Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 10:44:24 (4771)


     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (frh.) :
    Hæstv. forseti. Ég fagna komu hæstv. forsrh. og starfandi fjmrh. til umræðunnar. Ekki síst vegna þess að ég sé mig knúinn til þess í upphafi umræðunnar að gera að umtalsefni þau vinnubrögð sem hafa einkennt framgöngu hæstv. ríkisstjórnar í sambandi við ríkisfjármálin á þessum vetri. Þá er að sjálfsögðu ekki síður ástæða til að ræða við hæstv. forsrh. í hans eigin embætti en fjmrh. Þó svo að sá fari með forustu fyrir þeim þætti mála innan ríkisstjórnar þá er það auðvitað svo að vinnubrögð að breyttu breytanda a.m.k. við stjórn efnahagsmála eru á ábyrgð hæstv. forsrh. vænti ég.
    Í nál. minni hluta efh.- og viðskn. er að finna allskarpa gagnrýni á þau vinnubrögð sem hæstv. ríkisstjórn ástundaði á síðustu vikum sl. árs þegar hún var að koma saman tillögum sínum í efnahagsmálum og ríkisfjármálum. Ég held ég hefji framsögu fyrir þessum nál. sem eru nú orðin tvö því minni hluti efh.- og viðskn. kaus að skila frhnál. í gær á þskj. 590 þegar fyrir lágu nokkrar breytingar af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og óskir um að ný mál yrðu tekin inn í lánsfjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár.
    Í upphafi nál. á þskj. 534, því sem skilað var fyrir jólin, stendur svo meðal annars að:
    ,,Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar getur ekki mælt með afgreiðslu frumvarps til lánsfjárlaga við þær aðstæður sem nú ríkja í þann mund sem stjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið að afgreiða málið út úr nefnd. Fram til þessa dags hefur afar mikil óvissa ríkt um ýmsa veigamikla þætti efnahagsmála og ríkisfjármála og ríkisstjórnin og meiri hluti hennar á Alþingi hefur undanfarna daga verið á harðahlaupum við afgreiðslu tekjuöflunarfrumvarpa og álagningu skatta fyrir komandi ár. Alla heildarsýn yfir efnahagsmálin vantar og ekki verður séð að fylgt sé neinni markvissri eða fyrir fram mótaðri stefnu heldur ákvarðast hinir einstöku þættir ríkisfjármála og efnahagsmála af handahófskenndum ákvörðunum eða málamiðlunum stjórnarflokkanna sem gjarnan verða til á næturfundum.``
    Síðan segir áfram um vinnubrögðin:
    ,,Sú upplausn sem einkennt hefur vinnuna í ríkisfjármálum og efnahagsmálum undanfarna daga gerir það nánast ómögulegt fyrir fulltrúa stjórnarandstöðunnar að fá nokkra yfirsýn yfir það hvernig mál standa og draga verður stórlega í efa að yfir höfuð finnist nokkur maður innan stjórnarliðsins eða utan sem hafi þá vitneskju.``
    Mér hefur orðið hugsað til þessara setninga nú síðustu dagana þegar hafa verið að koma í ljós ýmsar brotalamir í ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. ríkisstjórn er þegar komin á flótta frá eigin ákvörðunum og leggur fyrir Alþingi að draga sumar þeirra til baka. Einnig er ástæða til að rifja upp það sem sagt var af sama eða svipuðu tilefni þegar til umræðu var hér frv. til laga um breytingar í skattamálum, þá sagði ég í ræðu 18. des. eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,En ég hlýt þó í byrjun að leyfa mér að fara fáeinum orðum um vinnubrögðin við þessar ákvarðanir og þeim aðstæðum, sem hv. þm. í efh.- og viðskn. eru skapaðar, hvað vinnu snertir að þessu máli. . . .  
    Það var með hreinum ólíkindum, og hefur maður þó ýmislegt upplifað í þessum efnum, hvernig þetta var að þessu sinni. Ef maður fer yfir það hvernig efnahagsstefnan og skattastefnan hefur verið mótuð sl. tvö ár þá hlýtur það að vera fleirum en ræðumanni umhugsunarefni að viðkvæm atriði, sem varða álagningu gjalda og geta haft afgerandi áhrif á afkomu einstaklinga og fjölskyldna og heimila, skuli ákvarðast í einhverjum skyndisamningum eða á næturfundum og síðan skellt inn í formi breytingatillagna eða frumvarpa þannig að nánast enginn tími gefst til þess að athuga og reikna áhrif og útkomu slíkra ákvarðana.``

    Það hefur rækilega komið á daginn hygg ég að þessi orð voru síst ofmælt um vinnubrögðin sem einkenndu framgöngu hæstv. ríkisstjórnar fyrir jólin. Nýjasta og frægasta sönnun þess er auðvitað sú uppgjöf ríkisstjórnarinnar gagnvart ákvörðunum um að draga úr endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað sem kynnt var fyrir tveimur dögum og gefur nú að líta í formi brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. sem þar með leggja til að lánsfjárlögin verði að einu af skattafrv. ríkisstjórnarinnar, að bandormi, þar sem m.a. eru teknar ákvarðanir um álagningu skatta.
    Það er með miklum ólíkindum og þá ekki síst þegar haft er í huga að áform um þessa aðgerð eru boðuð strax í greinargerð með fjárlagafrv, að vinnubrögðin skuli geta orðið með þeim hætti sem raun ber vitni. Maður hlýtur að spyrja sig að því: Hvernig í ósköpunum getur það gerst að allir þeir sérfræðingar sem að þessu vinna hjá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ríkisstjórn sjálf og meiri hluti hennar á Alþingi standi ber að því að hafa ekki haft hugmynd um hvað þeirra eigin ákvarðanir þýddu? ( Gripið fram í: Sérfræðingarnir segjast hafa sagt ráðherrunum frá því.) Hvernig sem í því liggur þá er alla vega ljóst að menn láta nú sem þetta hafi komið þeim allt mjög á óvart og ég trúi því. Satt best að segja hef ég ekki hugmyndaflug til að láta mér detta í hug að menn hefðu ákveðið að gera þetta ef þeir hefðu vitað hversu vitlaus aðgerð þetta væri.
    Ég ætla því ekki, hæstv. forseti, að gagnrýna þá niðurstöðu hæstv. ríkisstjórnar að sjá að sér og hætta við þetta. Þvert á móti er auðvitað ástæða til að fagna því. Hitt er óhjákvæmilegt að ræða hér og fara ofan í saumana á: Hvernig getur svona lagað gerst? Þetta eru ekki vinnubrögð sem eru boðleg við afgreiðslu mála af þessu tagi. Það held ég að allir hljóti að viðurkenna. Ég ætla að ræða þetta mál efnislega þegar ég kem að því að mæla fyrir frhnál. en ég leyfi mér að minna á þetta hér vegna þess að ég er að gera í upphafi ræðu minnar athugasemdir við vinnubrögð. Ég vænti þess að a.m.k. í þessu tilviki þurfi ekki að standa í orðaskaki um að þarna eru á ferðinni vinnubrögð sem ekki ganga, ekki hæfa. Nú er ég líka að hreyfa þessu sérstaklega með tilliti til þess að hæstv. forsrh. er viðstaddur vegna þess að ég kemst ekki hjá því að minna á það í leiðinni að þar fer sá maður sem hefur þótt þess umkominn að kenna öðrum sitt lítið af hverju í sambandi við vinnubrögð. Þessi hæstv. forsrh., hv. þm. Davíð Oddsson var ekki búinn að sitja á Alþingi nema nokkrar vikur þegar hann taldi sig þess umkominn að taka Alþingi á kné sér og siða það til og kenna því vinnubrögð og það þótti ýmsum í mikið ráðist af hæstv. forsrh. og nýliða á þingi. En æðioft hefur kveðið við þennan sama tón þó heldur hafi sljákkað í hæstv. forsrh. upp á síðkastið og það megi segja að hæstv. utanrrh. hafi tekið við þessu siðameistarahlutverki, aðallega þó í útlöndum, tekið að sér uppeldishlutverkið í ígripum staddur á erlendri grund. En ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort engar efasemdir hafi leitað á huga hans í sambandi við þetta kennarastarf í vinnubrögðum, sem hann tók að sér, þegar hann horfir á hversu mislagðar hendur hæstv. ríkisstjórn undir forustu hans sjálfs eru. Ég verð að segja alveg eins og er að ætti ég að velja mér kennara þá eru það ekki meðmæli í mínum huga að horfa upp á frammistöðu af þessu tagi. Það kann vel að vera og er auðvitað þannig að ýmislegt má betur fara í vinnubrögðum á Alþingi og skipulagi hér þó tel ég að þar hafi margt verið að breytast til hins betra á síðari árum. Til að mynda er enginn vafi á því að nefndastarf býr við allt aðrar og betri aðstæður en það gerði fyrir tiltölulega fáum árum eftir að sett var upp þjónustudeild fyrir nefndir þingsins og starfsfólk aðstoðar nú þingnefndir við öflun gagna og skipulagningu vinnunnar. Þetta hefur gert það að verkum að nefndir afkasta meiru og geta farið betur ofan í mál. En sjálfsagt má betur gera í ýmsum efnum.
