Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 17:10:51 (4751)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að við vitum það öll, bæði ég, hv. 17. þm. Reykv. og hæstv. sjútvrh. sem kaus að nota orðið ,,staðsetningartæki`` eins og ég, að við erum að meina nákvæmlega þetta kerfi og þarf enginn að velkjast í vafa um það. Hæstv. sjútvrh. notar einmitt þetta sama orð. En ég vek athygli á því að fulltrúar Landhelgisgæslunnar voru ekki spurðir álits um það hvaða hátt ætti að hafa á þessu eftirliti og það var þeirra skoðun á þeim fundi sem þeir áttu með sjútvn. að þetta væri mjög nauðsynlegur þáttur í eftirlitinu. Og fyrst verið er að tína til skoðun hagsmunaaðila í sjávarútvegi, þá hefur því heldur ekki verið neitað að þarna geti verið um einhver vandkvæði varðandi löndun að ræða. Það hefur alltaf verið litið á málið í heild af hálfu þeirra og þeir tala um það, hagsmunaaðilar sem komu á okkar fund, að miðað við allt málið, EES og fiskveiðasamninginn samanlagt, sé þarna vel hægt að una við. Það sem þeir voru sérstaklega að taka fram að væri ásættanlegt og gott varðandi eftirlitsþáttinn var hlutur eftirlitsmanna. Undir það hef ég tekið og undir það mun ég áfram taka. Það var sá þáttur eftirlitsins sem þeir lýstu velþóknun sinni á og það geri ég líka.
    Það eru önnur atriði sem ég hef gagnrýnt og ég minnist þess ekki að það hafi verið vefengt að hafnir erlendis gætu verið varasamar eða vigtun þar þótt menn hafi skiptar skoðanir á því.