Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 12:06:47 (4668)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það fór að líkum eftir ræðu hæstv. sjútvrh. í gærdag að umræður um þetta mál hafa lengst nokkuð og við öðru var varla að búast eins og hæstv. sjútvrh. blandaði sér í þessar umræður. Það var í framhaldi af ræðu hæstv. sjútvrh. sem ég kvaddi mér hljóðs og ég mun aðallega ræða nokkur efnisatriði sem fram komu í máli hans. Þeim hefur að vísu sumpart verið þegar svarað og þá sérstaklega af hæstv. fyrrv. forsrh. sem hefur mjög rækilega hrakið málflutning hæstv. sjútvrh. í gær og í raun og veru verður að segjast eins og er, hafandi hlýtt á frásögn hæstv. forsrh. af þeim fundum og því sem þar kom fram, að hann var vel að merkja á fundunum, hæstv. fyrrv. forsrh., en ekki hæstv. sjútvrh. Maður skyldi halda að þetta hefði jafnvel verið öfugt, jafnöruggur og hæstv. sjútvrh. var með sig þegar hann var að túlka það sem hafði gerst á þessum fundum í gær. En nú liggja þær staðreyndir fyrir að það var nú ekki heldur var það hv. 7. þm. Reykn., hæstv. fyrrv. forsrh., sem var á þessum fundum en ekki hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson.
    Ég taldi hæstv. sjútvrh., miðað við mína þekkingu á þessum málum, taka mjög óvarlega til orða í gær þegar hann fullyrti um það sem fram hefði komið af hálfu talsmanna Íslands á fundum með Evrópubandalaginu á árinu 1990. Ég tók það niður eftir hæstv. sjútvrh. að hann sagði í einni setningu t.d. að það hefði komið fram á þessum fundi 18. apríl að Íslendingar væru reiðubúnir til að semja. Í næstu setningu talaði hæstv. sjútvrh. um tilboð, um samningstilboð, sem hefði verið sett fram af hálfu Íslendinga. Frásagnir af fundinum sanna hið rétta svo ekki verður um villst, nema hæstv. sjútvrh. telji sig mann til þess að fullyrða að rangt sé farið með, að orðum hv. 7. þm. Reykn. sé ekki treystandi í þessum efnum. Þá skal hann líka vera maður til að koma í ræðustólinn og segja það. Ef hann annað tveggja telur sig vita betur hvað gerðist á fundi þar sem hann var ekki viðstaddur eða hann beinlínis telur að orðum og endursögn hv. 7. þm. Reykn. sé ekki treystandi, þá er eins gott að það komi fram.
    En þessi ummæli voru meiri en efni standa til, þau orð sem hæstv. sjútvrh. þarna notaði. Það hefur komið fram í umræðunum og ég lít svo á að þau séu fallin dauð og ómerk.
    Það liggur í raun og veru alveg fyrir hver staða þessa máls hefur verið allan tímann frá og með öndverðum áttunda áratugnum þegar samkomulag verður milli Íslands og Evrópubandalagsins í kjölfar átaka um útfærslu landhelginnar og ákveðið er að stefna að gerð samnings um samskiptamál, sérstaklega á sviði rannsókna og þróunar og hagnýtingar auðlindanna, en einnig um hugsanleg gagnkvæm skipti á veiðiheimildum.
    Evrópubandalagið ýtti á um gerð slíks samnings og það þekkja menn, en af honum varð ekki og í raun og veru komust aldrei í gang viðræður, ósköp einfaldlega vegna þess að það lá alveg skýrt fyrir af hálfu Íslendinga hver okkar staða í málinu væri. Ég get ekki betur séð en að í raun og veru hafi ekkert breyst, hvorki á fundum hæstv. fyrrv. sjútvrh. á árinu 1989 né á fundum í apríl 1990 sem hæstv. fyrrv. forsrh. og utanrrh. sóttu. Það sem fram kom af hálfu Íslands var óbreytt afstaða. Svo kemur hæstv. núv. sjútvrh. upp og reynir að skjóta sér á bak við þennan fund og að á honum hafi orðið einhver tímamót í afstöðu Íslands. Það er rangt. Það var óbreytt afstaða allt frá árunum 1974--1976 sem var í raun og veru ítrekuð og undirstrikuð af hálfu talsmanna Íslands á þessum árum, 1989--1990.
