Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 12:01:55 (4774)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af endurgreiðslunni á virðisaukaskattinum á búvörurnar held ég að það liggi fyrir að ekki sé hægt að finna það út að það sé endilega láglaunafólk sem kaupir nautalundir á 1.000 kr. kílóið. Varðandi lífeyrissjóðina held ég að menn verði að hafa það í huga að húsbréfaútgáfan minnkar um 2 milljarða á þessu ári vegna tilflutnings á milli ára. Síðan hafa lán til einstaklinga verið að minnka og í því felst að það kemur aukið svigrúm m.a. til fjárfestinga í hlutabréfum fyrirtækja sem við erum vonandi sammála um, ég og hv. þm., að sé nauðsynleg.
    Varðandi verðbólguna á þessu ári þá hafa spár verið mjög misvísandi um þetta, þ.e. verið kannski á bilinu 3--4,5% eftir því hver hefur verið að spá. Ég hygg að lægri talan verði svona það sem upp úr stendur og það er einfaldlega vegna þess að þær aðstæður eru í þjóðfélaginu að þeir sem eru að selja vöru eða þjónustu hafa einfaldlega ekkert svigrúm til þess að koma nema allra nauðsynlegustu hækkunum út í verðlag. Það eru engar þær aðstæður sem hafa breyst í efnahagslífinu, það er engin þensla heldur þvert á móti og það gerir það auðvitað að verkum að verðlagstölurnar verða örugglega í lægri kantinum á þessu ári þrátt fyrir allt það sem hefur gerst, m.a. gengisfellingu og skattbreytingarnar.