Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 14:29:30 (4685)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. þm. er að gera því skóna að Alþb. hafi verið leynt upplýsingum um þann fund sem þarna fór fram og það væri þá ástæða til að fá skýrt fram hvort svo var. En aðalatriði þessa máls er að hv. þm. varði með atkvæði sínu setu þáv. ríkisstjórnar, tryggði að hún gæti unnið að þeim málum með þeim hætti sem gert var. Ég hygg að við öll, sem sátum á þingi það kjörtímabil, jafnvel við sem vorum í stjórnarandstöðu, höfum gert okkur grein fyrir því að hvaða verkum hún var að vinna. Kemur þá nokkuð spánskt fyrir sjónir ef þingmenn Alþb., sem voru í stjórnarliðinu, vissu það ekki. En hv. þm. tók pólitíska ábyrgð á þessum störfum með því að styðja og verja ríkisstjórnina á þinginu.