    Því var svarað þegar Evrópubandalagið tók það upp einu sinni sem oftar að þessi samningur hefði ekki verið gerður. Að sjálfsögðu yrði tekið á móti þeim ef þeir vildu koma hingað til viðræðna um þau mál. En það var líka tekið fram hvað af Íslands hálfu kæmi til greina að ræða. Og það var það sama sem hæstv. fyrrv. sjútvrh., sem hæstv. forsrh. og utanrrh. og sem samningamenn Íslands upplýstu Evrópubandalagið um og niðurstaðan varð sú að Evrópubandalagið kom ekki þá frekar en fyrr til viðræðna um kosti sem það taldi óaðgengilega.
    Algjört skilyrði af hálfu Íslendinga var að sjálfsögðu þá og allt fram að því að núv. ríkisstjórn hóf undanhaldið í viðræðum um gerð þess samnings sem hér er til umræðu að um raunverulega gagnkvæmni veiðiheimilda yrði að ræða, ef einhver slík skipti færu fram, á því formi að jafngildar veiðiheimildir í lögsögu Evrópubandalagsins kæmu á móti þeim sem Íslendingar létu.
    Í öðru lagi var það skilyrði af hálfu Íslendinga, lá alltaf fyrir, hafði verið margsagt Evrópubandalaginu, a.m.k. var okkur tjáð það þegar farið var yfir þessi mál og þau rifjuð upp í tíð fyrri ríkisstjórnar, að eingöngu vannýttir stofnar á Íslandsmiðum kæmu til greina í slíkum samskiptum og þá var bent á kolmunna. Það var eiginlega ekki búið að finna upp langhalann ef ég man rétt, alla vega var hann ekki nefndur í þessu tilviki.
    Í þriðja lagi lá það svo fyrir og var vitað þegar Íslendingar voru á þessum tíma að fara yfir þessi samskipti að Evrópubandalagið mundi væntanlega ekki frekar þá en fyrr hafa neitt að bjóða. Því væri í sjálfu sér ekki mikil áhætta tekin, ekki miklar líkur á því að yfirleitt kæmust þessi mál af stað. Ef við bara stæðum á okkar kröfum, eins og við höfðum gert, mundu aðstæðurnar Evrópubandalags megin frá sjálfkrafa gera það að verkum að málið kæmist ekki lengra og sú varð raunin því við vitum hvernig ástandið er í Evrópubandalaginu. Þeir hafa þurft að skera niður veiðiheimildir og hafa ekki upp á mikið að bjóða. Þannig liggur þetta nú fyrir og þegar svo búið er að afhjúpa þann orðaleik sem hér hefur átt sér stað í sambandi við örfáa belgíska síðutogara sem enn eru á grundvelli gamals samnings stendur eftir, svo ekki verður um það deilt, að með þessum samningi og veiðiheimildum Evrópubandalagsins er verið að brjóta í blað, er verið að opna flota Evrópubandalagsins leið inn í íslensku landhelgina sem ekki hefur verið hér og haft hér rétt til að veiða. Oft geta menn barið höfðinu við steininn og lengi og illa, en það þjónar tæpast tilgangi fyrir hæstv. stjórnarliða að gera það öllu frekar í sambandi við þetta atriði, svo skýrt er það.
    Ég vísa þá t.d. í ályktun Sjómannafélags Reykjavíkur, sem ég veit ekki hvort hefur verið gerður enn sá sómi að upphefja í ræðustólnum, en þar eru menn sem hafa þetta alveg á hreinu og þrátt fyrir formann sinn láta hlutina ekkert þvælast fyrir sér því þeir segja ósköp einfaldlega, eða framkvæmdastjóri þess félags, að það sé stórhættulegt fyrir Íslendinga að opna landhelgina fyrir þjóðum Evrópubandalagsins. Og hann segir, framkvæmdastjórinn, að það sé með öllu óskiljanlegt ef Alþingi Íslendinga samþykkir slíkt. Það var samþykkt á þessum fundi Sjómannafélags Reykjavíkur að lýsa yfir vanþóknun á því að eftir áralanga baráttu fyrir fiskveiðilögsögunni skuli eiga að opna hana fyrir EB-þjóðunum, sérstaklega þegar það er haft í huga að meðal þeirra eru þjóðir sem með margs konar þvingunum og hernaðarvaldi börðust hvað harðast gegn útfærslu landhelginnar á sínum tíma.
