Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 17:24:02 (4756)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Vestf. hefur beint til mín spurningum. Hann vitnaði í máli sínu til fundargerðar Evrópustefnunefndar sem í því eintaki sem mér er hér rétt er stimplað sem trúnaðarmál, en þetta er fundargerð af viðræðum Evrópustefnunefndar með Henning Christophersen, varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, og fundurinn mun hafa farið fram 18. sept. 1990. Þar er greint frá viðtölum nefndarmanna við varaforsetann og skýrt frá því að hann telji að lausn á málum Íslendinga yrði trúlega ekki að allra skapi. Sér í lagi er vitnað til þess að hann hafi sagt að vissulega hafi Íslendingar opnað markaði sína fyrir iðnvarning frá EB og án þess að fá fríverslun með fisk og fiskafurðir, en jafnvægi þyrfti að nást á þessu sviði. Jafnframt er til þess vitnað að Christophersen kvaðst telja að spurningar um fisk og fiskveiðiréttindi yrðu ekki þær erfiðustu í EES-viðræðunum.
    Ef ég er beðinn um viðbrögð við þessum skoðunum Christophersens, þá eru þau þessi: Ég er hræddur um að Christophersen hafi ekki metið það rétt að þáttur fiskveiðiréttindamálanna yrði ekki hinn erfiðasti í EES-viðræðunum. Þetta var einhver allra erfiðasti þáttur viðræðnanna. Kannski má segja að þeir hafi verið tveir, annars vegar þessi og svo hins vegar hinn svokallaði stofnanaþáttur viðræðnanna. En í þessum samningum var það svo að Íslendingar vildu síst af öllu láta fjalla um sjávarútvegs- eða fiskveiðiþáttinn sem einangrað mál þannig að Evrópubandalagið gæti nálgast það með því að krefjast jafnvægis í þeim samningum sem sjálfstæðum samningum af þeirri einföldu ástæðu að við vissum fullvel allan tímann hver væri stefna Evrópubandalagsins í þeim málum. Hún er yfirlýst og henni var mörgum sinnum lýst yfir í þessum viðræðum. Hún byggðist á forsendum hinnar svokölluðu sameiginlegu fiskveiðistefnu bandalagsins og er enn sú að krefjast veiðiheimilda fyrir markaðsaðgang þannig að veiðiheimildir, jafngildar að verðmæti, yrðu látnar af hendi í staðinn fyrir tollaívilnanir eða lækkanir í jafngildum verðmætum.

    Þessu sjónarmiði hafa allar ríkisstjórnir íslenskar frá upphafi til þessa dags hafnað í samskiptum við Evrópubandalagið. Þess vegna lögðum við á það höfuðáherslu að það væri heildarjafnvægið í samningunum sem gilti en ekki jafnvægi á hverju sviði fyrir sig. Fyrir utan grundvallarsjónarmið okkar í þessu máli lögðum við áherslu á að meta ætti jafnvægi samningsins m.a. út frá því sem einstök ríki legðu til annarra þátta málsins og að afgangsstærðin til þess að jafna mat á gagnkvæmni hagsmuna ætti ekki hvað síst að vera fólgin í hinum svokallaða þróunarsjóði. Við vitnuðum gjarnan til þess að hin einstöku EFTA-ríki legðu mikið á sig í þessum samningum, vitnuðum þar bæði til tvíhliða samninga við Alparíkin, Austurríki og Sviss, tvíhliða samninga við einstök önnur ríki, ekki síst Noreg, á sjávarútvegssviðinu, en höfnuðum því sjónarmiði að jafnvægi skyldi ríkja í þeim þætti samningsins sem lyti að sjávarútvegsmálum einum.
