Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 14:34:30 (4689)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Við höfum sjálfsagt báðir orðið fyrir jafnmiklum vonbrigðum, ég og hv. 1. þm. Austurl., þegar það lá ljóst fyrir að langhali yrði ekki hluti af samningsniðurstöðunni og óþarfi að fjölyrða meir um það.
    En hitt er alveg augljóst að það er ekki réttur mælikvarði til að meta mismunandi verðgildi einstakra stofna þegar vinnsla á þessum fisktegundum er tekin inn í dæmið. Þegar annar stofninn er unninn mun meir um borð í fiskiskipum en hinn getur ekki verið um að ræða eðlilegt mat á veiðiheimildunum sjálfum. Það mætti eins fara að velta fyrir sér hvert væri útflutningsverðmæti þessara tegunda eftir að hafa verið unnar í landi. Ég tel að það standi enn óhaggað að þessir verðstuðlar eru ekki nothæfir í þessu samhengi.