Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:25:04 (4716)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Hæstv. forseti. Öflugt atvinnulíf er forsenda raunverulegs sjálfstæðis og sjálfstæði er undirstaða alls þess sem þjóð okkar stendur fyrir. Það er skoðun allra þeirra er styðja þennan samning, þar á meðal forustumanna í okkar atvinnulífi, að hann sé mjög mikilvægur fyrir okkar atvinnu- og efnahagslíf. Þess vegna treystir aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu stöðu okkar og sjálfstæði. Við höldum að sjálfsögðu fullu forræði í okkar málum og engar nýjar reglur né breytingar á EES-reglum sem varða íslensk lög geta tekið gildi án samþykkis Alþingis. Þessi samningur er mikilvægur fyrir konur því fjölbreytt atvinnulíf styrkir stöðu þeirra og jafnrétti. Ég vísa í mikilvægar reglur samningsins um að hægt sé að lýsa dauð og ómerk ákvæði í kjarasamningum sem brjóta í bága við grundvallarregluna um jöfn laun og vernd fyrir því að vera sagt upp starfi þegar höfðað er mál vegna brots á jafnréttislögum.
    Virðulegi forseti. Aðild að Evrópska efnahagssvæðinu er leið okkar inn á Evrópumarkað án skuldbindinganna sem fylgja Evrópubandalaginu. Við höfum aldrei fylgt einangrunarstefnu, miklu fremur verið fámenn þjóð með mikil áhrif. Þannig munum við áfram stefna til framtíðar á jafnréttisgrundvelli í samfélagi þjóðanna. Ég segi já.