    Nú vita allir hverjar kröfur voru settar fram í upphafi af samningsaðilum. Þrátt fyrir góð orð Christophersens, sem er danskur fyrrverandi stjórnmálamaður, fékk hann því ekki um þokað að Evrópubandalagið hélt í þessum samningum til streitu grundvallarsjónarmiðum sínum sem voru að krefjast aðgangs af auðlindum fyrir markaðsívilnanir. Niðurstaðan varð hins vegar sú í þessum samningum að fyrstu kröfu okkar um fríverslun með fisk var hafnað. Henni var hafnað tiltölulega snemma í viðræðunum. Það gerðist haustið 1990 í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Ég hef oft vikið að þessum þætti málsins. Ég hef skýrt frá því að við hefðum talið sjálfsagt að setja kröfuna um fríverslun fram í upphafi. Rökin eru þau að Íslendingar hafa beitt sér á alþjóðavettvangi og í alþjóðasamningum fyrir fríverslun. Rökin eru þau að okkur varð svo vel ágengt innan EFTA eftir nítján ára þrotlausar tilraunir að ná fram viðurkenningu á grundvallarreglunni um fríverslun með fisk innan EFTA, að vísu með aðlögunartíma fyrir einstakar þjóðir. Okkar fyrsta krafa var þess vegna sú að fríverslun með fisk af sama tagi og með sömu útfærslu og náðst hefði fram innan EFTA skyldi vera okkar markmið.
    Í viðræðum okkar innbyrðis, þeirra sem véluðu um þessa samninga fyrir Íslands hönd, var ljóst frá upphafi að líkurnar á því að það næðist fram væru ekki miklar. Hvers vegna ekki? Vegna þess að það var vart við því að búast í þessum samningum að okkur tækist að brjóta á bak aftur hina sameiginlegu fiskveiðistefnu bandalagsins þrátt fyrir ákvæði um að hún skyldi vera til endurskoðunar. Hún brýtur í bága við grundvallarregluna um fríverslun með fisk. Fríverslun með fisk er ekki einungis hundrað prósent tollfrjáls markaðsaðgangur heldur líka viðurkenning á samræmdum samkeppnisreglum þannig að t.d. tæknilegar hindranir, niðurgreiðslur og ríkisstyrkir gætu ekki samrýmst slíkum grundvallarreglum.
    Það gerðist með öðrum orðum í tíð fyrrv. ríkisstjórnar að Evrópubandalagið lýsti því yfir að það væri um tómt mál að tala, að þeir gætu undir engum kringumstæðum fellt niður hina sameiginlegu fiskveiðistefnu sína sem felur allt þetta í sér. Viðbrögð okkar í fyrrv. ríkisstjórn voru þau að setja þá fram varakröfu okkar sem var hundrað prósent markaðsaðgangur.
    Þegar við lítum á niðurstöðuna er þess að minnast að tiltölulega seint í þessum samningaviðræðum var það sett fram sem krafa af hálfu þriggja aðildarríkja bandalagsins að ekki kæmi til greina að veita hundrað prósent tollfrjálsan markaðsaðgang að því er varðaði þrjár tegundir, það var síld, makríll og lax. Þetta var lengi vel mjög erfitt mál. Ef það er metið á efnahagslegan kvarða var það kannski stærsta áfallið fyrir Norðmenn að því er varðaði laxinn. Áður en samningar voru til lykta leiddir breyttist það með síldina, þ.e. með söltuð síldarflök, en fram hjá þessum kostum varð ekki gengið.
    Heildarniðurstaðan varð þess vegna þessi: Við náðum tollfrjálsum aðgangi fyrir okkar útflutningsafurðir, okkar sjávarafurðir, sem samsvarar, þegar samningurinn er að fullu kominn til framkvæmda, 96% tollfrelsi sem gerist þó í áföngum. Eftirstöðvar tolla á því sem eftir er eru hins vegar í flestum tilvikum það lágir að þeir eru út af fyrir sig ekki frágangssök í þeim skilningi að þeir séu viðskiptahindrun sem komi í veg fyrir viðskipti. Miðað við þetta meginmarkmið um 100% prósent tollfrjálsan markaðsaðgang náðum við með öðrum orðum 96% af okkar meginkröfum. Ef við lítum á markmið Evrópubandalagsins

tókst þeim ekki að fá fram neina viðurkenningu á hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu. Þeim tókst ekki að fá neinar einhliða veiðiheimildir í staðinn fyrir markaðsaðgang, þeim tókst ekki að ná fram kröfunni um heimild til fjárfestingar í útgerð og fiskvinnslu. Niðurstaðan er sú að við sömdum ekkert um aðild að sameiginlegri fiskveiðistefnu, við höldum alveg tvímælalaust fullu forræði okkar yfir okkar fiskveiðilögsögu og grundvallarsjónarmið hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins náðu ekki fram að ganga.
