Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:32:56 (4721)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Öll viljum við Íslendingar væntanlega eiga góð samskipti við aðrar þjóðir. En ég er sannfærður um að aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, aukaaðild að Evrópubandalaginu, er ekki farsæll farvegur þeirra samskipta fyrir Íslendinga. Evrópska efnahagssvæðið á enn langt í land. Fram til þessa hefur það verið svo að jafnoft og einhver niðurstaða hefur virst í sjónmáli hefur eitthvað annað komið upp sem hefur frestað málinu. Sú staða er uppi enn. Þótt hæstv. ríkisstjórn takist e.t.v. nú að berja þetta mál í gegn er fullkomin óvissa um hvort eða þá hvenær þessi samningur eða annar sambærilegur verður nokkurn tíma að veruleika. Ég tel samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og allt sem honum fylgir ekki til hagsbóta fyrir Íslendinga. Ég tel galla samningsins vega miklu þyngra en kostina. Ég tel það dapurlegt ef það eiga að verða örlög okkar Íslendinga að afsala hluta af okkar fullveldi úr landi áður en lýðveldið fagnar hálfrar aldar afmæli sínu. Ég get ekki og hef aldrei getað skilið þau rök að vænlegsta aðferðin til að varðveita sjálfstæði sitt sé að fórna hluta þess. Ég gagnrýni hæstv. ríkisstjórn fyrir framgöngu hennar í málinu. Hún hefur sundrað þjóðinni og hún hefur ekkert gert til að reyna að samræma sjónarmið.
    Hæstv. forseti. Ég er efnislega andvígur þessu frv. Ég tel samþykkt þess brot á íslensku stjórnarskránni. Ég átel málsmeðferðina. Ég vona að gæfa Íslands verði meiri en sú að þetta nái nokkurn tíma óbreytt fram að ganga. Ég segi nei.