Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 17:49:20 (4761)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Það er ekki mörgu við að bæta sem ástæða er til að ræða frekar en ég gerði í fyrri ræðu minni hér, en ég vil þó vegna fullyrðingar sem hér hefur komið fram í umræðum leggja fyrirspurn fyrir utanrrh. og bíð á meðan hann ræðir við kollega sinn, sjútvrh., með að bera fram spurninguna.
    En ég vek athygli á því að sjútvrh. hefur ekki enn þá svarað því hvort þeim 3.000 tonnum af karfa sem floti Evrópubandalagsins á að fá að veiða á þessu ári, 1993, verður bætt við heildarveiði á karfa á þessu ári eða dregið frá karfakvóta íslenskra fiskiskipa fyrir fiskveiðiárið 1993--1994.
    Hæstv. sjútvrh. hefur ekki svarað þessari spurningu afdráttarlaust. Hann hefur hins vegar sagt að líklega verði um viðbótarúthlutun að ræða. Ef svo er væri fróðlegt ef hæstv. sjútvrh. svaraði því hvers vegna þessum 3.000 tonnum af karfa var ekki strax úthlutað í upphafi núverandi fiskveiðiárs fyrst stofninn þolir að hans mati að veiðin aukist um 3.000 tonn og var þó farið nokkuð djarflega í úthlutun á heildarveiði karfa á yfirstandandi fiskveiðiári. Það kemur því á óvart í ljósi þess hvað ráðherra teygði sig hátt í úthlutun á karfaveiði fyrir yfirstandandi fiskveiðiár að hann telji óhætt að veiða 3.000 tonnum meira úr stofninum á þessu ári.
    Ég vek athygli á því, virðulegur forseti, að þessu hefur hæstv. sjútvrh. ekki svarað afdráttarlaust og ég skora á ráðherrann að svara því með óyggjandi hætti hvort bætt verði við heimila veiði í karfa eða hvort dregið verði af kvóta þeirra fiskiskipa sem hafa karfaheimildir fyrir fiskveiðiárið 1993--1994. Ef ráðherrann telur að stofninn þoli 3.000 tonna veiði í viðbót við það sem búið er að úthluta, hvers vegna teygði hann sig ekki þangað upp strax sl. sumar þegar menn voru að ákvarða fiskveiði í íslenskri fiskveiðilögsögu á yfirstandandi fiskveiðiári?
    Það hefði verið hægt að bæta einhverjum þá skerðingu sem menn urðu fyrir í þorskveiðiheimildum ef menn hefðu haft 3.000 tonna karfaveiðiheimildir til viðbótar því sem var úthlutað og það hefði kannski verið einhver sárabót fyrir þá sem var lofað því hátíðlega af ríkisstjórninni að þeir þyrftu ekki að bera meiri skerðingu en sem næmi 5%. Það loforð hefur ekki verið efnt enn og hæstv. forsrh. neitaði að svara fyrirspurn um það frá hv. 3. þm. Vesturl. síðasta þingdag fyrir jól, sat sem fastast í sæti sínu og neitaði að svara. Það væri nokkur bót að því fyrir þá sem hafa orðið fyrir því að formaður Sjálfstfl. og ráðherrar þess flokks hafa svikið heit sín í þessum efnum ef menn ættu von á því að fá 3.000 tonn af karfa í viðbót þó ekki væri það til fullnustu til efnda á fyrirheitunum.
