Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 13:54:56 (4781)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við erum nú þar stödd í þinghaldi að 2. umr. um lánsfjárlög er komin vel af stað. Okkur er öllum ljóst að fram undan er hlé á þingstörfum og því höfum við hér síðustu tækifærin til að beina spurningum til ráðherranna áður en þetta hlé hefst. Því er ekki óeðlilegt að menn fari hér nokkuð vítt og breitt enda vill nú svo til að lánsfjárlögin, eða lög um lánsfjárlög og fleira eins og þau munu heita samkvæmt breytingatillögu meiri hlutans, ná til ótrúlega margra þátta þjóðlífsins eins og ég mun koma síðar inn á.
    Þegar litið er á þetta frv. beinast sjónir fyrst að þeim vinnubrögðum sem blasa við okkur varðandi þetta mál og önnur sem tengjast ríkisfjármálunum. Og ef menn líta einfaldlega á þær brtt. sem fylgja þessu frv. núna og er að finna á hvorki meira né minna en fjórum þingskjölum þá sýnir það auðvitað að hér er um að ræða mál sem tekið hefur miklum breytingum á milli umræðna. Og ég held að ríkisstjórnin megi nú þakka stjórnarandstöðunni fyrir það að samið var um að geyma lánsfjárlögin fram yfir áramót þar sem í ljós hefur komið að nauðsynlegt er að gera á þeim og reyndar öðrum lögum, sem samþykkt voru fyrir jól, nokkrar breytingar.
    Þessi vinnubrögð hljóta náttúrlega að vekja spurningar um það hvernig staðið er að

málum á vegum ríkisstjórnarinnar og þingsins og ég held að við getum ekki kallað þetta annað en flumbrugang í vinnubrögðum þegar mönnum liggur svo mikið á að fá samþykkt lög að það gefst ekki einu sinni tími til að athuga hvað í þeim felst eins og nú er fram komið og sést hér á einni af þeim brtt. sem fyrir liggja. Ég held að ég hljóti að beina því til ríkisstjórnarinnar að hún flýti sér nú hægt í framtíðinni til þess að það eigi sér ekki stað mistök af þessu tagi og kannski ekki síst að menn hlusti á þær athugasemdir sem fram koma. Nú var það svo að í efh.- og viðskn. voru kallaðir til ótalmargir aðilar á dögunum fyrir jól áður en við fórum í jólahlé. Þeir aðilar sem best mega þekkja til, og m.a. komu fulltrúar Vinnuveitendasambandsins og Alþýðusambandsins, bentu á ýmsa galla í skattalagafrv. og ekki síst það sem sneri að endurgreiðslum á virðisaukaskatti í byggingarstarfsemi. Á það var bent að þessi breyting mundi hafa ýmiss konar mergfeldisáhrif. En á þetta var ekki hlustað. Það er ekki hlustað, hvorki á aðila vinnumarkaðarins né stjórnarandstöðuna, heldur vaðið áfram án þess að menn athugi hvað þeir eru að gera. Það hljóta auðvitað að vakna spurningar varðandi ýmislegt annað sem var samþykkt hér fyrir áramót og þá verður mér einkum hugsað til þeirra breytinga sem gerðar voru á virðisaukaskattinum gagnvart ferðaþjónustunni sem eins og fram kom í umræðunni munu hafa í för með sér miklar breytingar og alvarlegar þegar þar að kemur og enn er tími til að skoða betur. Ég skora á hæstv. forsrh., sem brást nú nokkuð skjótt við í þessu máli eftir að honum hafði verið gerð grein fyrir þeim áhrifum sem breytingin varðandi byggingarstarfsemina mundi hafa, að hann skoði nú það mál sem snýr að ferðaþjónustunni. Því samkvæmt úttekt Þjóðhagsstofnunar munu þær breytingar hafa í för með sér samdrátt í greininni, fækkun starfa og menn óttast þar ýmis alvarleg áhrif. Þá er ekki síður að nefna landbúnaðinn og hækkun landbúnaðarvara sem líka hafa í för með sér margföld áhrif. Sú lækkun veldur því að beinar greiðslur til bænda hækka, það verður auðvitað hækkun á verðlagi og allt kemur þetta fram á mörgum sviðum þjóðlífsins. Ég ætla nú að koma undir lok ræðu minnar að þessu vísitöludæmi en þessi umræða hefur leitt í ljós hvílík hringavitleysa er þar á ferð. Það er auðvitað mál sem þarf að skoða þegar þetta kerfi er allt svona samantengt að ein takmörkuð aðgerð veldur því að við liggur að allt þjóðfélagið fari á annan endann.
