Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 13:30:52 (4673)

     Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Í lok andsvara eftir síðari ræðu hæstv. sjútvrh. í gær lagði ráðherra fyrir mig þá spurningu hvernig í ósköpunum ég gæti verið á móti þessum samningi því ég hefði boðið upp á, að því er mér skildist, sambærilegt í Brussel 18. apríl 1990. Ekki veit ég hvað veldur þessari þráhyggju hæstv. ráðherra nema e.t.v. það að á árunum 1989 og 1990 ritaði hann margar greinar í Morgunblaðið sem lýstu biturleika og tilraun til að gera allt tortryggilegt sem gert var í þessum málum. Að vísu gekk nú Alþfl. miklu lengra rétt fyrir kosningarnar síðustu þegar í blaði flokksins, sem þá var, Pressunni, birtist auglýsing þar sem fyrrv. hæstv. sjútvrh., hv. þm. Halldór Ásgrímsson, var borinn þeim sökum að bera kápuna á báðum herðum eða vera ekki treystandi í þessum málum.
    En ég tel mig hafa skýrt þetta mál æði ítarlega í fyrri ræðu minni og reyndar gerði hv. þm. Halldór Ásgrímsson mjög vel grein fyrir þessu máli, hann rakti sögu þess. Sama gerði reyndar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon svo það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að endurtaka það sem hér hefur verið svo ítarlega greint frá.
    Ég hef orðið mér úti um fyrstu ræðu hæstv. sjútvrh. frá því í gær og hef lesið hana. Þar er að vísu af mjög mörgu að taka og gæti ég staðið hér lengi til að svara ýmsu sem þar kemur fram. En aftur vísa ég til þess sem fyrrnefndir hv. þm. hafa rakið svo það ætti að vera óþarft. Ég ætla því að halda mig fyrst og fremst við það hvers vegna ég get ekki lýst ánægju minni með þann samning sem nú er og reyna enn einu sinni að gera nokkra grein fyrir því sem fram fór á fundinum 18. apríl 1990 í Brussel.
    Ég tek eftir því að í upphafi sinnar fyrri ræðu í gær segir hæstv. sjútvrh., með leyfi forseta: ,,Af þessum málflutningi má ráða að þau sjónarmið séu uppi af hálfu þessa hv. þm. [þ.e. þess sem hér stendur] að það komi ekki til álita að gera samning um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum.``
    E.t.v. er skýringanna að leita í þessum misskilningi hæstv. sjútvrh., e.t.v. hefur það ekki komist til skila að ég hef ekki út af fyrir sig mótmælt því að gerður verði samningur um gagnkvæmar veiðiheimildir, enda séu þær gagnkvæmar. Ég ætla, með leyfi forseta, að vísa til orðréttrar ræðu minnar þar sem ég mælti fyrir áliti minni hluta utanrmn. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Fyrst þegar rætt var um þennan samning var um það talað að skipt yrði á 30 þúsund lestum af loðnu fyrir 3 þúsund karfaígildi og fullyrt þá að þessi ígildi yrðu að 2 / 3 hlutum langhala og 1 / 3 hluti karfi. Við þetta sættu aðilar í sjávarútvegi sig. Það kom fram nokkur stuðningur við þetta. Ég lýsi þeirri persónulegu skoðun minni að ég taldi þarna vera um hugmynd að ræða sem mætti skoða því að ég hygg að það sé almennt viðurkennt að langhalinn sé vannýttur . . .  ``
    Þetta er kjarni málsins. Ég hef áður lýst því að viðræðurnar sem fram fóru í Brussel komust út af fyrir sig aldrei neitt áleiðis. Þar var ekki um neinn samningafund að ræða sem hæstv. sjútvrh. gefur undir fótinn með. Hann velti sér upp úr því í sinni fyrstu ræðu og segist ekki hafa fundið það í gögnum að þar væri talað um veiði fyrir veiði og ég veit ekki hvað og hvað fleira. Ég veit vel að hæstv. sjútvrh. talar þar þvert um sinn hug því hann veit að þetta voru eingöngu áþreifingar og eins og hann hefur sjálfur sagt var þangað farið til að kynna sjónarmið Íslands og leggja alveg sérstaka áherslu á ýmsar sérkröfur sem við Íslendingar þurfum að gera. Hæstv. ráðherra veit mætavel að það var svar við þeirri stöðugu kröfu Evrópubandalagsins að gengið yrði frá samningi um fiskveiðar sem þeir hefðu lýst yfir þegar 1972 með bókun 6 að þeir teldu nauðsynlegt að gera. Að sjálfsögðu höfum við aldrei nokkurn tíma neitað því að halda áfram slíkum viðræðum. Við höfum alltaf tjáð okkur -- eins og kom svo greinilega fram í sögulegu yfirliti hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar -- reiðubúna til að halda áfram þessum viðræðum.
