Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 17:13:06 (4752)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað er það hárrétt hjá hv. þm. að ýmsar hafnir erlendis geta verið varasamar, það er hárrétt. Það er einmitt þess vegna sem gripið var til þess ráðs að skrá sérstaklega 19 hafnir sem má landa í vegna þess að þær þóttu trúverðugar. Og einmitt vegna þess að hv. þm. virðist standa í einhvers konar fjarsambandi við hina ýmsu aðila í sjávarútvegi og telur sig þess umkominn að standa hér og halda því blákalt fram að eigi

að síður hafi verið talað um að þessum höfnum væri ábótavant, þá er rétt að ég ítreki það enn og aftur að einmitt út af ummælum þingkonunnar við 1. umr. málsins spurði ég sérstaklega alla þá talsmenn sjávarútvegsins sem komu til fundar við sjútvn. hvort þeir treystu upplýsingum frá þessum höfnum. Svar allra var á sömu lund. Þeir töldu sig ekki hafa nokkur rök til að vefengja upplýsingar frá þeim.
    Hvað varðar síðan þá staðreynd að Landhelgisgæslan var ekki höfð með í ráðum við gerð þessa, þá kann það vel að vera óæskilegt. En niðurstaðan á eftirlitsþættinum er eftir sem áður mjög góð og ef menn bera t.d. eftirlitsþátt þessa samnings saman við belgíska samninginn sjá menn að það er eins og svart og hvítt. Við gerð þess samnings lærðu menn nefnilega talsvert af því sem ég vil kalla viss mistök við reglur sem tengjast eftirliti með veiðum belgísku togaranna. Eins og menn muna hafa komið upp ákveðin vandkvæði þar. Mig minnir t.d. að hér kæmi upp sérstakt mál varðandi belgískan togara sem landaði í Vestmannaeyjahöfn einhvern tíma hinum megin við 1990 og kom í ljós að aflinn sem var um borð var talsvert frábrugðinn því sem skipið hafði gefið upp. Menn lærðu af þessu og eftirlitsþátturinn í þessum samningi er til fyrirmyndar. Það er einungis eitt atriði sem mætti betrumbæta og það er til þess að samnýta INMARSAT og GPS. Það vill svo til að sú ábending kom frá fulltrúum Landhelgisgæslunnar sem komu til fundar við sjútvn. og minni hluti og meiri hluti tóku undir þetta.
    Hvað varðar æskilegt hlutverk Landhelgisgæslunnar, þá vill svo til að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom einmitt fram með mjög athyglisverðar hugmyndir um það á fundi sjútvn. og ég tel þær fyllilega íhugunarvirði og bendi á að það er einmitt núna verið að endurmeta hlutverk Landhelgisgæslunnar varðandi veiðieftirlit og fleiri þætti þannig að þar gæti þetta sem best komið inn í. Ég ítreka að það fer fram árleg endurskoðun á þessum samningi þannig að það er hægt að bæta hann í framtíðinni.