    Ég ætla nú að leyfa mér að halda því fram bæði vegna þeirrar þekkingar sem ég hef sjálfur á málum og ekki síður vegna þess sem við höfum horft upp á hjá hæstv. núv. ríkisstjórn að það sé mjög mikið álitamál hvort ríkisstjórnir og ráðuneyti hafi mikið að kenna Alþingi í þeim efnum. Ég vænti þess að hæstv. núv. forsrh. vandi betur orð sín í framtíðinni í ljósi þess glerhúss sem hann býr í.
    Hæstv. forseti. Í nál. minni hlutans er sérstaklega vikið að því að það skorti, og af skiljanlegum ástæðum, sérstaklega þeim sem ég hef hér tilgreint, alla yfirsýn yfir ríkisfjármálin, lánsfjármarkaðinn, og í raun og veru heildarsýn í efnahagsmálum í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur æ betur í ljós. Við vekjum t.d. athygli á því í nál. að ákaflega fátæklegar upplýsingar hafi komið til efh.- og viðskn. um stöðuna á íslenskum peningamarkaði á því ári sem í hönd fer, um það hvort sæmilegt jafnvægi geti talist í sjónmáli á hinum íslenska peningamarkaði. Við sáum ekki með öðrum orðum að þar væru rökstuddar þær aðstæður að t.d. vaxtalækkun gæti verið í sjónmáli á fyrstu mánuðum nýbyrjaðs árs. Reyndar er það svo að menn sáu ekki betur fyrir hvað í vændum var en það að við minnum á í nál. að marggefin loforð frá því í kjarasamningum fyrir tæpu ári síðan og síðar á árinu 1992 um vaxtalækkun hafi mjög látið á sér standa.
    Ég hygg að þetta sé síst ofmælt. Og ýmislegt kemur í ljós þegar betur er að gáð, m.a. það að við lífeyrissjóðina, stærstu einstaka fjármagnseigendur í landinu og stærstu kaupendur t.d. skuldabréfa í húsnæðislánakerfinu og stærstu viðskiptavina ríkissjóðs hygg ég um ríkisverðbréf, hefur ekki verið talað. Það kemur fram í bréfi frá samböndum lífeyrissjóðanna sem efh.-og viðskn. barst núna fyrir tveimur til þremur dögum. Þeir draga það stórlega í efa að áform hæstv. ríkisstjórnar séu í nokkru samhengi við raunveruleikann á íslenskum peningamarkaði á nýbyrjuðu ári. M.a. vegna þess að lífeyrissjóðunum er ætlað að stórauka kaup sín á bréfum í húsnæðiskerfinu og bréfum frá ríkinu á næsta ári. Og þekkja menn þó væntanlega reynsluna frá þessu ári þar sem verulega mikið vantar upp á að sjóðirnir hafi keypt það sem áætlanir gerðu ráð fyrir. ( Forsrh.: Á sl. ári.) Á sl. ári já, fyrirgefið, frá nýliðnu ári. Maður er alltaf í vandræðum rétt um áramótin og veit ekki almennilega hvar maður er staddur með aðra löppina í gamla árinu og hina í því nýja eins og gengur. Þess vegna þvælist þetta fyrir manni og kannski betra að nota ártölin.
    Það liggur jú fyrir að veruleg fjárvöntun varð hjá byggingarsjóðunum undir árslok 1992 vegna þess að lífeyrissjóðirnir höfðu ekki keypt það magn bréfa sem áætlanir gerðu ráð fyrir, ég vek athygli á því, áætlanir. Vegna þess að ein snilldin í breytingunum á þessum málum er sú að það er búið að rjúfa allt samband milli hagsmuna aðildarfélaga lífeyrissjóðanna og þess hvað þeir kaupa af bréfum. Það er ein af þessum fínu breytingum á húsnæðiskerfinu og peningamarkaðnum. Í raun og veru er það því algerlega undir lífeyrissjóðunum komið og því hvernig þeir meta markaðinn og hvernig þeir sjá sínum hagsmunum best borgið, hvernig þeir haga sínum kaupum. Þess vegna er það að frá Landssambandi lífeyrissjóða og Sambandi almennra lífeyrissjóða barst efh.- og viðskn. svohljóðandi bréf 11. jan. 1993, sem ég tel eðlilegt að gera hér að umtalsefni þegar við ræðum heildarmyndina og yfirsýn yfir ríkisfjármálin og peningamál á árinu. Í bréfinu segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1993, eftir brtt. meiri hluta efh.- og viðskn., er gert ráð fyrir lántökum Byggingarsjóðs ríkisins að fjárhæð 3.860 millj. og Byggingarsjóðs verkamanna að fjárhæð 6.870 millj. kr. eða samtals 10.730 millj. kr. innan lands`` --- og þá væntanlega hjá lífeyrissjóðunum. ,,Landsamband lífeyrissjóða og Samband almennra lífeyrissjóða vill vekja athygli nefndarinnar á þeirri staðreynd að lántökur fyrrgreindra sjóða hjá lífeyrissjóðunum námu 7.363 millj. kr. á öllu árinu 1992. Þannig er gert ráð fyrir auknum lántökum hjá lífeyrissjóðunum um 3.367 millj. kr. eða um 45,7% á árinu 1993. Fyrrgreindar lánveitingar koma til viðbótar kaupum lífeyrissjóðanna á húsbréfum en útgáfa húsbréfa á árinu 1993 er talin verða álíka mikil og á árinu 1992.
    Eins og fyrrgreindar tölur bera með sér er stefnt að stórauknum lántökum Húsnæðisstofnunar hjá lífeyrissjóðunum á næsta ári. Verður ekki annað séð en að afleiðingin yrði raunvaxtahækkun en ekki lækkun raunvaxta eins og stefnt er að.
    Lífeyrissjóðasamtökin harma að fulltrúar þeirra hafa ekki verið kallaðir fyrir nefndina þannig að benda megi nefndarmönnum á hversu stórfelld mistök hér eru í uppsiglingu.``
    Ég held að þetta skýri sig alveg sjálft og það þurfi ekki neinar sérstakar útlistanir á þessum skilaboðum af minni hálfu. Þetta er bara til marks um það að einhverjar tölur eru settar á blað í áformum hæstv. ríkisstjórnar meira og minna úr samhengi við raunveruleikann og þvert á þá reynslu sl. árs að byggingarsjóðirnir náðu ekki inn því fjármagni sem áætlanir gerðu ráð fyrir með kaupum lífeyrissjóðanna á þeirra pappírum sem

leiddi svo til þess að Húsnæðisstofnun var í miklum þrengingum við áramótin og búin að yfirdraga o.s.frv. eins og henni var kostur.