    Það er eitt atriði, frú forseti, sem ég vil líka vekja athygli á áður en ég kem að málinu sjálfu. Það snýr að hinni tæknilegu hlið þessa lagafrv. Ég vil enn einu sinni gera athugasemd við það hvernig málum er hrært saman á þann hátt sem verður að finna í þessu lagafrv. Hér er í fyrsta lagi um það að ræða að frv. inniheldur lánsfjárlögin eins og þau snúa að ríkisvaldinu. Í öðru lagi er hér að finna það sem kallað hefur verið ráðstafanir í ríkisfjármálum, þ.e. hin svokölluðu ,,þrátt-fyrir-ákvæði``. Síðan hefur bæst við breyting á nýsamþykktum skattalögum. Tæknilega séð þykja mér þetta mjög vond vinnubrögð og við höfum stundum kallað þetta lagasukk. Það væri miklu eðlilegra að greina þetta í sundur þannig að ekki sé verið að búa til lagabálka af þessu tagi sem innihalda ákvæði úr öllum mögulegum áttum. Ég held að varðandi löggjafarstarfið og til þess að það sé nú vel og skýrt unnið beri að forðast vinnubrögð af þessu tagi.
    Lánsfjárlögin eru í rauninni endapunkturinn á öllum ríkisfjármálapakkanum og líklega stendur ríkisstjórnin í þeirri trú að hér með sé verið að loka þeim pakka og binda á hann sína slaufu, en í ljósi reynslunnar má eins búast við því að taka þurfi upp ýmis önnur ákvæði. Ég get ekki annað en vakið athygli á því að tekjuhlið fjárlaganna, sem samþykkt var fyrir jól, er harla óviss. Með þessum breytingum, sem hér stendur til að gera, verður 600 millj. kr. tekjuöflun að engu en væntanlega kemur eitthvað þar á móti. Við stöndum frammi fyrir því að samkvæmt bráðabirgðaspám Þjóðhagsstofnunar bendir margt til þess að samdráttur verði því miður meiri en ráð var fyrir gert sem þýðir væntanlega að samdrátturinn í tekjum ríkisins verður meiri en gert hefur verið ráð fyrir. Allt er þetta dæmi þess vegna harla óljóst.
    Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum hafa mjög einkennst af árásum á launafólk í landinu og þarf vart að rifja upp það sem gert var hér fyrir jól. Þær aðgerðir voru af ýmsu tagi og voru gagnrýndar mjög harðlega, en spurning er auðvitað hvað skilar sér af þeim. Ég ætla ekki að rifja það upp fyrir þingheimi en eins og menn muna, þá sneru

þær annars vegar að málefnum heilbrrn. og hins vegar að beinum skattahækkunum fyrir svo utan þann niðurskurð sem er að finna í sjálfu fjárlagafrv. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er: Hver verður lokaniðurstaðan út úr þessu dæmi? Þetta hafa verið afar umdeildar aðgerðir og ein af forsendunum þess að þau áform nái fram að ganga og niðurstöður fjárlagadæmisins standist er að ekki fari allt í bál og brand á vinnumarkaði en aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa verið með þeim hætti að varla er við öðru að búast. Það streyma inn uppsagnir kjarasamninga og það er greinilega mikill urgur í fólki vegna þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til. Atvinnuleysi fer vaxandi, því miður, og því er ekki annars að vænta en það séu nokkur átök fram undan. Það er auðvitað erfitt að sjá um hvað er hægt að semja á tímum eins og þessum en það sem þó er hægt að gera er auðvitað að auka jöfnuðinn því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa fyrst og fremst beinst að því að ráðast á lágtekju- og meðaltekjufólk en hlífa hinum tekjuhærri og því hlýtur krafan að verða um aukinn jöfnuð.
