Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 16:05:00 (4737)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Frú forseti. Ef allt væri með felldu ætti þessi atkvæðagreiðsla að setja endahnútinn á það samningaferli sem hófst í mars 1989 þegar þáv. ríkisstjórn ákvað að taka upp samningaviðræður við Evrópubandalagið um aðild EFTA-ríkjanna að innri markaði bandalagsins. Grundvöllur þeirra viðræðna var allt frá upphafi þær samþykktir EB sem varða hið svokallaða fjórfrelsi. Þó að ástæða sé til að efast um ágæti ýmissa grundvallarþátta hins innri markaðar verður tæpast hjá því komist að Íslendingar verði að aðlaga sig þeim leikreglum í viðskiptum sem þar gilda. Það er skoðun mín að aðlögun í formi samnings um Evrópskt efnahagssvæði sé við þessar aðstæður íslensku samfélagi hagfelldari en einhliða aðlögun. Á því byggist efnisleg afstaða mín í þessu máli.
    Þá vil ég leggja áherslu á í þessu máli að ekki sé lesið meira út úr samningnum en í honum felst og greint á milli almennra þróunareinkenna vestræns hagkerfis og samfélags og beinna afleiðinga samningsins.
    En þrátt fyrir þessar skoðanir mínar mun ég ekki greiða staðfestingarfrv. atkvæði mitt hér á þingi. Það sem ræður þessari niðurstöðu minni öðru fremur er í fyrsta lagi að stjórnarflokkarnir hafa hunsað eindregnar óskir tugþúsunda einstaklinga og fjölmennra eða fjölmennustu hagsmunasamtaka almennings í landinu um að samningurinn verði borinn undir þjóðaratkvæði.
    Í öðru lagi ræður það niðurstöðu minni að ekki hefur verið vilji til þess hjá stjórnarflokkunum að taka af allan vafa um að samningurinn standist gagnvart stjórnarskránni.
    Af þessum sökum, virðulegur forseti, greiði ég ekki atkvæði.