    En ástæðan fyrir því, eins og ég hef reyndar áður sagt og mér þykir leitt að þurfa að vera að endurtaka mig í þessu sambandi, að Marin, sem var sjávarútvegskommissar eða framkvæmdastjóri Evrópubandalagsins, þáði ekki þetta boð var einfaldlega sú að annars vegar bentu ég og Hannes Hafstein á einu vannýttu fiskstofnana sem við höfum, þ.e. kolmunna, og hins vegar, þegar því var hafnað, spurðum við ætíð og höfðum spurt um nokkurn tíma: Hvaða jafngildar veiðar getið þið bent okkur á innan ykkar fiskveiðilögsögu? Og við fengum aldrei nokkurn tíma nein svör við því. Það var satt að segja talið nokkuð klókt að koma boltanum þannig til þeirra. Það hafði enginn þá hugmyndaauðgi, ef ég má kalla það svo, að láta sér detta í hug að skipta við Evrópubandalagið á grænlenskri loðnu sem veidd yrði innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, eins og nú er verið að gera. Það datt engum í hug. Meira að segja datt þeim ekki í hug að benda á slíkt þó að þeir hefðu aðgang að þeirri loðnu með sérstökum samningi við Grænlendinga. Það er seinni tíma mál. Og það er kjarni málsins að það hefur enginn gagnkvæm veiði fengist innan lögsögu Evrópubandalagsins eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson rakti svo ítarlega áðan.
    Ég tek líka eftir því að í ræðu hæstv. sjútvrh., fyrri ræðunni í gær, segir hann, með leyfi forseta: ,,Hv. 1. þm. Austurl. sagði á hinn bóginn í sinni ræðu að það hefði alltaf legið í loftinu að slík gagnkvæmni gæti komið fram. Og á fundi embættismanna í Maastricht 1990 hefði komið fram að hugsanlega mætti gera fiskveiðisamning með gagnkvæmum skiptum á veiðiheimildum, en það mætti þó ekki verða til þess að minnka umsvif okkar eigin skipa.``
    Hvað þýðir þetta? Það þýðir að þetta gat ekki orðið þannig að veiðar okkar eigin skipa minnkuðu nema það kæmi fullkomið ígildi þess í staðinn þannig að umsvifin minnkuðu ekki á nokkurn máta. Og aftur endurtek ég að enginn var svo hugmyndaríkur að láta sér detta í hug að við þægjum að veiða grænlenska loðnu innan íslenskrar fiskveiðilögsögu í staðinn fyrir það sem Evrópubandalagið fengi innan lögsögu okkar Íslendinga.
    Þetta er kjarni málsins og það er vitanlega þess vegna sem við gagnrýnum þennan samning. Ekki vegna þess að þarna hafi verið leitað eftir því að fá gagnkvæmar veiðar heldur vegna þess að þær fengust ekki. Það fengust ekki, því miður, gagnkvæmar veiðar. Það er ekki gagnkvæmni í því að leyfa hér veiðar af fullnýttum fiskstofni og taka mjög óvissa heimild til þess að veiða loðnu innan okkar eigin fiskveiðilögsögu í staðinn. Það er ekki sú gagnkvæmni sem nokkrum manni hafði áður dottið í hug. Ég vona að þetta komist nú til skila og til hæstv. sjútvrh. Það er athyglisvert að yfirleitt sleppir hann því að nefna, sem kemur þó fram í fundargerðinni sem ég las upp úr, að við værum tilbúnir að fjalla um mögulegar gagnkvæmar veiðar. Það er einmitt í sambandi við það orð, hvað menn meintu með því, sem síðan strandaði því það náði aldrei nokkurn tíma saman.
