Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 14:27:26 (4683)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það kemur úr hörðustu átt þegar hv. 4. þm. Austurl. talar með þessum hætti. Sjálfur varði hann með atkvæði sínu fyrrv. ríkisstjórn í þeim tilgangi m.a. að hún gæti átt í viðræðum af þessu tagi, í viðræðum eins og þeim sem fram fóru 18. apríl í Brussel, þar sem verið var að ræða sérstöðu Íslands. Það hefur sérstaklega verið tekið fram af hálfu þeirra sem þann fund sátu fyrir hönd Íslands að hann hafi snúist um sérstöðu Íslands. Og á fundi með framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins um sérstöðu Íslands var af hálfu þeirrar ríkisstjórnar, sem hv. þm. varði, tekið upp að Ísland væri reiðubúið að gera slíkan samning um hugsanleg skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum. Það kemur úr hörðustu átt þegar hv. 4. þm. Austurl., sem varði þá ríkisstjórn sem að þessu stóð, kemur nú og telur sig umkominn þess að vera að gagnrýna samningsniðurstöður.