu að síður er þetta sú þróun sem hefur orðið í Evrópu og það er mjög erfitt fyrir okkur að sporna við því nema með þeim hætti að EES-samningurinn verði með þeim hætti að við getum þó verndað þau störf eins og tiltekið er og hv. þm. Guðrún Helgadóttir kom inn á áðan.