    Enn fremur skoraði þessi fundur á forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, að sjá til þess að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði yrði borinn undir þjóðaratkvæði og bættist þar í hóp fjölmargra aðila víða í þjóðfélaginu sem slíkt hafa gert á undanförnum dögum og vikum.
    Ég þakka þeim hjá Sjómannafélagi Reykjavíkur fyrir þessa kjarnyrtu samþykkt og að láta ekki, hvorki forustumenn sína né aðra, slá ryki í augun á sér og komast að kjarna málsins í fáum setningum eins og sjómönnum er gjarnan lagið.
    En það er nefnilega það sem hér er á ferðinni í raun og veru, hæstv. forseti, að hæstv. sjútvrh. í þrengingum sínum og örvinglan yfir þessu máli grípur á það ráð að reyna að drepa umræðunni á dreif og láta hana snúast um allt annað en það sem máli skiptir, sem er hin efnislega niðurstaða, sem er samningurinn sjálfur. Þess vegna fer hæstv. sjútvrh. út í þennan lítillækkandi málflutning varðandi það sem gerðist í tíð fyrri ríkisstjórnar af því hann vill forðast að ræða um efni samningsins. Hann vill forðast að ræða um þá staðreynd að það er verið að opna flota Evrópubandalagsins leið inn í íslensku landhelgina, þeim flota sem ekki hefur haft þar réttindi áður. Veiðiheimildir örfárra 30 ára gamalla belgískra síðutogara, sem eru persónulega bundin viðkomandi skipum, tvö eða þrjú eftir haffær, og eru þeir þó ekki kröfuharðir á haffærniskírteini verð ég að segja, Belgarnir, því þetta eru ekki merkilegir kláfar, eru ósambærileg heimildum fyrir flota hvaðanæva að úr Evrópubandalaginu, sem geta verið hvaða skip sem er, til að koma hingað til veiða árlega. Það sjá allir heilvita menn.
    En ég held að hæstv. sjútvrh. verði ekki mikið ágengt í þessum efnum. Hann mun ekki til lengdar ná að draga athyglina frá því sem máli skiptir og er efni þessa samnings og sú uppgjöf sem í honum felst gagnvart hagsmunum Íslendinga og réttarstöðu á þessu sviði.
    Hæstv. sjútvrh. taldi gagnrýnisatriði stjórnarandstæðinga aðallega hafa verið þrenns konar þegar hann fór yfir þetta mál hér. Það er að vísu ekki nema hálf sagan sögð því margt fleira hefur verið tilnefnt en þau þrjú atriði sem hæstv. sjútvrh. tók til. En það fyrsta hef ég gert að umtalsefni er þessi uppgjöf í landhelgismálunum. Og hver var vörn hæstv. sjútvrh. þar ef vörn skyldi kalla? Jú, hún var í reynd sú að ef þetta væri uppgjöf hefði hún a.m.k. komist á dagskrá í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það var vörnin. Jafnstórmannlegt og það nú er. Nú reynist það í fyrsta lagi rangt og í öðru lagi mun hæstv. sjútvrh. ekki verða mikið grand úr því að ætla að haga málflutningi sínum á þennan veg.
    Í öðru lagi sagði hæstv. sjútvrh. okkur stjórnarandstæðinga eða andstæðinga samningsins hafa gagnrýnt að ekki væri um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum að ræða þar sem við fengjum loðnuna hvort sem er. Þar var málsvörn hæstv. sjútvrh. enn aumlegri því hann reyndi ekkert að rökstyðja það. Það var þá helst

að það ætti að kallast rökstuðningur að við hefðum að vísu fengið þessa loðnu undanfarin ár og fengjum hana sennilega í ár ef hún væri veiðanleg, en það gæti komið að því einhvern tímann í framtíðinni að við fengjum hana ekki alla og þá væri gott að hafa svona samning því það gæti farið svo að loðnan færi aftur að ganga meira á Jan Mayen-svæðið, sem hæstv. ráðherra hefur væntanlega átt við, eins og hér á áttunda áratugnum og þá gæti verið gott að hafa svona samning.