    Þetta reiði ég nú fram, hæstv. forseti, m.a. til marks um að ég held að þarna vanti alla yfirsýn og alla stefnumörkun. Þetta er eins og eitthvert púsluspil þar sem bitunum er raðað saman úr ýmsum áttum og enginn veit hvers konar óskapnaður myndin verður að lokum. Hæstv. ríkisstjórn hefur líka unnið þannig að þessum málum, eitt hefur rekið sig á annars horn, að útkoman getur varla orðið önnur.
    Við ráðlögðum hæstv. ríkisstjórn það fyrir jólin að fresta afgreiðslu ekki bara lánsfjárlagafrv. heldur líka skattbreytingunum og jafnvel fjárlögunum og afgreiða frekar einhvers konar greiðsluheimildir yfir áramótin og vinna þessa hluti betur. Ég er alveg sannfærður um að það voru hollráð til hæstv. ríkisstjórnar. Ég er líka alveg sannfærður um að það yrði fleira en skert endurgreiðsla virðisaukaskatts af byggingu íbúðarhúsnæðis sem yrði dregið til baka ef menn hefðu ekki flýtt sér um of og gengið frá þessum málum fyrir áramótin. Ýmislegt fleira hefur komið á daginn þar sem stefna hæstv. ríkisstjórnar í raun og veru gengur hreint ekki upp.
    Ég ætla að gera nokkur einstök efnisatriði að umtalsefni, hæstv. forseti, sem fjallað er um í fyrra, nál. minni hlutans á þskj. 534. Einn af þeim aðilum, sem að sjálfsögðu gerir ráð fyrir lántökum og lánsfjárlagafrv. fjallar um á næsta ári, er Byggðastofnun. Er áætlað að heimila deildinni lántökur upp á 1.300 millj. kr., þ.e. vegna atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar auk þeirrar lánveitingar sem stofnunin sjálf á að fá skv. 4. gr. frv., ef ég man rétt, upp á líklega 650 millj. Þegar óskað var eftir upplýsingum um stöðu mála hjá atvinnutryggingardeild og spurt um áform hæstv. ríkisstjórnar um að sameina þá deild svonefndum þróunarsjóði, sem áform standa til að setja á fót í sjávarútvegi, varð fátt um svör.
    Að vísu er ástæða til að ætla að þessi 1.300 millj. kr. tala vegna atvinnutryggingardeildarinnar sé ekki fjarri lagi hvað varðar fjárþörf deildarinnar sem slíkrar á næsta ári en alls engar upplýsingar lágu fyrir um hvernig þessum málefnum yrði fyrir komið ef stofnaður yrði hinn nýju þróunarsjóður og atvinnutryggingardeildin, Hagræðingarsjóðurinn og e.t.v. fleiri sjóðum slengt saman í þessu nýja og stórkostlega sjóðabatteríi hæstv. ríkisstjórnar. Ég ætla ekki að taka mér í munn þetta leiða orð sjóðasukk, þó það sé framarlega á tungunni við þessar aðstæður þegar maður hefur sér hér á hægri hönd hæstv. forsrh. En mikið sjóðaslengi er þetta alla vega sem þarna á að setja á fót væntanlega með efnahagsreikningi upp á talsvert á annan tug milljarða króna. Fullyrði ég að það sé mesti sjóður Íslandssögunnar sem hæstv. forsrh. ætlar þarna að beita sér fyrir að stofna. Því inn í sjóðinn renna að stærstum hluta fjármunir sem áður hafa heyrt undir hæstv. forsrh.
    Þannig er í raun og veru afgreiðsla þessa máls ef taka á mark á áformum hæstv. ríkisstjórnar markleysa hvað varðar fjárhagsstöðu atvinnutryggingardeildarinnar og Byggðastofnunar. Það liggur fyrir að því er virðist að engin útfærsla af neinu tagi er til á blaði um þennan svokallaða þróunarsjóð. Í fjölmiðlum birtast frásagnir af deilum stjórnarliða og áhrifamanna tengdum stjórnarflokkunum úr röðum sjávarútvegsins um það hvernig þessu skuli fyrir komið. Það skiptir auðvitað ekki litlu máli, svo dæmi sé tekið, hvernig með fjárhagsmálefni atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar verður farið þar sem eru á ferðinni milljarðar króna og næsta kostulegt að sá misskilningur virðist vera uppi milli manna að sumir telja að inn í hinn nýja þróunarsjóð eigi eingöngu að renna eignir deildarinnar en aðrir að bæði eigi að fara eignir og skuldir. Það skiptir svolitlu máli, pínulitlu máli, því það er ekki ónákvæmni nema upp á kannski 4--5 milljarða sem þar er á ferðinni og munar um minni misskilning en það.
    Einnig að þessu leyti verður stjórnarandstaðan að vísa málinu frá sér því að við þessar aðstæður, á meðan ástandið er eins og raun ber vitni á stjórnarheimilinu og engar upplýsingar er um þetta að hafa, er marklaust að fjalla um það hér. Ég lít því svo á að þessar lánveitingaheimildir til atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar séu markleysa, skot út í loftið, nema ekkert verði úr áformum hæstv. ríkisstjórnar, sem vel kann að vera, og deildin verði rekin áfram sem sjálfstæð eining allt þetta ár.

    Ég tek það fram að ég mundi gjarnan vilja að hæstv. forsrh. upplýsti okkur um stöðu þessa máls áður en það fer lengra og áður en við greiðum atkvæði um fjárhagsheimildir til atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar á þessu ári kæmu upplýsingar um það hvar áformin standa um þróunarsjóðinn, auðlindaskattssjóðinn og sameiningu þessara sjóða allra saman í þetta mikla slengi, hæstv. forsrh.
    Í öðru lagi óskuðum við eftir upplýsingum um hvað liði störfum nefndar ráðherra eða ráðuneyta sem sett var á laggirnar sl. sumar til að útfæra tillögur um fjárstuðning til þeirra útgerðaraðila sem mestan samdrátt urðu að þola við úthlutun veiðiheimilda fyrir yfirstandandi kvótaár. Eins og mönnum er kunnugt og menn muna lofuðu hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. því að varið yrði svipuðum fjárhæðum til útgerðaraðila í formi styrkja, og þá til þeirra sem samdráttur í þorskveiðum bitnaði þyngst á, og áformað var að fengjust fyrir sölu veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs eða litlar 500 millj. kr. Um þetta var gefið alveg afdráttarlaust loforð. Sérstaklega er mönnum í minni fundur sem þeir félagar, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., héldu vestur á Flateyri við Önundarfjörð og lofuðu mönnum þar að slíkir styrkir yrðu sendir út og það bráðlega. Og það var skipuð nefnd ráðherra eða ráðuneyta í málið þannig að það var sett í formlegan farveg. Skömmu síðar var spurst fyrir um það á Alþingi hvar málið væri statt --- það mun hafa verið í október. Þá sagði hæstv. forsrh. úr þessum ræðustóli: ,,Innan nokkurra daga eða í mesta lagi nokkurra vikna.`` Það var svolítið á reiki hjá hæstv. forsrh. þegar betur var á hann gengið en það var samt enginn vafi í hans huga að málið var komið á endastig og eingöngu tímaspursmál hvenær niðurstöðurnar yrðu kynntar og því hrint í framkæmd.