    Ég hef oft látið þá skoðun í ljós að þessum samningsárangri hefðum við trúlega ekki náð ef ekki hefði komið til stuðningur bandalagsþjóða okkar í EFTA á öðrum sviðum. Þar munaði mest um að því er varðaði sjávarútveginn það sem Norðmenn gerðu í tvíhliða samningum sínum við Evrópubandalagið. Í þeirri umræðu sem fram hefur farið um þessi mál hafa menn lítið gert af því hér á landi að skoða það og meta fórnarkostnaðinn sem Norðmenn lögðu fram. En ef við berum saman það sem við gerðum í okkar tvíhliða samningi um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum verðum við að segja það eins og það er að það er tiltölulega smátt í sniðum í samanburði við það sem Norðmenn gerðu.
    En út frá því sem ég sagði áðan um kröfu okkar um að meta samninginn út frá heildarjafnvægi ber líka að meta það að Alpaþjóðirnar skuldbundu sig til að leysa deilumál við Evrópubandalagið sem staðið hafði áratugum saman og skiptir gríðarlega miklu máli sem var að tryggja réttindi til þungavöruflutninga í gegnum Alpana. Sem dæmi má nefna að það eitt fyrir Sviss mun kosta um 30 milljarða svissneskra franka, þ.e. sú framkvæmd að leggja járnbraut í gegnum göng í gegnum Alpana í Sviss. Mestu munaði þó um afgangsstærðina, þ.e. þau framlög sem bandalagsþjóðir okkar í EFTA greiða að stærstum hluta sem mestu munar um í hinn svokallaða þróunarsjóð Evrópubandalagsins.
    Með þessum orðum, virðulegur forseti, er ég að svara spurningu hv. þm. á þá leið að þrátt fyrir góð orð einstakra áhrifamanna í framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins, sem við vorum að semja við, tókst okkur ekki að fá fram hundrað prósent tollfrjálsan markaðsaðgang. Okkur tókst hins vegar að brjóta á bak aftur tilraun Evrópubandalagsins til að ná fram grundvallarsjónarmiðum sínum í þessum samningum um veiðiheimildir og fjárfestingarrétt. Þessi árangur er að mínu mati meiri en við jafnvel höfðum þorað að gera okkur vonir um í upphafi og alveg tvímælalaust meiri en nokkur rök er hægt að færa fyrir að við gætum náð ef við hefðum verið einir á báti, þ.e. orðið einir að fást við sjávarútvegshagsmuni Evrópubandalagsins og verið að semja fyrst og fremst út frá hugtakinu um jafnvægi í samningum á sjávarútvegssviðinu. Ég er ekki í nokkrum vafa um að í slíkum tvíhliða samningum þar sem aðrir hefðu ekki veitt okkur stuðning á öðrum sviðum hefðu Evrópubandalagið og sjávarútvegsþjóðir þess og sjávarútvegshagsmunaaðilar haldið miklu stífar fram kröfum sínum um veiðiheimildir. Það má t.d. marka af því að á einum tíma í þessum samningum settu Spánverjar fram kröfu um 30.000 tonn í þorskígildum fyrir Spánverja eina frá Íslendingum einum.
    Með þessum orðum vil ég samt sem áður ekki skiljast við það þannig að við höfum ekki smám saman áunnið meiri skilning en ríkti í upphafi á sérstöðu Íslendinga. Ég er ekki í nokkrum vafa um að á samningaferlinu tókst okkur að vinna í vaxandi mæli skilning samningsaðila okkar á sérstöðu íslensks þjóðfélags, nefnilega því hversu gersamlega við erum háðir sjávarútveginum um afkomu okkar. Það ásamt með stuðningi hinna EFTA-þjóðanna leiddi til þessarar niðurstöðu.
    Ég vil gjarnan láta koma fram að Christophersen sem slíkur sýndi það í orði og verki í þessum samningum að hann var í hópi þeirra sem voru einna hliðhollastir Íslendingum og sýndi hvað mestan skilning á okkar sérstöðu og fleiri mætti nefna til þeirrar sögu.
    En ég vona að það sem hér hefur verið sagt sé fullnægjandi sem svar við fyrirspurn hv. þm.