    Það má líta á þetta sem rök og spyrja: Er þá rétt að gera svona samning fyrir árið 1993? Er mikið vit í því þegar alveg liggur fyrir hvernig loðnað hefur hegðað sér í aðdraganda þessarar vertíðar og þegar aðstæðurnar blasa við eins og hv. 1. þm. Austurl. fór yfir áðan? Eigum við að afsala okkur hagsmunum með þessum hætti vegna þess að e.t.v. verða göngur loðnunnar einhvern tímann á komandi árum þannig að staða Grænlendinga og Norðmanna til að ná sínum kvóta innan sinnar lögsögu eða utan íslensku lögsögunnar verður skárri en hún hefur verið undanfarin ár? Það er auðvitað alveg með ólíkindum ef menn ætla að veðja á slíkt. Auk þess verður að hafa í huga að reynsla manna af sumarveiðum á loðnunni er ekki ýkjalöng og við höfum ekkert fyrir okkur um að þetta stutta tímabil þegar loðnan var að nokkru leyti veiðanleg norður undir Jan Mayen sé eitthvað sem megi búast við með reglulegu millibili eða sé venja. Staðreyndin er sú að frá og með 1986 hefur hegðun loðnunnar, þó breytileg hafi verið innan vissra marka, að einu leyti verið mjög regluleg og það er það að loðnan hefur nánast ekkert verið veiðanleg fyrr en innan íslenskrar lögsögu. Nánast ekkert. En þetta er sá tími, frá 1986, sem er langmarktækastur um meiri háttar loðnuveiðar því ef við tökum aflann eins og hann var á árunum í aðdragandanum er þessi drift fyrst að komast í fullan gang þegar kemur fram á árin um og fyrir 1986. Það er þannig. Og sumarveiðarnar hefjast ekki fyrr en upp úr miðjum áttunda áratugnum, bara yfir höfuð ekki. Menn skulu fara ákaflega varlega í að draga mjög stórar ályktanir af því að Norðmenn náðu á 3--5 ára tímabili eða nokkurra ára tímabili dálitlum árangri við þessar sumarveiðar.
    Ekki var þetta að mínu mati merkileg málsvörn fyrir hæstv. sjútvrh. og það mætti reyndar segja fyrir hæstv. utanrrh. því hann fer víst með málið og í reynd viðurkenning á því að þarna er verið að borga 3.000 tonn fyrir loðnu sem við hefðum veitt hvort sem er ef við á annað borð verðum í færum til að ná henni, ef okkur tekst á annað borð að veiða upp okkar eigin kvóta sem verður að draga í efa, því miður, vegna þess að nú er að nálgast miðjan janúar og allt sem komið er á land eftir áramót eru 800 tonn, sín 400 tonnin af tveimur skipunum sem veiddust fyrir nærri viku og útlitið satt best að segja ekki allt of gott, a.m.k. ekki fyrir næstu daga eins og veðurhorfur eru.
    Í þriðja lagi kom svo hæstv. sjútvrh. inn á að gagnrýnt væri að þetta væru ekki jafngildar veiðiheimildir í raun hvað verðmæti snertir. Þá verð ég að segja, hæstv. forseti, að það er í mínum huga léttvægasti hluti þessa máls. Ég geri satt best að segja, þó það sé sjálfsagt að reyna að halda því til haga hvernig það dæmi stendur, minna með það nákvæmlega hvert hið endanlega uppgjör í þeim efnum yrði. Það sem gerir það að verkum að við höfum fjallað talsvert um það mál er hin ábyrgðarlausa framsetning hæstv. ríkisstjórnar á því að á þessum skiptum séu Íslendingar beinlínis að græða. Ef menn hefðu sleppt því að vera með munninn uppi um slíkt hefðu menn e.t.v. ekki gert það að stórkostlegu ágreiningsefni að líklega hallar þarna nokkuð á Íslendinga og í raun og veru augljóslega. Það er ekki versti þáttur þessa máls að mínu mati. Það sem hefur hins vegar gert hann fyrirferðarmikinn í umræðunni er þessi ábyrgðarlausi málflutningur eins og venjulega hjá hæstv. ríkisstjórn og beinlínis rangfærslur sem menn eru að verða næsta þreyttir á þessum málum og fylla tugi ef það er allt saman talið upp, þar sem hæstv. ráðherrar, auðvitað aðallega hæstv. utanrrh., hafa orðið berir að hreinum rangfærslum. En reiknikúnstir hæstv. sjútvrh., sem hefur gengið í þetta reikningshandverk, þetta reikningsmannalið og er að hjálpa hæstv. utanrrh. í því máli, eru satt best að segja harla broslegar. Ég leyfði mér í gær að líkja þeim við hinn kunna reikningsmann Sölva Helgason sem reiknaði barn í konur og vann fleiri afrek á þessu sviði og átti það fyrst og fremst sammerkt með hæstv. ríkisstjórn hvað aðferðafræðina snertir að hann taldi hina reikningslegu niðurstöðu jafnan réttari en veruleikann og mikilvægara það sem út úr reiknisdæminu kom en það sem í raunveruleikanum gaf að líta.
