Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:29:06 (4719)

     Sólveig Pétursdóttir :
    Hæstv. forseti. Þeir hv. þm. sem lýst hafa andstöðu sinni við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, margir hverjir í löngu máli, hafa notað ýmis rök máli sínu til framdráttar og ekki öll málefnaleg. Einna helst hefur þó hinni íslensku stjórnarskrá verið beitt í þessu máli, en þau tvö frumvörp sem stjórnarandstaðan lagði fram til breytinga á henni nú í vetur reyndust haldlítil og var vísað til ríkisstjórnarinnar. Á það hefur margsinnis verið bent að búið er að kanna vandlega stjórnarskrárþátt þessa samnings og að aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu eigi að rúmast fyllilega innan heimilda stjórnarskrárinnar í núverandi mynd. Þau rök hafa m.a. heyrst til andsvara þessu að það verði að skýra 2. gr. stjórnarskrár og það fullveldi sem hún kveður á um með tilliti til þess að stjórnarskrárgjafanum hafi aldrei hugkvæmst að íslenskt ríkisvald yrði framselt alþjóðastofnunum, enda hafi þær verið óþekktar þegar ákvæðið kom fyrst í stjórnskipunarlög okkar. Fyrir vikið virðist þó vera litið svo á að ekkert valdaframsal fái staðist, hvorki afmarkað né víðtækt.
    Á þessi rök tel ég fullt tilefni til að deila. Það er ekki aðeins svo að þau stríði gegn fræðikenningum á þessu sviði heldur stríða þau einnig gegn þeim hefðum sem hafa myndast hér með lagasetningu um takmarkað valdaframsal. Að auki byggja viðhorf af þessum toga á því að skýra verður stjórnarskrána í einu og öllu bókstaflega og þegar vafi er á

skýringu verði að byggja á því hvað telja megi að hafi búið að baki ákvæðum hennar í öndverðu. Hvert mundi fylgni við þessi viðhorf geta leitt okkur? Eigum við þvert ofan í almennar viðurkenndar reglur að hverfa aftur til fortíðarinnar og skýra grundvallarreglur 72. gr. stjórnarskrárinnar um rétt hvers og eins til að láta hugsanir sínar í ljósi á prenti svo þröngt að þar sé aðeins átt við ritað mál en ekki t.d. ummæli í ljósvakafjölmiðlum? Á að takmarka stjórnarskrárvernd tjáningafrelsisins á þeim grunni að sjónvarp hafi ekki verið til við setningu stjórnarskrárinnar? Dæmi eins og þessi, og fleiri gætu þau verið, hljóta að opna augun fyrir því að viðhorf um skýringu stjórnarskrárinnar sem byggja á fylgni við ímyndaðan vilja stjórnarskrárgjafans fái engan veginn staðist. Það verður að beita ákvæðum stjórnarskrárinnar með tilliti til þarfa og aðstæðna á hverjum tíma og getur því ekki verið nein afgerandi röksemd í þessu sambandi hvað maður telur sig geta ráðið í eyðurnar á árinu 1992 um hugsanir þeirra sem sömdu um ákvæði stjórnarskrárinnar í öndverðu.
    Hæstv. forseti. Ég tel að öll atriði sem snerta þennan samning, bæði hvað varðar stjórnskipulegan og efnislegan þátt, hafi verið fullrædd og að kostir hans varði miklu fyrir íslenska hagsmuni. Ég segi því já.