Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:42:26 (4726)

     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Okkur Íslendingum er gjarnt að gleyma því í hátíðleika velferðarþjóðfélagsins að okkar þjóðfélag er fyrst og fremst veiðimannaþjóðfélag því hryggbitinn í gjaldeyristekjum þjóðarinnar af vöruútflutningi kemur frá sjávarútvegi eða yfir 80%. Því nefni ég gleymsku í hátíðleika velferðarþjóðfélagsins að þegar til kastanna kemur í almennri umræðu í okkar þjóðfélagi, þá er sjaldnast tekið tillit til þeirra sem vinna erfiðustu störfin til sjós og lands, en það eru þeir sem eiga mestra hagsmuna að gæta og til hins góða í samþykkt samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Samkomulagið kemur til með að hafa gífurlega þýðingu fyrir íslenskan sjávarútveg og mun væntanlega styrkja hann til muna í samkeppni við sjávarútveg annarra þjóða. Samkeppnisaðstaðan gerbreytist. Evrópska efnahagssvæðið er enginn stórisannleikur út úr vanda íslensks sjávarútvegs, vanda sem fer saman við efnahagsvanda íslensks þjóðfélags, en Evrópska efnahagssvæðið er mikilvægt skref út úr vanda þjóðarinnar og opnar ýmsa möguleika í þá átt að tryggja framþróun í íslenskum sjávarútvegi svo hann vaxi enn frekar, svo og ýmsir aðrir þættir íslensks atvinnulífs.
    Í öllum samningum eru plúsar og mínusar. Fyrir Íslendinga eru plúsarnir miklu fleiri. Við mínusana eigum við að ráða með markvissri stjórnun. Evrópska efnahagssvæðið styrkir sjálfstæði Íslands á dýrmætustu mörkuðum okkar og með samþykkt samningsins erum við á réttri leið til framþróunar og aukinnar hagsældar fyrir íslenska sjálfstæða þjóð. Ég segi já.