Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:41:10 (4725)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :

    Virðulegi forseti. Evrópskt efnahagssvæði yrði ekkert bjargráð fyrir íslenskt atvinnulíf heldur þvert á móti. Eitt helsta markmiðið með myndun þess er að jafna skilyrði atvinnulífs innan svæðisins. Eitt helsta einkenni þess er sífellt vaxandi atvinnuleysi, atvinnuleysi sem varaformaður Alþjóðavinnumálastofnunarinnar segir að stefni í ástand á borð við plágur og drepsóttir miðalda þegar við lá landauðn á þeim svæðum sem verst urðu úti. Íslensku launþegasamtökunum hefur verið neitað á Alþingi um þjóðaratkvæði um EES, en það var krafa þeirra. Atvinnuleysi er mikið böl og það hefur komið harðast niður á konum bæði hér á landi og annars staðar. Þessi ástæða er ein af mörgum ástæðum þess að ég hafna Evrópsku efnahagssvæði. Ég segi nei.