    Það var dálítið rætt um þessar ávísanir sem hæstv. ríkisstjórn ætlaði að senda út til útgerðaraðilanna. Hæstv. fjmrh. slapp í blöðin og sagði að hann gerði sér í hugarlund að þetta gæti gerst þannig að þrír aðilar sameinuðust um þetta átak. Það yrðu Byggðastofnun, Fiskveiðasjóður og ríkisstjórnin, ef ég man rétt, sem kæmu með eins og sinn þriðjunginn hvert og leystu þetta bróðurlega sín í millum. Þeir urðu eitthvað lítið hrifnir, ef ég man rétt, hjá Fiskveiðasjóði og höfðu efasemdir um að ríkisstjórnin gæti gengið í vasa Fiskveiðasjóðs og útdeilt eigin fé sjóðsins því að auðvitað væri þetta eingöngu aðgerð til að ganga á eigið fé Fiskveiðasjóðs. En það er ekki efni málsins aðallega heldur hitt að þarna var alveg ljóst að ríkisstjórnin kynnti þetta sem endanlega ákvörðun, lofaði þessu og lýsti því yfir opinberlega, fleiri en einn og fleiri en tveir ráðherrar. Þótt hæstv. sjútvrh. væri dálítið í felum í þessu máli þá kannaðist hann þó við það en vísaði því gjarnan til forsrh., að þetta væri byggðamál.
    Auðvitað þyrfti að gera ráð fyrr svona útgjöldum ef af þeim verður í fjárheimildum ríkisins fyrir þetta ár. Þess vegna spurðum við í efh.- og viðskn.: Hvar verður þessu fundinn staður? Hvar koma heimildirnar inn? Verður þetta lántökuheimild fyrir ríkið til að greiða þetta út o.s.frv.? Það varð satt best að segja frekar lítið um svör. Það hafði enginn neitt af málinu frétt síðan þarna um daginn þegar hæstv. forsrh. kom í ræðustól á Alþingi. Það var alveg sama hvern við spurðum. Þetta var allt mjög í véfréttarstíl. Það getur vel verið að mönnum finnist það allt í lagi að svona lagað detti bara upp fyrir, þetta sé bara eins og hvert annað loforð marklaust út í loftið og það séu bara uppi nýir tímar og nýr stíll og allt í lagi fyrir ráðamenn landsins að hegða sér svona. Mér finnst það ekki.
    Staðreyndin er sú að þó menn sæju ýmis tormerki á þessari framkvæmd og fyndist þetta í raun og veru alveg afkáralega vitlaus lending hjá hæstv. ríkisstjórn, í staðinn fyrir að útdeila veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs til jöfnunar eins og menn vildu þá ætti að selja þær en senda mönnum svo ávísanir á móti, þá var það nú samt þannig að einstöku maður var svo ógæfusamur að taka mark á þessu. Og nokkur hundruð aðilar keyptu kvóta á sl. hausti svo til á fullu verði í fyrstu umferð. Þeir nýttu sér forkaupsrétt sinn og sumir þeirra treystu á það að þeir fengju svo fjárstuðning frá ríkinu vegna þess að ekki minni menn en hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. höfðu lofað því. Og auðvitað er það engin framkoma að ganga svo algerlega á bak orða sinna við slíkar aðstæður. Það er engin framkoma.
    Ég spurði að því strax áður en salan fór fram á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs:

Hvað ætla menn að gera ef aðeins lítill hluti útgerðarmanna kaupir kvótann á tiltölulega háu verði, svo hrynur verð hans og þeir sitja eftir eins og illa gerðir hlutir hafandi tekið mark á þessari lönguvitleysu ríkisstjórnarinnar og verið vélaðir inn í hana? Það er auðvitað alveg augljóst mál að þeir menn sem fóru þannig að ráði sínu naga sig nú í handarbökin. Fiskiríið er nú ekki merkilegt eins og menn vita og engar ávísanir hafa komið frá hæstv. ríkisstjórn sem sumir treystu á að mundi fjármagna þessi kvótakaup þannig að þeir gætu þess vegna kannski yfirdregið á heftinu eða slegið sér skammtímalán í banka til að kaupa kvótann og borga hann út eins og kröfur voru um af hálfu Hagræðingarsjóðs. Þeir fengju svo peningana frá hæstv. forsrh. á móti. Nei, þetta er satt best að segja heldur ömurleg frammistaða svo ekki sé meira sagt, nöturlegt, eins og stundum var sagt úr þessum ræðustóli á fyrri árum.
    Málið stendur þannig formlega séð, a.m.k. gagnvart efh.- og viðskn. að sú nefnd ráðuneyta eða ráðherra sem fór í málið hefur ekki lokið störfum. Það voru þau svör sem efh.- og viðskn. fékk: Að nefndin hefði ekki lokið störfum. Nú spyr ég --- að vísu er hæstv. forsrh. genginn úr salnum: Hvað er að frétta af nefndinni?
    Nú vill ekki svo til að hv. formaður efh.- og viðskn. sé formaður í þessari nefnd þó hann njóti mikils álits í stjórnarflokkunum og hafi nýtekið við formennsku í einhverri frægustu nefnd lýðveldisins, þ.e. tvíhöfðanefndinni. Vil ég leyfa mér við þetta tækifæri að gratúlera hv. formann efh.- og viðskn. með framann að vera orðinn annar af tveimur formönnum tvíhöfðanefndarinnar. En ég hygg þó að hv. formaður efh.- og viðskn., 5. þm. Norðurl. v., beri ekki ábyrgð á þessari kvótaávísananefnd og þess vegna sé ekki sanngjarnt að beina spurningum til hans í þessu sambandi. Ég tel þó seint sé að ekki sé seinna vænna en hæstv. forsrh. upplýsi okkur eitthvað um það hvar þetta mál er á vegi statt og því verði þá komið út úr heiminum þannig að þessari vitleysu verði hætt og hætt að halda útgerðarmönnum volgum í þeirri von að þeir geti átt von á peningum frá þessum snillingum, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. Það er búið að draga menn nógu lengi á asnaeyrunum ef það á að verða niðurstaðan.
    Ég vil þá nefna, hæstv. forsrh., að í nál. minni hlutans er jafnframt fjallað um hinn hefðbundna skerðingarkafla eða ,,þrátt-fyrir-kafla`` eins og hann hét lengi vel. Við gerðum miklar athugasemdir við uppsetningu hans í efh.- og viðskn. eins og hún er samkvæmt frv. til lánsfjárlaga og í IV. kafla þess. Þar átti að beita þeirri merku nýbreytni við lagasetningar að sameina í eina grein, 11. gr. frv., breytingar á 20 mismunandi lögum. Fullyrði ég að það hefði verið heimsmet, a.m.k. Íslandsmet, fram til þessa í lagasetningu að breyta með einni lagagrein 20 lögum, eins og þarna var áformað með því að hafa skerðingarákvæðin öll í einni lagagrein sem hefur aldrei sést áður svo mér sé kunnugt um.
    Þessu mótmæltum við auðvitað harðlega og ekki bara þessu, heldur líka því að framsetning greinarinnar var á þá lund að í 11. gr. lánsfjárlaga skyldi standa að framlög ríkissjóðs samkvæmt eftirtöldum lögum og lagaákvæðum skuli ákveðin í fjárlögum ársins 1993. Síðan er talið upp eitt til tuttugu, lög nr. 71/1990, um Listskreytingasjóð, lög nr. 50/1957, um Menningarsjóð o.s.frv.
    Þetta vildum við leyfa okkur að halda fram að væri gjörsamlega óboðleg og óforsvaranleg framsetning á lagabreytingum því vandséð var hvaða tilgangi efnisleg atkvæðagreiðsla um þessa 11. gr. lánsfjárlaganna þjónaði í reynd, ef hún ætti eingöngu að vísa yfir í niðurstöður fjárlaganna. Ég leyfði mér að spyrja: Hvenær fer þá hin efnislega atkvæðagreiðsla fram? Hvenær heimila í sjálfu sér alþingismenn skerðinguna? Er það þegar þeir greiða atkvæði um 20 lagabreytingar í einu við 11. gr. eða er það þegar fjárlögin eru afgreidd og til hvers er þá 11. gr. lánsfjárlaganna?
