Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 14:35:41 (4690)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. sjútvrh. er nú allur á miklu undanhaldi í þessu máli og leggur sig mjög fram um að friðmælast við þá sem hann réðist á í gær, svo sem hv. 7. þm. Reykn. Það er til mikilla bóta að hæstv. sjútvrh. hefur nú séð að sér og er að renna af honum móðurinn eftir upphlaup hans í gær.
    Ég vil að hæstv. sjútvrh. hafi nákvæmlega rétt eftir það sem ég sagði um þetta mál, hvort sem hann er að nota það til að reyna að digta hér upp ágreining eða í einhverju öðru sambandi. Ég sagði að það sem ég teldi skorta upp á gagnkvæmnina hvað snertir jafngild verðmæti væri léttvægara í mínum huga en aðrir þættir sem þarna er ábótavant og þó sértaklega að þarna er alls ekki um neina gagnkvæmni að ræða hvað það snertir að við fengum þessa loðnu og höfum veitt hana hvort sem er. Þar er að sjálfsögðu miklu meiri munur á að um gagnkvæmni sé að ræða en í hinu hvert nákvæmlegt verðmæti þessa afla verður upp úr sjó. Sömuleiðis skortir enn meira á gagnkvæmnina að allar veiðarnar fara fram í lögsögu annars aðilans en ekki í lögsögu beggja.
    Þetta var í grófum dráttum það sem ég var að fara, hæstv. sjútvrh., og ég sé ekki að á þessu sé mikill munur og þeim málflutningi sem aðrir andstæðingar samningsins hafa haft í frammi.