    Í fjórða lagi sagði hæstv. sjútvrh., og ég hlýt að leyfa mér að minnast aðeins á það af því mér fannst það alveg orðið dæmigert fyrir tilburði hæstv. ráðherra til að reyna að forðast að ræða efni málsins, sjálfan samninginn, og hæstv. sjútvrh. sagði það orðrétt, ef ég hef tekið það rétt niður, að kjarni málsins í sambandi við þennan samning væri sá að tryggt væri mjög gott eftirlit. Hæstv. sjútvrh. reyndi að gera að kjarnaatriði þessa máls að það væri tryggt svo gott eftirlit með veiðunum og þess vegna væri þetta allt í lagi. Ég verð nú að segja alveg eins og er að ýmislegt má reyna í röksemdafærslu, en guð minn góður, að í raun og veru sé það aðalatriðið að það sé tryggt nógu gott eftirlit og þá skipti ekki svo miklu máli með veiðarnar og hvernig þeir hlutir standa. Er það ekki þannig að það er lítið nema til þess að skammast sín fyrir ef eitthvað hefði upp á vantað eftirlitið ef menn eru að gera þennan samning á annað borð? En það er til þess að koma upp og guma af sem sérstöku ágætisatriði sem geri samninginn í sjálfu sér eitthvað betri fyrir okkur Íslendinga að það hafi tekist skammlaust að ganga frá eftirlitsþáttunum? Tæplega get ég tekið undir það.
    Í fimmta lagi, hæstv. forseti, örfá orð á nýjan leik um samhengi þessa máls sem ég hef reyndar áður gert að umtalsefni.
    Ég sé því miður ekki annað en að í hæstv. ríkisstjórn hafi átt sér stað mjög ógeðfelld hrossakaup

um nokkur mismunandi mál sem tengjast sjávarútvegi á Íslandi. Öll leystust þau upp í sama punktinum, nánast á sömu helginni svo sérkennilegt sem það var. Ráðherrar Sjálfstfl. og e.t.v. þingflokkur, ef þetta hefur verið borið undir hann en reyndar mun ekki vera venjan yfirleitt í Sjálfstfl. að vera mikið að tala við þingflokkinn, virðast hafa gengið inn á að það skuli koma á auðlindaskattur um mitt næsta kjörtímabil. Það var skýrt frá því sem sérstöku samkomulagi að stjórnarflokkarnir hefðu orðið ásáttir um að upphaf slíkrar gjaldtöku yrði á árinu 1996 eða 1997.
    Í öðru lagi var á einni helgi ákveðið að slengja saman í mikinn sjóð nokkrum mismunandi stærðum úr fjárhagslið sjávarútvegsins og búa til mikinn þróunarsjóð sem deilur hafa síðan staðið um hvort ætti að yfirtaka ekki bara eignir heldur líka skuldir sumra þeirra sjóða sem hann á að stofna úr. (Gripið fram í.) Lán og ýmislegt. En alla vega virðist ljóst að þarna eigi að slengja saman á einu bretti í sjóð, hvers efnahagsreikningur verður eitthvað á annan tug milljarða króna. Það munar um minna að búa slíkt til á samningafundum yfir eina helgi. Það hefur að vísu lítið heyrst eða sést til þessa sjávarútvegssjóðs síðan.
    Í þriðja lagi kom fram á sömu helgi, og það var dregið fram í dagsljósið m.a. með fundum utanrmn. og sjútvn., uppgjöf hæstv. sjútvrh. gagnvart samningum við Evrópubandalagið um samskipti á sviði sjávarútvegsmála. Hæstv. sjútvrh. var staffírugur gagnvart kröfum Íslands á sl. vori, ekki kæmi til greina að semja um annað en raunverulega gagnkvæmni í formi afla, fisk fyrir fisk. Því var lofað hátíðlega í sjútvrn. að ekki yrði hvikað frá þeirri frá þeirri kröfu og ekkert yrði aðhafst í því máli nema að höfðu samráði við sjútvn. Það var meira að segja svo að ráðuneytisstjórinn í sjútvrn. fór með sérstaka ítrekun á þessari ósk frá sjútvn. af fundi hennar um mitt sl. sumar. Það er staðfest í fundargerðarbók sjútvn. og á fundi sem nefndin átti á nýjan leik með ráðuneystistjóra sjútvrn. í haust staðfesti hann að hann hefði farið með þessi skilaboð.