    Inni í þessum dæmi eru svo vaxtamálin sem allmjög hafa verið til umræðu að undanförnu og manni finnst að bankarnir séu býsna fljótir að hlaupa til og hækka vexti þegar einhverjar fréttir fara af verðbólguspám en þegar þeir sjá teikn á lofti um einhverja lækkun eða minni verðbólgu eru þeir lengi að hugsa sig um. Þar hefur Íslandsbanki farið fremstur í för en hinir bankarnir hljóta óhjákvæmilega að fylgja eftir. En auðvitað hlýtur ríkisstjórnin að setja vaxtamálunum rammann með sinni gríðarlegu eftirspurn eftir lánsfé og jafnframt því hvernig hið efnahagslega umhverfi er. Ég er því ekki samþykk þegar menn eru að ráðast á bankaráðin og stjórnir bankanna fyrir vaxtahækkanir því að auðvitað stýrist þetta af ástandinu á markaðnum og eftirspurn eftir lánsfé. En auðvitað ræður hið efnahagslega umhverfi mestu og þar reynir á ríkisstjórnina að draga úr sinni eftirspurn eftir lánsfé. Það verður að viðurkennast að þar er úr vöndu að ráða og eitt að segja það í dag að menn verði að ná niður vöxtunum með því að draga úr eftirspurn eftir lánsfé, en segja að á hinn bóginn verði að grípa til ráðstafana til þess að auka atvinnu og að til þess sé réttlætanlegt að taka lán, eins og ég hef reyndar haldið fram. Þarna er vandinn sá að finna bil beggja og reyna að skrúfa þessa eftirspurn hægt og rólega niður.
    Ef ég vík þá að sjálfu frv. til lánsfjárlaga, þá er þar margt mikilvægra mála sem vert er að velta fyrir sér. Ég kom hér áðan inn á eftirspurn ríkisins eftir lánsfé sem heldur uppi vöxtunum að hluta til í landinu. Þó verður það að viðurkennast að nokkuð hefur dregið úr þeirri eftirspurn en það virðist ekki verða til þess að vextir lækki heldur hækka þeir ef eitthvað er. Það er því fleira sem spilar þarna inn í. En það verður aldrei of oft sagt að eitt af því allra nauðsynlegasta í okkar fjármálastjórn er að lækka vextina, ekki aðeins vegna fyrirtækjanna í landinu og þeirra stöðu heldur ekki síður vegna heimilanna og þeirra miklu skulda sem á heimilunum hvíla.
    Ef ég vík að einstökum atriðum lánsfjárlaganna, þá verður fyrstur fyrir mér Lánasjóður ísl. námsmanna. Hann þarf að taka veruleg lán til þess að fjármagna sína starfsemi. Þar með komum við að því atriði að árum saman hefur hinum ýmsu sjóðum verið beint í æ ríkara mæli út á lánamarkaðinn sem veldur því að æ stærri hluti af þeirra fé fer í að greiða afborganir og vexti af lánum. Það er búið að koma þessum sjóðum í mjög vonda stöðu. Það gildir ekki eingöngu um Lánasjóð ísl. námsmanna heldur ekki síður um byggingarsjóðina. Þetta er að mínum dómi mjög slæm stefna. Við í efh.- og viðskn. fengum formann stjórnar lánasjóðsins á okkar fund. Þar kom fram það, sem maður svo sem vissi, að þrátt fyrir miklar breytingar á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna er staða hans að mörgu leyti afar erfið, ekki síst vegna þess að menn sjá fram á það að lántökuþörfin muni aukast mjög á næstu árum. Sjóðurinn skuldar nú 11 milljarða kr. og þar af leiðandi fer æ meira af hans fé í það að borga afborganir og vexti. Þær breytingar sem gerðar voru á lánasjóðnum duga hvergi nærri til að mæta þessu. Þó að námsmönnum og lánþegum sjóðsins hafi fækkað nokkuð dugar þetta ekki. Það er m.a. vegna þess að lán lánasjóðsins eru flest skammtímalán, til 5--10 ára. Það upplýstist reyndar hjá formanni stjórnar lánasjóðsins að hefði lögunum ekki verið breytt hefði vantað upp á 1.300--1.400 millj. kr. til viðbótar þeim gríðarlegu lántökum sem hér eiga sér stað. En í rauninni held ég að þessi mál

hefði ekki verið hægt að leysa öðruvísi en með framlagi úr ríkissjóði. Ef við spyrjum okkur um það hver forgangsröðin eigi að vera í okkar samfélagi, þá er eitt af því mikilvægasta það að mennta þjóðina og stuðla að því að efla rannsóknir og vísindi. Því er það mín skoðun að hér hafi verið rekin alröng stefna í þessum efnum og hefði mátt gera ýmsar aðrar breytingar á lánasjóðnum til þess að halda honum í böndum. Fyrst og fremst er verið að grafa undan sjóðnum með því að beina honum í æ ríkara mæli út á lánamarkaðinn.