    Niðurstaða fékkst í þetta mál og hún var á þá leið að breyta uppsetningu skerðingarákvæðanna til fyrra horfs. Það er gert í brtt. meiri hlutans og fyrir það ber þó að þakka að menn féllust á þessi sjónarmið og a.m.k. er ekki horfið út á braut þessarar merku nýbreytni að láta menn í einni og sömu lagagreininni breyta útgjaldaákvæðum 20 mismunandi og alls óskyldra laga, eins óskyldra og Listskreytingasjóður er t.d. verkefnum Hafnabótasjóðs.

    Hitt er svo annað mál að þessi vinnubrögð eru auðvitað óskaplega til ama og hafa lengi verið að hér skuli ganga aftur árvissir draugar þar sem skert eru ákvæði sérlaga með þessum hætti og væri mikil hreinsun af því ef menn mönnuðu sig upp í að fara í gegnum lagasafnið og taka einfaldlega út eða með einhverjum hætti breyta þessum ákvæðum þannig að þau lytu þá hefðbundnum árlegum útgjaldaákvörðunum Alþingis en væru ekki með steindauðan bókstaf um einhvers konar verðtryggð eða vísitölubundin útgjöld af einhverju tagi eins og þarna er á ferðinni.
    Hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, hefur stundum gert þetta að umtalsefni hér og ég held að menn mættu hugleiða hans orð í þessu sambandi. Þetta er ekki eitt af því sem sérstaklega eykur virðingu Alþingis að vera að unga út lögum. Sumpart eru á ferðinni tiltölulega mjög nýleg lagaákvæði sem svo eru umsvifalaust brotin með sérstökum ákvörðunum við lánsfjárlagagerðina á hverju ári.
    Fulltrúar minni hlutans eru andvígir ýmsum af þessum skerðingarákvæðum. Það var ekki sérstaklega farið yfir það kannski af okkar hálfu hvað þar var á ferðinni. Þó voru í nál. nefndir þættir þar sem við teljum að allt of langt sé gengið eða ekki eigi yfir höfuð að koma til neinnar skerðingar. Við minnum t.d. á Húsafriðunarsjóð. Það er auðvitað til skammar að menn skuli ekki geta látið fjárveitingar til hans í friði við þessar aðstæður. Þar eru ærin verkefni. Hér eru ekki miklir fjármunir á ferðinni en verkefnin eru ærin. Það liggur fyrir að fátt er jafnatvinnuskapandi, ef menn eru að hugsa um þann þátt málsins, og einmitt viðhald gamalla húsa og varðveisla fornminja. Það liggur við að það sé hrein vinna, t.d. viðhald torfbæjanna því torfið er ókeypis eins og kunnugt er og ljáirnir yfirleitt til. Í raun og veru er það því nánast 100% vinna sem felst í slíkum framkvæmdum.
    Ef menn vilja hafa það í huga þegar þeir kortleggja útgjaldamálefni ríkisins að gjarnan megi stuðla að því að vinnuþátturinn sé sem mestur í ljósi erfiðs atvinnuástands og vaxandi atvinnuleysis, þá vildi ég leyfa mér að halda því fram að fátt ef nokkuð fyrirfinnst á Íslandi sem hafi hagstæðari hlutföll í sér fólgin heldur en einmitt viðhald gamalla húsa og varðveisla fornminja. Það er okkur Íslendingum til nokkurs vansa svo ekki sé meira sagt hversu illa við stöndum þarna að málum. Ég vil leyfa mér að stinga upp á því að þessir þættir verði sérstaklega athugaðir. Ég segi ekki að það mundi draga mjög mikið um það þó Húsafriðunarsjóður fengi óskert framlög en þó er það eitthvað og mundi a.m.k. eitthvað muna um að hækka þetta frá þeirri 10,5 millj. kr. upphæð sem gert er ráð fyrir í þessi verkefni á landinu öllu á þessu ári samkvæmt fjárlagafrv. Það er ekki merkilegt upphæð, satt best að segja.
    Síðan gagnrýnum við sérstaklega hvernig meðferðin er á Vegagerð ríkisins samkvæmt þessu frv. og öðrum ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar. Það mál hefur þegar verið mikið rætt, bæði við afgreiðslu fjárlaga og í tengslum við vegáætlun sem komin er til umfjöllunar á þinginu. Þó verður ekki komist hjá því að minna á það að hæstv. ríkisstjórn gengur þarna óheyrilega langt í því að skerða hinn markaða tekjustofn Vegagerðarinnar og gera hann upptækan í ríkissjóð, að ganga í þennan tekjustofn með aukahækkunum á honum og afla sér þannig fjár sem auðvitað þyngir skattbyrðina á þessari grein og skapar minna svigrúm fyrir tekjur til Vegagerðarinnar sjálfrar.
    Í þriðja lagi er svo velt yfir á Vegagerðina nýjum verkefnum í stórum stíl þannig að mun nema háum fjárhæðum á næstu árum. Þetta veldur því auðvitað að hinar mörkuðu tekjur Vegagerðarinnar dragast geysilega saman en í staðinn er Vegagerðinni vísað í lántökur. Vegagerðin verður einn af stóru lántakendunum á þessu ári, slagar upp í --- ég segi nú ekki Landsvirkjun, en verður einn af þeim stóru með lántökur hátt á annan milljarð kr. á árinu.
    Þetta er auðvitað alveg hroðaleg breyting til hins verra fyrir Vegagerðina. Því hvað sem um fjárveitingar til vegamála má segja á undanförnum árum, og rífast menn um það endalaust hver hafi staðið sig öðrum betur eða verr í þeim efnum, það er kannski ekki aðalatriði málsins, reynslan sker úr því, þá geta menn ekki um hitt deilt og það er að sá er munurinn á að fram til þessa hefur Vegagerðin framkvæmt fyrir eigið aflafé og ekki safnað skuldum nema það lítilræði sem hefur stundum safnast upp í einstökum kjördæmum

vegna lántöku þegar verið er að ljúka einstökum stærri verkefnum. En það hefur ekki verið umtalsvert og Vegagerðin sem stofnun hefur ekki búið við mikla skuldabyrði.
    Það mun nú heyra fortíðinni til, því miður. Í stað þessa eigin fjár verður Vegagerðinni ýtt út í stórfelldar lántökur og þess mun auðvitað sjá stað þegar á næstu árum þegar Vegagerðin þarf að ráðstafa stórum hluta tekna sinna, hverjar sem þær nú verða, til að borga af þessum lánum. Ég er ansi hræddur um að þá muni ýmsir sem þá glöptust til að hæla þessum ráðstöfunum hæstv. ríkisstjórnar naga sig í handarbökin og þess vegna er e.t.v. hyggilegt, ef svo kynni að fara að þeir hinir sömu menn sætu í einhverjum tilvikum á Alþingi eftir 4--5 ár, að þeir geymi sér orðaskiptin þangað til þá. T.d. hv. 3. þm. Vestf. sem nokkuð hefur látið þetta mál til sín taka í töluðu máli. Ef svo skyldi fara að við yrðum báðir á Alþingi 1995 eða 1996 þá held ég að það væri fróðlegt að við færum yfir reynsluna á þessu fyrirkomulagi og hversu hamingjusamir við verðum þá yfir því að Vegagerðin skuli vera með margra milljarða skuldir á bakinu. En það er það sem hæstv. ríkisstjórn er að stofna til.
    Fleiri þætti mætti nefna eins og málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna sem ljóst er að á engan hátt er þannig búið að að unnt sé að framkvæma lög um námslán og námsstyrki eins og andi þeirra býður upp á. Hæstv. ríkisstjórn hefur, eins og kunnugt er, skert þau lán mjög verulega og þrengt að námsmönnum með þeim afleiðingum að stórlega fækkar fólki í námi þrátt fyrir vaxandi atvinnuleysi þegar tilhneigingin ætti að vera öfug ef eitthvað er, að fleiri reyndu þá að nota tímann til að afla sér menntunar frekar en að ganga um og mæla göturnar. Þróunin hér er öfug miðað við það sem t.d. hefur orðið í nágrannalöndunum þar sem reynt hefur verið m.a. að mæta vaxandi atvinnuleysi með því að auðvelda fólki að afla sér menntunar og endurhæfa sig. Hér gerist hið gagnstæða eins og oft endranær að þessi mál þróast í algjörlega öfuga átt hjá okkur. Það er þrengt að námsmönnum, námslán skert og aðstæður þeirra sem erfiðasta hafa stöðuna til að kosta sig til náms verða það slakar að þeir hrökklast frá námi eins og dæmin sýna.