    Engu að síður kemur í ljós að utanrrn. hefur á miðju sumri þreifað á því að gefast upp að hálfu fyrir Evrópubandalaginu. Það var ekki nóg því Evrópubandalagið heimtaði fulla uppgjöf af hálfu Íslands og fékk hana og sjútvrh. gafst upp fyrir þessari óbilgirni Evrópubandalagsins um sömu helgi og hann samdi um kvótann, auðlindaskattinn og þróunarsjóðinn. Og minnisblað utanrrn. frá þessum tíma, 16. nóv. í haust, sannar svo ekki verður um villst að þetta gerðist í sumar.
    Það má spyrja hvort sjútvrh. hafi e.t.v. samið um fleira þarna sem enn sé ekki komið fram og þá man ég allt í einu eftir ávísununum sem sjómenn áttu að fá vegna kvótakaupanna í framhaldi af skerðingu á þorskveiðiheimildum, útgerðarmenn. 500 millj. var lofað og því var lýst yfir á fundi á Flateyri að ætti að senda útgerðinni í framhaldi af þessu áfalli til að jafna stöðu hennar og þessar ávísanir yrðu sendar út fljótlega. Það bólar ekkert á þeim. Það er búið að loka fjárlögum án þess að gert sé ráð fyrir þessum peningum. Var kannski samið um það líka að þetta skyldi fara út af borðinu? Hæstv. sjútvrh. hefur að vísu sagt að þetta sé mál forsrh. því þetta sé byggðavandi og hefur afsalað sér að hluta til forræði yfir sjávarútvegsmálum í hendur hæstv. forsrh.
    Nei, staðreyndin er sú, hæstv. forsrh., svo maður dragi þetta saman, að því miður hefur hæstv. sjútvrh. gefist upp. Allt loft var farið úr hæstv. sjútvrh. Hann er sprungin blaðra. Það hvellsprakk á hæstv. sjútvrh. þarna þessa helgi, í byrjun desember hygg ég að það hafi verið. Hvellsprakk eins og sagt er á bílamáli. Nú er bara ekið á felgunum. Þetta er að mínu mati mjög dapurlegt vegna þess að hæstv. sjútvrh. klúðraði þarna niður stöðu sem hann hafði til að gæta hagsmuna íslenska sjávarútvegsins. Það er enginn vafi á að ef hæstv. sjútvrh. hefði verið maður fyrir sinn hatt og staðið í ístaðinu hafði hann sjávarútveginn á bak við sig í þeirri baráttu. Bæði gagnvart því að samþykkja ekki auðlindaskatt, gagnvart því að gefast ekki upp fyrir Evrópubandalaginu og í þriðja lagi því að reyna að skapa íslenska sjávarútveginum almennileg rekstrarskilyrði sem hæstv. sjútvrh. virðist líka hafa gefist upp gagnvart. Nú er hæstv. sjútvrh. landlaus maður því hann er búinn að fyrirgera þessum stuðningi algerlega og það finna allir sem þreifa á þessum málum þessa dagana. Og ég verð að segja alveg eins og er að þetta eru mér veruleg vonbrigði vegna þess að hvað sem um þetta ríkisstjórnaróbermi má segja verður að búa við hana á meðan hún er og menn verða að reyna að lifa það af að fá yfir sig svona ríkisstjórnir rétt eins og hver önnur hallæri sem yfir þá ganga.
    Ég hafði bundið vissar vonir við að sjávarútveginum yrði nokkur vörn í hæstv. sjútvrh. á meðan þetta gengi yfir. Ég þóttist vita að það væri ekki mikils skilnings að vænta hjá hæstv. ráðherrum Alþfl. í málefnum sjávarútvegsins sem ekkert hafa séð þar undanfarin ár annað en nauðsynina á skattlagningu á greinina í formi auðlindaskatts. Og ég sá ekki á málflutningi hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. að þar ætti sjávarútvegurinn mikla hauka í horni heldur, samanber t.d. fjárlagagerðina á síðasta ári þegar nýjum álögum upp á um milljarð króna var velt yfir á sjávarútveginn sem barðist í bökkum. Nei, en maður batt vissar vonir við að í hæstv. sjútvrh. yrði eitthvert hald í þessari erfiðu varnarbaráttu sjávarútvegsins sem er í bullandi taprekstri, hefur tekið á sig samdrátt í veiðiheimildum og er svo sótt að í þriðja lagi með nauðasamningagerð af þessu tagi.