    Þær miklu lántökur sem Landsvirkjun stendur frammi fyrir vekja líka athygli þegar haldið er áfram í þessu frv. og tengjast þeirri stóriðju og virkjanastefnu sem hér hefur verið rekin árum saman. Eins og við vitum gengur illa að koma orkunni í verð og flestir draumar stóriðjusinnanna hafa að litlu orðið. Þar af leiðandi virðist sem Landsvirkjun sé að komast í mikla erfiðleika. Ekki var gengisfellingin til þess að bæta ástandið svo sem vænta mátti. Þetta stóra og mikilvæga fyrirtæki er þess vegna í nokkrum vanda. Ég held að ég muni það rétt að skuldir Landsvirkjunar séu 1 / 5 af öllum skuldum þjóðarbúsins. Þarna er því ekki um neitt smáræði að ræða. Í rauninni held ég að menn hafi horft á þessi mál allt of þröngt og hér hafi þurft að byggja upp ýmiss konar smáiðnað og smærri fyrirtæki og ýta undir fjölbreytni í atvinnulífinu í stað þess að einblína á stóriðjuna með þeim hætti sem gert hefur verið á undanförnum árum.
    Ég ætla að nefna Byggðastofnun nokkrum orðum. Hér eru nokkrar lántökuheimildir til Byggðastofnunar og þá vaknar auðvitað sú spurning sem ég vil beina til hæstv. forsrh. hvernig hann sér hlutverk Byggðastofnunar í framtíðinni. Maður hefur það á tilfinningunni, og svo sem meira en á tilfinningunni, það er staðreynd að Byggðastofnun svífur mjög í lausu lofti. Það er verið að breyta hlutverki Byggðastofnunar. Það er verið að taka af henni það lánahlutverk sem hún hefur verið í og sú spurning vaknar: Hvert á hlutverk Byggðastofnunar að verða? Er kannski ekki þörf á stofnun eins og þessari eða hvað ætla menn sér með hana?
    Þá kem ég að byggingarsjóðum ríkisins. Hér situr hæstv. félmrh. og eins og ég nefndi áðan gildir auðvitað það sama um byggingarsjóðina og aðra sjóði að þeim hefur verið vísað æ lengra út á lánamarkaðina og ríkisframlagið verið skorið niður að sama marki. Ég vil vekja athygli á því að okkur í efh.- og viðskn. barst bréf frá Sambandi almennra lífeyrissjóða og Landssambandi lífeyrissjóða þar sem vikið er að auknum lántökum byggingarsjóðanna. Ég ætla að leyfa mér að lesa bréfið, með leyfi forseta. Þar segir:
    ,,Samkvæmt frv. til lánsfjárlaga 1993, eftir brtt. meiri hluta efh.- og viðskn., er gert ráð fyrir lántökum Byggingarsjóðs ríkisins að fjárhæð 3.860 millj. kr. og Byggingarsjóðs verkamanna að fjárhæð 6.870 millj. kr. eða samtals 10.730 millj. kr. innan lands og þá væntanlega hjá lífeyrissjóðunum.
    Landssamband lífeyrissjóða og Samband almennra lífeyrissjóða vilja vekja athygli nefndarinnar á þeirri staðreynd að lántökur fyrrgreindra sjóða hjá lífeyrissjóðunum námu 7.363 millj. kr. á öllu árinu 1992. Þannig er gert ráð fyrir auknum lántökum hjá lífeyrissjóðunum um 3.667 millj. kr. eða um 45,7% á árinu 1993. Fyrrgreindar lánveitingar koma til viðbótar kaupum lífeyrissjóðanna á húsbréfum en útgáfa húsbréfa á árinu 1993 er talin verða álíka mikil og á árinu 1992.