    Enn fremur hefur hæstv. sjútvrh. ekki svarað því og ekki gert við það athugasemdir að röksemdafærsla hans sjálfs, sem hann beitti í gær til stuðnings því að verðhlutastuðla sem ráðuneytið hefur notað þyrfti að leiðrétta með tilliti til útflutnings vegna mismunandi útflutnings á þorski og karfa, leiði af sér að menn eru með þessum samningi að skaða íslenska hagsmuni, af því að röksemdafærsla sjútvrh. var sú að 28% af karfaveiðinni færu í sölu á erlendan markað sem ísfiskur og að Íslendingar stjórnuðu útflutningnum og næðu þannig fram háu meðalverði á Þýskalandsmarkaði. Með EES-samningnum eru Íslendingar að afsala sér þeim tökum sem þeir hafa á því að stjórna útflutningnum. Með sjávarútvegssamningnum eru Íslendingar að bæta 3.000 tonnum af karfa við það magn sem kemur inn á þessa sömu markaði. Báðir samningarnir hljóta að leiða til þess að meðalverð á seldum karfa úr íslenskum skipum eða frá þeim muni lækka eftir gildistöku þessara samninga.
    Það er niðurstaðan eftir ræðu hæstv. sjútvrh. að samningarnir tveir munu skaða Íslendinga verulega þó ekki sé hægt að fullyrða um það í hve miklum mæli það verður.
    Hér var fullyrt í dag af hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að það væri frágengið --- og bið ég nú hæstv. utanrrh. að leggja við hlustir --- að erlendir menn fengju ekki pláss á íslenska fiskiskipaflotanum. Ég spyr hæstv. utanrrh.: Hvað er það í þessum samningum um Evrópska efnahagssvæðið eða sjávarútvegssamningnum sem tryggir að við getum neitað útlendingum um pláss á íslenskum fiskiskipaflota?
    Ég þykist þekkja þann kafla samninganna nokkuð vel sem fjallar um atvinnu- og búseturétt og ég get ekki séð að þessi fullyrðing eigi sér nokkra stoð í veruleikanum nema á bak við hana liggi eitthvert samkomulag sem okkur þingmönnum hefur ekki verið kynnt. Ég spyr því hæstv. utanrrh.: Er þessi fullyrðing formanns Sjómannafélags Reykjavíkur rétt, að við getum haldið útlendingum frá því að fá pláss á íslenska fiskiskipaflotanum, er hún rétt eða er hún röng?
    Ég vil svo gera smáathugasemd við það sem fram kom hjá hæstv. utanrrh. varðandi Alpasamningana, þar á meðal samning sem Svisslendingar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu um jarðgöng gegnum Alpana. Það kom fram í Morgunblaðinu 28. des. sl. að svissnesk stjórnvöld ætla þrátt fyrir að samningurinn hafi verið staðfestur í þjóðaratkvæðagreiðslu þar ekki að staðfesta þann samning. Þeir ætla að nota hann sem tromp í samningaviðræðunum við EB.
    Ég hefði kosið að hæstv. utanrrh. hefði farið með málið þannig að þessar staðreyndir kæmu fram en annað væri ekki gefið í skyn. Mér finnst það óhyggilegt af hæstv. utanrrh. að leggjast á þá sveifina og knýja á um það að Íslendingar afgreiði þennan sjávarútvegssamning því auðvitað er það hygginna manna háttur að draga afgreiðslu þessa samnings þar til ljóst er hver verður niðurstaða samninga um breytingar á EES-samningnum. Fiskveiðisamningurinn er útflutningsbætur okkar Íslendinga fyrir EES-samninginn. Það er áhugaefni Evrópubandalagsins að fá þennan fiskveiðisamning og þeir tengja þennan samning við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, þeir tengja þessa tvo samninga saman. Þegar fram undan eru viðræður við Evrópubandalagið um breytingar á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er það að mínu viti óhyggilegt að spila því trompi frá sér sem menn geta haft á hendi í þeim samningaviðræðum. En það gera menn ef þeir knýja fram samþykkt á þessum samningi nú, áður en viðræður fara fram við Evrópubandalagið um breytingar eða nýjan samning um Evrópska efnahagssvæðið.
    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi fram og ítreka að lokum spurningu mína

til hæstv. utanrrh. um fullyrðingu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar þess efnis að búið væri að tryggja eða frágengið, eins og hann orðaði það, að erlendir menn fái ekki pláss á íslenska fiskiskipaflotanum.