    Hæstv. sjútvrh. talaði líka þannig á köflum að hann væri til í nokkuð harðan slag fyrir hönd sjávarútvegsins. Hann valdi sér óvini og skammaði þá alveg blóðugum skömmum í ræðum á aðalfundum LÍÚ og annars staðar. Og með því að velja sér aðila sem höfðu leyft sér að gagnrýna sjávarútveginn eða voru ekki beint vinsamlegir sjávarútveginum að mati hæstv. sjútvrh. í umfjöllun sinni gekk hæstv. sjútvrh. fram samkvæmt formúlunni: Ef ég skamma óvini þína er ég vinur þinn. Og þess vegna tók hæstv. sjútvrh. Morgunblaðið fyrir norður á Akureyri í fyrra og skammaði það alveg blóðugum skömmum fyrir skilningsleysi og hroka og andúð í garð sjávarútvegsins. Samkvæmt formúlunni: Ef ég skamma óvini þína er ég vinur þinn. Og hæstv. sjútvrh. skammaði Moggann.
    Hann fékk nýjan óvin á Akranesi í haust til að skamma. Háskóla Íslands og rektor. Og hellti sér yfir rektor sem væri þessi skilningslausi einangraði aðili í fílabeinsturninum sem leyfði sér að halda því fram að hann gæti rekið Háskóla Íslands með óbreyttu sniði ár frá ári án þess að fylgja öllum dýfum eða uppsveiflum í sjávarútvegi, þetta væri nú meira nautið. Og hæstv. sjútvrh. skammaði rektor samkvæmt formúlunni: Ef ég skamma óvini þína er ég vinur þinn. Og með ýmsum slíkum aðferðum reyndi hæstv. sjútvrh. að halda þeim skilaboðum gangandi að hann væri nú þrátt fyrir allt að gæta hagsmuna sjávarútvegsins þarna og stæði sig í því og tæki bara þó nokkuð upp í sig svona af og til.
    Með þessu öllu saman held ég að ég geti sagt að fram á síðasta haust hafi hæstv. sjútvrh. þrátt fyrir allt tekist þokkalega að halda sér réttu megin í málunum, að hafa vissa tiltrú og vissa samúð og vissan skilning hagsmunaaðila í greininni og fleiri aðila sem um þetta fjalla, þar á meðal stjórnarandstöðunnar sem viðurkenndi upp að vissu marki tilraunir hæstv. sjútvrh. í þröngri stöðu, eins og t.d. þegar við hvöttum hann til, hæstv. sjútvrh., og hjálpuðum honum til í fyrravor að afgreiða með hraði í gegnum þingið frv. til laga sem heimilaði útgreiðslur úr Verðjöfnunarsjóðnum. En nú er sem sagt, því miður, þessum hveitibrauðsdögum lokið, þeir eru búnir að vera og mikið meira en það, ég held að hjónabandið sé bara búið að vera, hæstv. sjútvrh. og sjávarútvegsins. Það hvellsprakk á hæstv. sjútvrh. þegar hann lak niður gagnvart þessum málum á dögunum. Hann lét undan kröfum Alþfl. um auðlindaskatt, samþykkti uppgjöf í samningum við Evrópubandalagið og dróst inn í þetta möndl með þróunarsjóðinn og guð má vita hvað. Allt til þess eins að kaupa óbreyttan kvóta, óbreytt kvótakerfi að því er virtist í einhver ár. Ja, dýr mundi Hafliði allur ef þessu verði er goldið óbreytt ástand eitt og veit ég ekki til þess að fyrr í Íslandssögunni hafi menn keypt óbreytt ástand jafndýru verði.
