Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 14:37:12 (4691)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er sjálfsagt af minni hálfu að friðmælast við menn þegar kveður við nýjan tón og það gerðist sannarlega í ræðu hv. 7. þm. Reykn. og ég fagna því. Þó að ég sé ekki sammála hans mati um mat á gildi veiðiheimildanna eru menn þó farnir að ræða með málefnalegum hætti um þennan ágreining en ekki með aðdróttunum um að einhverjir séu að gefa eftir í þeim mikla sigri sem þjóðin vann sameinuð við útfærslu landhelginnar.
    Ég ætla svo ekki að eyða fleiri orðum að hv. 4. þm. Norðurl. e. Hann sagði í ræðunni að jafngildi veiðiheimilda í verðmætum væri léttvægasti hluti málsins og er þar enn að halda sig við annað heygarðshorn í sinni röksemdafærslu gegn þessum samningi en talsmenn Framsfl. hafa gert í þessari umræðu og hann getur ekki hlaupið frá þeim orðum.