    Hæstv. ráðherra talaði um það í gær að rétt væri að birta fundargerð frá þessum fundi og eflaust fleirum og hv. 1. þm. Austurl. hefur tjáð sig reiðubúinn að standa að því. Út af fyrir sig hef ég ekkert á móti því heldur. Ég er samt sem áður þeirrar skoðunar að þá verði tekinn upp afar varhugaverður siður og ég vil geta þess að þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fór fram á það að birtar yrðu ákveðnar fundargerðir ríkisstjórnarinnar ræddi núv. hæstv. forsrh. við mig og við vorum sammála um það að þann sið bæri ekki að taka upp. Ég hef að vísu leitað hjá mér að fundargerð frá fundinum í Brussel og því miður virðist ég ekki hafa hana, hún er í skjölum ráðuneytisins. En núv. formaður Sjálfstfl. og núv. hæstv. forsrh. komst yfir þá fundargerð og gerði sér lítið fyrir og las upp úr henni án þess að mér sé kunnugt um að til þess hafi verið veitt heimild -- hún var trúnaðarmál og er að því er ég best veit -- á fundi fyrir síðustu kosningar. Það sem ég las upp úr fundargerðinni er tekið upp úr frétt Morgunblaðsins af þeim fundi. Því miður hef ég ekki fundargerðina sjálfa. Ég gerði mér far um að finna hana í gær en fann hana ekki.
    Hins vegar get ég sagt frá þeim fundi að hluti hans var lokaður fundur með Delors. Þar var sendiherra Íslands, Einar Benediktsson, staddur. Ég efast um að Delors óski eftir því að allt verði birt sem þar koma fram, a.m.k. væri þá eðlilegt að leita leyfis hjá honum til þess. Ef slíkt leyfi fæst frá Evrópubandalaginu og samþykki er ég svo sannarlega ekki á móti því að fundargerðin verði öll birt og teldi það að mörgu leyti verða til að hreinsa andrúmsloftið, a.m.k. áreiðanlega sýna fram á að engar viðræður fóru þarna fram um veiðar fyrir veiðar o.s.frv., ekki neinar.
    En eins og ég hef áður sagt er það talað skýrast í þessu máli að Marin tók ekki boðinu að koma hingað til áframhaldandi viðræðna. Hann tók því ekki af því hann fékk ekki svör sem hann taldi viðunandi við þeirri lykilspurningu sem allt hafði strandað á, hvaða veiðar gæti Evrópubandalagið fengið hér á Íslandsmiðum.
    Virðulegi forseti. Aðeins til að draga þetta saman ef það mætti varpa enn ljósi á þessa hluti: Það er sem sagt misskilningur hjá hæstv. sjútvrh. að ég eða við framsóknarmenn höfum verið á móti öllum gagnkvæmum veiðisamningi. En hann verður að vera gagnkvæmur. Við teljum að ef hann er ekki fullkomlega gagnkvæmur séu þær einu veiðar, sem við getum bent á hér, veiðar á vannýttum fiskstofnum sem er eingöngu kolmunninn. Það má segja að það sé rétt, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér áðan, að þá var langhalinn ekki uppgötvaður. Menn vissu a.m.k. ekki í hvaða magni hann væri hér. Og miðað við það að fá veiðar af loðnu í okkar eigin fiskveiðilögsögu, grænlenskri loðnu, höfum við talið að ásættanlegt hefði verið að heimila veiðar á langhala, þessum vannýtta fiskstofni, fyrst Evrópubandalagið situr enn við sinn keip og samþykkir ekki veiðar á kolmunna.

    Svo einfalt er þetta mál. Og mér þykir satt að segja koma úr hörðustu átt þessi viðleitni hæstv. sjútvrh. til að gera allt það tortryggilegt sem á undan er gengið og bera í bætifláka fyrir það sem nú er gert þegar tekið er tillit til þess að fáir hafa stutt meira viðleitni hæstv. sjútvrh. til að fá samþykktar veiðar fyrir veiðar en við framsóknarmenn. Ég taldi það mjög virðingarverða viðleitni og sannarlega til að bæta nokkuð þennan samning og ég þarf ekki að endurtaka ýmis þau önnur stór orð sem hæstv. sjútvrh. hefur um þetta mál haft og virtist þá mjög ákveðinn að fá úr þessu betri samning en hæstv. utanrrh. hefði lagt upp í hendur á honum. Því miður mistókst það. Ég held það sé sjálfsagt að viðurkenna það. Það mistókst. Það tókst ekki að fá samþykktar veiðar fyrir veiðar, sem var lykilatriði í málflutningi hæstv. sjútvrh., og það harma ég ekkert síður en hann áreiðanlega.
    Virðulegi forseti. Ég hef enn einu sinni lagt í að skýra hvernig í þessum málum liggur og vísa jafnframt enn einu sinni til ítarlegrar söguskýringar hv. 1. þm. Austurl., sem varpaði miklu ljósi á þessi mál, og sömuleiðis það sem hv. þm. Steingimur J. Sigfússon sagði áðan.