Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:47:45 (4729)

     Einar K. Guðfinnsson :

    Virðulegi forseti. Samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði gefur íslensku atvinnulífi sóknarfæri og mun því renna styrkari stoðum undir efnahagslíf okkar. Þetta á ekki síst við um íslenskan sjávarútveg sem fær margvíslegan ávinnig vegna tollalækkana sem koma hefðbundnum greinum hans eins og saltfiskvinnslu strax til góða og skapa rekstrarskilyrði og þar með möguleika á nýjum störfum fyrir vinnufúsar hendur á nýjum sviðum sjávarútvegs. Með öflugra atvinnulífi getum við hamlað gegn erlendri skuldasöfnun og styrkjum þannig efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Í frjálsu samstarfi okkar sem sjálfstæðrar þjóðar við nágrannaþjóðir okkar í Evrópu á grundvelli samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði fáum við aukið færi á að hafa áhrif á rás atburða í heiminum. Þannig treystum við stöðu okkar sem fullvalda þjóðar. Því segi ég já.