Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 11:59:27 (4773)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi um skammdegisskýrslu Seðlabankans, þá þykir mér henni nú gert hátt undir höfði ef hún er orðin að efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Það eru ýmsar ágætar upplýsingar í skammdegisskýrslunni um fjármagnsmarkaðinn en ég hélt að lánsfjáráætlun ríkisstjórnarinnar og forsendur fjárlaga og lánsfjárlaga væru stefnuplöggin um það hvað ríkisstjórnin hygðist fyrir í þessum efnum þannig að ég held að að sé lítið svar við þeirri sundurvirkni og þeim handabakavinnubrögðum sem ríkisstjórnin varð ber að og er alltaf að sannast æ betur að er ber að í þessum málum.
    Varðandi lífeyrissjóðina er rétt að menn hafi það í huga að þeim er þarna ætlað að auka kaup sín um hátt á fjórða milljarð króna á þessum pappírum. Á sama tíma eru þeim að opnast möguleikar til fjárfestinga erlendis og reynslan frá síðasta ári er sú að það er að draga úr þessum föstu pappírakaupum lífeyrissjóðanna, m.a. vegna þess að þeir eru að nýta sér möguleika til að dreifa fjárfestingum sínum meira en áður var og líka vegna þess að þeir hafa í nokkrum mæli verið að leggja ákveðið fé í atvinnulífið. Og er það ekki af hinu góða, hv. þm.? ( VE: Jú, mjög.) En er það þá skynsamlegt af hæstv. ríkisstjórn að gera ráð fyrir að þrátt fyrir þessar aðstæður geti þeir samtímis stóraukið kaup sín á bréfum hjá byggingarsjóðunum? Það gengur einfaldlega ekki upp nema til þess að vextirnir hækki þar og dragi til sín þetta meira fjármagn. Það er það sem talsmenn lífeyrissjóðanna eru að benda á. Þarna er alger brotalöm á ferðinni í áætlanagerð hæstv. ríkisstjórnar og það er langhreinlegast fyrir stjórnarliða að viðurkenna það.
    Varðandi hækkun matarskattsins á búvörunum kann það að vera að í vísitölunni að meðaltali mælist þetta svona. Við vitum að þessi hækkun kemur þyngst við þá sem verja hlutfallslega mestu af tekjum sínum til matarkaupa og þess vegna er þetta sérlega óréttlát og vitlaus aðgerð og þó að hún sé út frá vísitöluleikfiminni e.t.v. ekki jafnskaðleg og lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts á húsbyggingar þá er hún samt vitlaus.