    Sömuleiðis hefði verið ástæða til að fara betur ofan í húsnæðismálin og á það er minnt í nál. og þá er talað um Landsvirkjun sem er auðvitað stærsti einstaki lántakandinn í landinu fyrir utan ríkissjóð. Landsvirkjun þarf hátt í 8 milljarða kr. að láni á þessu ári. Staða þess fyrirtækis er slík að það getur sáralítið ef nokkuð borgað niður skuldir sínar á árinu. Ef ég man rétt voru það e.t.v. tugir milljóna sem meiningin var að raunskuldir Landsvirkjunar gætu lækkað á árinu. Hér er því nokkurn veginn slegið lán fyrir öllum afborgunum og vöxtum fyrirtækisins. Það er auðvitað ekki heppileg staða. Þarna spila inn í hlutir eins og gengisfellingin sem á sinn stóra þátt í því að skuldir Landsvirkjunar jukust á einni viku um 4 milljarða kr. Fóru úr 42 milljörðum í u.þ.b. í 46 milljarða.
    Auðvitað væri ástæða til þess að farið væri miklu nánar yfir stöðu þessa fyrirtækis sem er að stórum hluta í eigu ríkisins en gert hefur verið að mínu mati. Landsvirkjun hefur verið alveg sérstakt ríki í ríkinu og hefur nánast ekki mátt anda á það fyrirtæki. Ég held að eigandinn, ríkið, þurfi að hafa það í huga að þarna er á ferðinni gífurlega stór aðili sem ríkið ber mikla ábyrgð á og þess vegna geti verið skynsamlegt að fara ofan í saumana á málefnum fyrirtækisins, ekki endilega vegna þess að þar sé eitthvað bogið við heldur einfaldlega til þess að menn viti hver staða þess er og hvað í vændum geti verið. Það er alveg ljóst að ríkið ber mikla ábyrgð á þessu fyrirtæki. Þetta er opinbert fyrirtæki í beinum skilningi þess orðs. Ríki og sveitarfélög eiga það og það er svo stórt og fyrirferðarmikið sem langstærsti einstaki aðilinn á íslenska lánamarkaðnum utan við ríkið að ástæða er til að gera betur en að taka bara við árlegum óskum fyrirtækisins um lántökuheimildir eins og gert hefur verið, að manni sýnist, undanfarin ár.
    Þess vegna eru þessi orð um það höfð þó svo aðstæður byðu ekki upp á það að fara í slíka vinnu í annríkinu dagana fyrir jólin þegar efh.- og viðskn. afgreiddi þetta mál frá sér.
    Hæstv. forseti. Ég hef þá lokið við að renna yfir nál., þ.e. hið fyrra, og ætla þá lítillega að nefna á nýjan leik það sem fram kemur í frhnál., dagsettu í gær, á þskj. 590 og þá sérstaklega koma aftur að þeim tíðindum sem borin voru okkur í efh.- og viðskn. að

hæstv. ríkisstjórn hefði ákveðið að falla frá skerðingu á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við byggingu og viðhald íbúðarhúsnæðis.
    Áform stóðu til að lækka þá endurgreiðslu um 40%, úr 100% niður í 60%. Þannig ætlaði ríkissjóður sér að afla 400 millj. kr. í tekjur á árinu 1993. Í fjárlagafrv. er þetta sett upp sem nettótekjur ríkissjóðs upp á 400 millj. Að vísu er þar minnt á að þetta hafi ákveðin verðlagsáhrif en engar efasemdir eru settar fram um að þessi aðgerð muni hins vegar skila 400 millj. í tekjur hjá ríkinu. Þetta eru, hæstv. forseti, alveg yfirgengileg vinnubrögð svo ekki sé meira sagt. Við fengum á okkar fund fulltrúa hagdeilda Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Þeir mættu þar með ítarlega greinargerð sem tekin hafði verið saman á þeirra vegum og hún er birt sem fskj. með nál. minni hlutans og ég hvet þingmenn til að kynna sér þá greinargerð. Ég hygg að hún sé vel unnin og a.m.k. hefur mér ekki verið sýnt fram á að neitt í henni standist ekki. Með fylgdi bréf Benedikts Davíðssonar, forseta ASÍ, og Þórarins V. Þórarinssonar, framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins, til forsrh. þar sem eindregið var óskað eftir því að fallið yrði frá þessari mislukkuðu ákvörðun og vísað í því sambandi í útreikninga og rökstuðning hagdeildanna.
    Hvað kemur í ljós þegar farið er yfir það hvað þessi ákvörðun hefði þýtt í reynd? Það er næsta kostulegt því fyrir utan vísitöluáhrifin og verðbólguáhrifin, sem eru náttúrlega ærið áhyggjuefni og eru til nefnd af hálfu bankanna sem ein af aðalástæðunum fyrir vaxtahækkunum, kemur t.d. í ljós að þessi litla aðgerð, sem ýmsum kann að þykja, sem veltir þó ekki nema 400 millj. í útgjöldum ríkisins flytur 4 milljarða til í þjóðfélaginu, frá skuldurum til lánveitenda. Fjórir milljarðar færast yfir á einu bretti. Greiðslubyrði einstaklinganna, heimilanna og fyrirtækjanna í landinu af lánum vex um 1.250 millj. kr. á ári vegna þessarar einu aðgerðar. Í fjárlagafrv., í framsöguræðu talsmanna meiri hlutans, í máli hæstv. fjmrh., var ekki minnst á slíka hluti einu orði. Það er nefnt að aðgerðin hafi auðvitað ákveðin vísitöluáhrif og punktur. Hvers konar er þetta? Kostulegast af öllu er auðvitað það að þegar farið er yfir áhrif þessara breytinga á ríkissjóð sjálfan, sem átti að græða 400 millj., er útkoman sú að þetta er tekjutap fyrir ríkissjóð vegna þess að tekjur eða öllu heldur útgjöld ríkissjóðs vegna ýmissa vísitölutengdra bóta eða frádráttarliða frá skatti aukast um 266 millj. kr. Tekjuskattur vegna persónufrádráttarins minnkar um 221 millj., vegna sjómannaafsláttar um 8 millj., vegna barnabóta um 14 millj., vegna barnabótaauka um 10 millj. og vaxtabætur og húsnæðisbætur aukast um 13 millj. þannig að á móti kemur til frádráttar tekjutap eða útgjöld ríkisins upp á 266 millj. En ekki er allt búið með því. Nei, vegna þess að þegar síðan kemur að vaxtauppgjörinu fyrir ríkissjóð, vaxtagjöldum og vaxtatekjum vegna skulda ríkissjóðs sjálfs, hvað bætist þá við? Vaxtagjöldin aukast um 275 millj. á árinu vegna þessarar breytingar en vaxtatekjurnar aðeins um 130 þannig að niðurstaðan er sú að áhrifin á greiðslustöðu ríkissjóðs eru til viðbótar neikvæð um 145 millj. á árinu. Leggi menn svo saman 266 og 145, hvað fá þeir út úr því? Þeir eru komnir yfir 400 millj. sem ríkið átti að hafa í tekjur af því að skerða endurgreiðslu á virðisaukaskatti í þessu tilviki. Er það nú frammistaða sem borin er á borð fyrir alþingismenn sem skattahækkun og sannanlega er það það sem eigi að auka tekjur ríkissjóðs um 40 millj. Kemur í ljós að það er tekjutap og í heildina verri staða ríkissjóðs upp á einhverjar millj kr. þegar lagt er saman tekjutapið og aukin vaxtaútgjöld.
