Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 10:32:51 (4769)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Mig langar til að spyrja hvort hæstv. umhvrh. sé tekinn við fjmrn. eða hvar sá hæstv. ráðherra sé staddur sem gegnir ráðuneyti fjármála þessa dagana? Er ekki ætlunin að hann heiðri okkur með nærveru sinni? ( Forseti: Fjármálaráðherra?) Sá hæstv. ráðherra sem fer með ríkisfjármálin þessa dagana, já. Ég vænti þess að ekki sé ætlunin að halda umræðunni hér áfram nema hæstv. ráðherra sé viðstaddur. ( Forseti: Forseti mun láta kanna hvað líður nærveru hæstv. forsrh. En miðað við töflu í borði forseta mun hann ekki vera kominn í húsið en forseti lætur athuga það.) Ætli ég geri þá ekki hlé á máli mínu, hæstv. forseti, þangað til viðkomandi ráðherra er viðstaddur. Ég tel ekki eðlilegt að mæla hér fyrir nál. ( Forseti: Formaður nefndarinnar er hér viðstaddur, hv. þm., og ef hv. þm. vildi þá nýta tíma sinn og reyna að flytja þann hluta ræðunnar sem snýr ekki beint að fjmrh. þá þætti forseta það ágætt.) Það er afar sérkennilegt, hæstv. forseti, að skipta því upp. Málið heyrir undir hæstv. fjmrh. og við þingmenn erum ýmsu vanir en það er þó alveg nýlunda ef ekki er orðið við óskum um að viðkomandi fagráðherra þeirra sé viðstaddur þegar mælt er fyrir nál. í málum af þessu tagi eins og frv. til lánsfjárlaga. ( Forseti: Forseti hefur nú þegar upplýst hv. þm. um að hann er að láta kanna hvenær megi búast við að hæstv. ráðherra geti komið í húsið en hefur ekki neitað hv. þm. um að fresta sinni ræðu.) Hæstv. forseti. Ég hef ekki áhuga á að gera neinn uppsteyt að óþörfu. Ég hélt að þetta væri svo eðlileg og sjálfsögð framvinda mála að þegar verið væri að mæla fyrir nál. í stærstu málum sem varða verksvið einhvers hæstv. ráðherra þá væri hann viðstaddur þær umræður. Mér datt satt best að segja ekki í hug að þessi umræða væri að hefjast án þess að það lægi fyrir að viðkomandi hæstv. ráðherra væri viðstaddur. Við vissum af því að hæstv. fjmrh., hinn eini og sanni, er annars staðar og við það voru engar athugasemdir gerðar af okkar hálfu svo fremi sem sá ráðherra sem gegndi embætti fyrir hann væri til staðar. ( Forseti: Forseti hefur nú fengið þær upplýsingar að hæstv. forsrh., sem gegnir fyrir hæstv. fjmrh., er rétt ókominn í hús.) Þá óska ég eftir því hæstv. forseti að fá að gera hlé á máli mínu þangað til forsrh. er kominn í salinn úr því að það eru ekki nema fáeinar mínútur sem þar skipta á milli.