Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 14:21:47 (4679)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég stend við það að á þessum fundi, samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja, kom það fyrst til tals af okkar hálfu að Ísland væri reiðubúið til þess að ganga til samninga um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum. En það er hins vegar satt og rétt að það mál hafði oft áður verið til umræðu og var þess vegna ekki í þeim langa aðdraganda að frumkvæði Íslands þó að það hafi komið upp á þann veg á þessum fundi samkvæmt þeim gögnum sem fyrir hendi eru.
    En aðalatriðið í þessu máli er að þá var það skref stigið að því var lýst yfir að við værum reiðubúnir til þess að gera slíkan samning. Menn geta síðan deilt um hvort að niðurstaðan feli í sér fullkomið jafnvægi eða ekki. Núv. ríkisstjórn telur að það sé ásættanlegt en hv. þingmaður og stjórnarandstæðingar geta metið það á annan veg. En þá ræða menn um það en ekki hitt, hvort það hafi verið óeðlilegt að gera samninga um gagnkvæm skipti.