    Hæstv. forseti. Maður er gersamlega gáttaður á þessari uppákomu svo ekki sé meira sagt. Er það nú frammistaða. Ég held að einhvers staðar hljóti einhverjir að vera sem skammist sín dálítið fyrir þetta mál. Auðvitað eiga hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. fyrst og fremst að taka við skömminni og þó að við viljum auðvitað ekki skemma fríið fyrir hæstv. fjmrh. með því að tala illa um hann hér og láta hann fá hiksta þá er það samt þannig að hann sem húsbóndi fyrir þessu liði verður að líta dálítið rækilega í eigin barm þegar hann kemur heim. Sömuleiðis þarf hæstv. forsrh. að gæta orða sinna þegar hann sem siðameistari og einhvers konar háyfirdómari agaðra vinnubragða fer að siða menn til á næstunni. Kannski segir hæstv. forsrh. af sér sem háyfirdómari vinnubragðanna.
    Það er auðvitað fagnaðarefni og undir það er tekið í nál. minni hlutans að aðilar vinnumarkaðarins hafa afhjúpað vinnubrögðin. Þeir hafa sýnt fram á, svo ekki verður um

það deilt, að ríkisstjórnin hafði ekki hugmynd um áhrif eigin ákvarðana þegar hún var að kynna þær og pína þær í gegn hér fyrir jólin. Hún gerði sér enga grein fyrir því hverjar afleiðingarnar væru. Þetta var reyndar það sem við héldum fram og vöruðum við og ég man eftir því að hv. 1. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, varaði sérstaklega við þessum vísitöluáhrifum í ræðum hér um skattamál sem frsm. minni hlutans þá. Ég leyfi mér þess vegna að spyrja í næstu umferð: Er ekki viss hætta á því að svo sé um fleira, þ.e. að það geti verið að eitthvað fleira sé ekki alveg pottþétt hjá hæstv. ríkisstjórn? Ég held að það sé svo og ég ætla að taka annað dæmi þar um. Svo vill til að fulltrúar Stéttarsambands bænda komu einnig á fund efh.- og viðskn. til að ræða við nefndina um deilu þá sem staðið hafði um samskipti bændasamtakanna og ríkisvaldsins vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að lækka endurgreiðslu á virðisaukaskatti á tilteknar greinar innlendra matvæla, búvörur. Ég held að þar sé að mörgu leyti hliðstæð vitleysa á ferðinni hjá hæstv. ríkisstjórn eins og er með þennan virðisaukaskatt af íbúðarbyggingum vegna þess að áhrifin eru nokkurn veginn jafnheimskuleg. Að vísu er ekki sama rúllettan sem fer af stað í gegnum vísitölutengingarnar á peningamarkaðnum en því er þó alveg ómótmælt að vísitöluáhrif og verðhækkunaráhrif þessarar hækkunar búvörunnar eru afar óheppileg og koma í bakið á mönnum. Þar eru einnig fjárlagaliðir sem eru vantaldir í fjárlagafrv. Bændur benda t.d. á það að í búvörusamningnum, mjólkurhliðinni, er sjálfkrafa ákvæði um að verði endurgreiðslur virðisaukaskatts á þessar búgreinar skertar þá falli niður innibyggð eða umsamin framleiðnikrafa til mjólkurframleiðenda upp á 1% á árinu. Hvað þýðir það? Það þýðir útgjöld fyrir ríkissjóð í formi meiri beinna greiðslna til bænda, tekjutap á móti, þannig að aðgerðin sem átti að færa ríkissjóði einhverjar 250 eða 300 millj. mínusast um 25 millj. ef ég man þá tölu rétt, sem bændur sýndu fram á. Ég held að þarna sé á ferðinni nokkurn veginn jafnvitlaus aðgerð og ég hvet hæstv. ríkisstjórn til þess að skoða hvort ekki sé skynsamlegt að viðurkenna mistökin á fleiri sviðum og falla líka frá eða a.m.k. lækka þessa skerðingu á endurgreiðslu virðisaukaskatts á matvæli. Þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar veldur miklum verðhækkunum eins og sýnt er fram á og reyndar hefur komið fram og sýnt er fram á í fskj. með þessu nál. Á næstu vikum munu ýmis afleidd áhrif koma fram. Þannig er það t.d. að í kjölfar þess að kjötið hækkar beint mun unnin vara að sjálfsögðu hækka á næstu vikum sem nemur a.m.k. hráefnisþættinum o.s.frv. Víxlverkunin fer því í gang þegar stofnað er til verðhækkana af þessu tagi af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Einhver deila hefur verið um það hversu mikill hluti hækkunar búvaranna sé vegna skertrar endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Sú deila er óþörf vegna þess að óyggjandi gögn liggja fyrir um það. Ég bendi mönnum á töflu sem fylgir þessu nál. Þar kemur alveg skýrt fram að 7,28% af verðhækkunartilefnum í eggjum er vegna lækkunar á endurgreiðslum virðisaukaskatts eða rúmar 18 kr. á hvert kg, að 11,14% í kjúklingum er vegna lækkunar endurgreiðslu eða 29 kr. á hvert kg sem kjúklingakjötið þarf að hækka beint vegna þess að ríkið hækkar matarskattinn. 13,48% eða öll hækkunin í nautakjöti er vegna þess að ríkið hækkar matarskattinn, 48 kr. á kg af nautakjötinu og í svínakjöti eru þetta sambærilega 8,65% eða 26 kr. og 53 aurar.
    Varðandi ásakanir um að bændur hafi eignað ríkisstjórninni meira en efni stóðu til í þessum efnum vísa ég í minnisblað frá Fréttasambandinu þar sem skýrt kemur fram að í frásögn og kynningu á málinu var því ævinlega haldið til haga að orsakir verðhækkananna væru tvenns konar: Annars vegar hækkun tilkostnaðar vegna gengisfellingar og fleiri aðgerða og fleiri hluta og hins vegar hækkunarþörf vegna hækkunar á matarskatti. Ég sé ekki annað af þessum gögnum, sem fyrir liggja í málinu, en að bændur hafi komið algerlega hreint til dyranna í þessum efnum. Þeir útreikningar sem þarna liggja fyrir og eru reyndar frá landbrn., ekki bændasamtökunum, sundurliða þetta þannig að hver og einn getur áttað sig á þessu sjálfur. Úr því að hæstv. ríkisstjórn er á annað borð tekin til við að afturkalla mislukkaðar ákvarðanir sínar í skattamálum og dregur þær breytingar inn í lánsfjárlagafrv. sem hér er til umræðu held ég að ástæða sé til að hvetja hana til að gera þá betur og lagfæra fleira. Ærin eru tilefnin.
    Einnig bárust inn í nefndina óskir um það að tekin yrði inn heimild vegna járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og bæði hvað varðar skammtímafyrirgreiðslu til fyrirtækisins þannig að rekstri þess megi halda áfram á næstu mánuðum en einnig að heimilt verði að semja um aukningu hlutafjár og endurfjármögnun fyrirtækisins í samvinnu við hina erlendu eignaraðila eða aðra hugsanlega ef til kæmu og koma fyrirtækinu þannig á sæmilega traustan grundvöll. Í nál. minni hlutans segir að margt virðist mæla með því að reynt verði að forða þessu fyrirtæki frá gjaldþroti. Ég hygg að það sé almennt sjónarmið að auðvitað sé ekki á bætandi að þeim fyrirtækjum fjölgi sem verði gjaldþrota og segi upp öllu starfsfólki sínu. Ærinn er nú vandinn samt. En þó er að mörgu að hyggja í þessu sambandi. Fyrir það fyrsta er ljóst að mjög sértæk aðgerð er á ferðinni svo að ekki sé nú meira sagt, eins sértæk og nokkur aðgerð í atvinnulífi getur verið, þ.e. að bjarga einu fyrirtæki, sértækasta ráðstöfun sem um getur og orðið getur. Menn skulu þá líka hafa það í huga að lítið hefur orðið úr stóru orðunum um bannhelgi hinna sértæku aðgerða ef hæstv. ríkisstjórn ríður á vaðið eða hefur forustu um að ganga í sérstakar aðgerðir til bjargar þessu eina fyrirtæki.