    Nei, hæstv. forseti, aftur að efni samningsins beint sem menn hafa farið í ýmsar skógarferðir út frá til að forðast að ræða það sem þetta mál snýst þó um, samningana við Evrópubandalagið um samskipti á sviði sjávarútvegsmála sem þessi samningur er bersýnilega okkur mjög óhagstæður um. Því ber að fella þennan samning ef ríkisstjórnin er svo gæfulaus að vilja knýja fram afgreiðslu hans nú. Það hefði auðvitað verið að mörgu leyti langskynsamlegt að láta samninginn liggja og bíða átekta og sjá hvað gerðist, auðvitað langgáfulegast. Gamalkunn og vel farsæl aðferð hér í þinginu er að salta mál, leyfa þeim að liggja í nefndum á meðan einhver óvissa gengur yfir og málin skýrast. Að hæstv. sjútvrh. er ekki einu sinni maður til þess að berja í borðið gagnvart hæstv. utanrrh. og segja: Nei, góði minn, nú bara geymum við þetta mál þangað til annað skýrist, er alveg með endemum lítilsiglt, að ná ekki einu sinni því fram, en ganga í það með hæstv. utanrrh. að pína fram afgreiðslu á þessum samningi nú til að það sé alveg öruggt að Evrópubandalagið fái hvað sem öðru líður þessi 3.000 tonn á árinu. Það verður ekki séð að tilgangurinn þess að pína fram samninginn nú sé annar. Það þjónar í raun og veru engum öðrum efnislegum tilgangi en þeim að uppfylla það skilyrði gagnvart Evrópubandalaginu að þeir fái örugglega 3.000 tonn af karfa. Það er nokkurn veginn borðleggjandi að það skiptir Íslendinga engu máli varðandi þessar loðnuveiðar ef loðnan á annað borð verður veiðanleg eða við í færum til að veiða hana, en þá hefðum við fengið hana hvort sem er, þá hefðum við tekið hana á þessari vertíð hvort sem er. Í öðru lagi verður ekki heldur séð að það þjóni neinum tilgangi í sambandi við samningagerðina um Evrópskt efnahagssvæði. Evrópubandalagið sjálft hefur ekki einu sinni samþykkt þann samning nema ein þrjú ríki og sá samningur gengur í fyrsta lagi í gildi ef hann þá nokkurn tímann gerir það, sem ég reyndar styrkist nú alltaf í trú á að verði ekki, um mitt þetta ár.
    Evrópubandalagið hefur enga kröfu á okkur þó svo að þeir hafi með einhliða bókun gert þennan tvíhliða samning að skilyrði ásamt nokkrum öðrum. Þeir hafa enga kröfu á okkur að við gerum það fyrr en þá rétt áður en þeir samningar koma til framkvæmda. Þá væri a.m.k. eini óvissunni færra í þessu máli og það væri hvað hefði gerst á þessari loðnuvertíð. Og ef þá verður sýnt eins og yfirgnæfandi líkur eru til, því miður, að við Íslendingar höfum í mesta lagi náð að veiða okkar eigin kvóta og ég óttast að við náum honum ekki einu sinni öllum, ég tala nú ekki um ef mælingar gera það að verkum að bætt verður við hann, þá þurfum við að minnsta kosti ekki að skaffa Evrópubandalaginu 3.000 tonn af karfa vegna loðnu sem við sannanlega veiddum ekki eitt einasta kvikindi af. En er það það sem vakir fyrir hæstv. sjútvrh. að hann sé svo gírugur í að koma út þessum karfaheimildum að hann vilji taka þátt í að pína þetta mál hér í gegn við þessar aðstæður?
    Hæstv. ráðherra. Það er búið að halda illa á þessu máli eins og margir fyrri ræðumenn hafa sagt og þar á meðal fyrrv. hæstv. sjútvrh. sem hefur talsverða reynslu af þessum málum. Og við höfum orðið vitni að því með dapurlegum hætti að hæstv. ríkisstjórn hefur verið út og suður í þessum efnum. Ráðherrarnir virðast lítið talast við. Þeir skiptast á skoðunum í ,,Þjóðarsálinni`` um viðkvæm hagsmunamál Íslendinga í samningum við erlenda aðila og það er aðhlátursefni fyrir þá sem á annað borð hafa geð í sér til að hlægja að svona málum hvernig þetta hefur allt saman gengið til.
    Ég skora eindregið á menn einu sinni enn að skoða nú hug sinn gagnvart því hvort það sé ekki öllum fyrir bestu að a.m.k. geyma þetta mál. Láta það bíða þar sem það er þá statt þangað til að að einhverju leyti skýrist með framhaldið og held ég að fyrir því megi færa mörg rök, en fyrir hinu fá að vera

að pína fram afgreiðslu á þessu máli nú.