    Einnig er rétt að fram komi að okkur þótti nokkuð skorta á upplýsingar. Þær sem voru reiddar fram fyrir nefndina voru nokkuð fátæklegar og það leiddi m.a. til þess að ákveðið var að til ríkisstjórnarinnar kæmi eingöngu heimild um að ganga til samninga sem síðan þyrftu aftur endanlega staðfestingu Alþingis. Í nefndinni komu fram þau sjónarmið að ekki væri eðlilegt að afgreiða endanlega eða opna heimild heldur yrði hún að vera með þeim hætti skilyrt að hin endanlega niðurstaða þyrfti við samþykki Alþingis.
    Þá hef ég, hæstv. forseti, farið yfir þessi tvö nefndarálit, þ.e. nál. og frhnál., og rakið helstu efnisþætti þess og þar fyrir utan gert vinnubrögðin nokkuð að umtalsefni. Aðstæður eru satt best að segja ekki mjög gæfulegar á nýbyrjuðu ári. Skriða verðhækkana hefur dunið yfir landsmenn nú um áramótin og í töflu, sem tekin var saman og birtist í Vikublaðinu í síðustu viku, hafa nokkrar helstu hækkanirnar verið teknar saman, um 20 talsins. Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á því eða sett þetta upp fyrir framan sig í eina töflu eins og þarna hefur verið gert og það er ærið óhugguleg lesning satt best að segja. Ég held að ég leyfi mér, með leyfi hæstv. forseta, að renna aðeins yfir þessa töflu, verðhækkunarskriðuna á síðustu dögum og vikum eða það sem boðað er og er fram undan á næstunni. T.d. liggur fyrir að bensín hefur hækkað um 12,8--15,4% á rétt rúmum mánuði, upp í 15%, nautakjöt um 14%, kjúklingar um 9,6%, svínakjöt um allt að 10%, egg um 5%, raforka samkvæmt gjaldskrá Landsvirkjunar um 4%, nafnvextir hafa hækkað um 1,5--2,75%, vextir af verðtryggðum lánum um 0--0,5%, hlutdeild sjúklinga í lyfjaverði er að hækka úr 25 í 32% þessa dagana og munar um minna, innflutt vara, bílar, heimilistæki o.s.frv. hækkar á bilinu 0--8% vegna gengisfellingarinnar, amerískar og japanskar vörur mest vegna þess að til viðbótar gengisfellingunni hefur komið hækkandi gengi þeirra gjaldmiðla og vega þær þó býsna þungt í innflutningsvísitölu okkar. Húshitun hækkaði 1. janúar um 8--14%. Póstburðargjöld hækkuðu í nóvember um 7% vegna forsendna fjárlaga, flugfargjöld hækkuðu um 4% í millilandaflugi og 4,5% í innanlandsflugi, farmgjöld skipafélaga hækkuðu um 4%, brennivín og tóbak hefur hækkað o.s.frv.     Satt best að segja er þetta harla ljót lesning og hvað þýðir það þegar svona stór skriða verðhækkana fer út á einu tímabili? Jú, það þýðir að aðrar hækkanir koma í kjölfarið. Þeir sem eru með þessa vöru sem útgjaldaþátt í sínum rekstri skoða hjá sér töflurnar og segja: Ég verð að hækka hjá mér útselda vinnu eða framleiðslu mína vegna þess að hjá mér eru komin hækkunartilefni. Við vitum að í kjölfarið á slíkri skriðu sigla aðrar verðhækkanir næstu vikurnar og næstu mánuðina. Reyndar er það svo að í rökstuðningi bankanna fyrir sínum vaxtahækkunum kemur þessi skrúfuhugsunarháttur eða þessi skrúfuverkun kannski skýrast fram því að bankarnir segja beint: Vaxtahækkunin er afleiðing ákvarðana ríkisstjórnarinnar, verðhækkana og verðbólgu sem leiða af þeim. Auðvitað spilar slæm afkoma hjá bönkunum þarna inn í en fari menn yfir rökstuðning talsmanna bankanna, það sem þeir nefndu fyrst og bentu aðallega á, væru þessar verðhækkanir og verðbólguspár sem á þeim byggðust.
    Þetta er staðan á nýbyrjuðu ári og ég sé ekki þá birtu fram undan sem hæstv. forsrh. að hætti forvera síns þóttist reyndar reyna að sjá um áramótin þegar hann hélt ræðu sína.

    Auðvitað er það svo að e.t.v. sér hæstv. ríkisstjórn eitthvað að sér. Maður veltir því fyrir sér, er ríkisstjórnin tilbúin til þess að hverfa frá stefnu sinni í meira mæli en sem nemur þessari einu uppgjöf gagnvart endurgreiðslu virðisaukaskattsins? En staðan er svona: Verðhækkunarskriðan er að ganga yfir í þjóðfélaginu. Það er vaxandi atvinnuleysi. Vextirnir hafa hækkað og verðbólgan er komin á talsverðan skrið.
    Ég vil því leyfa mér að lokum, hæstv. forseti, að segja það álit mitt að ef hægt er að tala um efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar þá sé hún hrunin og þess vegna sé aðeins tvennt til: Annaðhvort verður gerbreytt um stefnu á næstu mánuðum og menn skipta algerlega um aðferð gagnvart þeim erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir, í stað þess vítahrings samdráttar, atvinnuleysis, niðurskurðar og svartsýni sem menn eru að skrúfast niður í, þá verði gripið til annarra ráða og menn reyni að rífa sig upp úr þeim erfiðleikum í staðinn fyrir að skrúfa sig sífellt dýpra ofan í þá. Ég er alveg sannfærður um það að annað tveggja mun gerast á næstu mánuðum. Ríkisstjórnin verður knúin til þess að hverfa frá þessari stefnu í veigamiklum atriðum eða hún fer frá því að henni er ekki stætt að óbreyttu. Það er alveg á hreinu. Ég velti því dálítið fyrir mér hvort hæstv. forsrh. sé ekki að átta sig á þessu. (Gripið fram í.) Ja, það er nú spurningin. Mér hefur stundum fundist upp á síðkastið að hæstv. forsrh. væri svolítið breyttur maður, ekki sami völlurinn á honum og var hér fyrst þegar hann einn vissi og hann einn kunni, sagði mönnum til á báðar hendur og leiðbeindi um vinnubrögð. Það hefur meira færst yfir á herðar hæstv. utanrrh. síðustu vikurnar a.m.k. að vera talsmaður hrokagikksháttarins sem er ákveðið einkennismerki þessarar hæstv. ríkisstjórnar eða var a.m.k. En reynslan mun leiða þetta í ljós og reynslutíminn verða næstu mánuðir. Það er auðvitað alveg ljóst að hæstv. ríkisstjórn hefur stofnað til mikils ófriðar í þjóðfélaginu með aðgerðum sínum. Það horfir ófriðlega, því miður, t.d. í samskiptum aðila vinnumarkaðarins, fyrst og fremst vegna stefnu ríkisstjórnarinnar og framgöngu hennar. Það er ekkert farið dult með hvað það sé sem aðallega kyndi þar undir kötlunum.
    Og ég geri þessi orð að mínum síðustu. Annaðhvort verður hæstv. ríkisstjórn að hverfa í grundvallaratriðum frá þeirri stefnu sem hún hefur fylgt og taka upp gjörbreytta stefnu og gjörbreytt vinnubrögð eða hún mun ekki kemba hærurnar út þetta ár.