    Eins og fyrrgreindar tölur bera með sér er stefnt að stórauknum lántökum Húsnæðisstofnunar hjá lífeyrissjóðunum á næsta ári og verður ekki annað séð en afleiðingin yrði raunvaxtahækkun en ekki lækkun raunvaxta eins og stefnt er að. Lífeyrissjóðasamtökin harma að fulltrúar þeirra hafa ekki verið kallaðir fyrir nefndina þannig að benda megi nefndarmönnum á hversu stórfelld mistök eru hér í uppsiglingu.``
    Hér eru mjög alvarlegar ábendingar og ég beini því til hæstv. félmrh. að skoða þessa stöðu allrækilega. Það er búið að samþykkja fjárlög og verður litlu breytt um það hvernig byggingarsjóðirnir verði fjármagnaðir en það má alveg ljóst vera að þetta er allt hluti af sömu hringavitleysunni. Sjóðunum er stefnt út á lánamarkaðinn og eftirspurn eftir lánsfé eykst sem veldur vaxtahækkun. Spurningin er því hvernig hægt er að rjúfa þetta samhengi. Þó ég sé mikill stuðningsmaður hins félagslega húsnæðiskerfis, þá verður auðvitað að horfa á þetta mál í samhengi við annað og þá það, sem ég nefndi hér áðan, hversu

nauðsynlegt það er að draga úr vaxtahækkunum. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. álits á þessu bréfi Sambands almennra lífeyrissjóða og Landsambands lífeyrissjóða og hvort hún telur að hér sé um réttar ályktanir að ræða af þeirra hálfu. En þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál.
    Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að hinum svokölluðu ,,þrátt-fyrir-ákvæðum``. Þar verður fyrst fyrir mér Ríkisútvarpið, virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að ræða um Ríkisútvarpið. Samkvæmt frv. er framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins enn einu sinni skorinn rækilega niður þannig að hann fær ekki krónu af því sem hann hefði átt að fá en það er hvorki meira né minna en 200 millj. Þetta þýðir auðvitað að það hægist á allri þróun Ríkisútvarpsins. Þetta er hluti af þeirri stefnu að það er alltaf verið að samþykkja lög og eyrnamerkja fé en svo er það allt meira og minna tekið í aðra hluti. Okkur barst fyrir skömmu bréf frá útvarpsráði, undirritað af Halldóru Rafnar, formanni útvarpsráðs. Í bréfinu er Alþingið beðið liðsinnis til þess að Ríkisútvarpið fái að hækka afnotagjöld útvarpsins. Í bréfinu segir, með leyfi forseta:
    ,,Um alllangt skeið hafa afnotagjöld Ríkisútvarpsins ekki verið í samræmi við verðhækkanir og hafa t.d. ekkert hækkað nú á þriðja ár. Á árunum 1990--1992 hækkaði almennt verðlag um 25%. Á sama tíma hækkaði afnotagjald Ríkisútvarpsins aðeins um 7%. Í fjárlögum 1993 er gert ráð fyrir 4% hækkun afnotagjalds. Sú hækkun nemur 67 kr. á mánuði frá hverjum gjaldanda. Brýnt er að breyting þessi verði staðfest hið fyrsta. Útvarpsráð beinir þeim einróma tilmælum til þingflokka Alþingis að þeir leggi málinu lið.``
    Ég spyr hæstv. forsrh., sem er reyndar ekki í sæti sínu þessa stundina, hvað standi til að gera í þessum efnum. Þessi heimild hefur áður verið á fjárlögum en Ríkisútvarpinu verið neitað um að hækka afnotagjöldin sem tengist auðvitað vísitöluvitleysunni sem við búum við. En öllum má ljóst vera hversu nauðsynlegt er að Ríkisútvarpið geti sinnt sínu hlutverki og það vel.
    Ég get ekki stillt mig um að nefna hér enn einu sinni Menningarsjóð þó að menntmrh. sé að sjálfsögðu víðs fjarri. Því máli háttar þannig að það er búið að leggja fram frv. á Alþingi til breytinga á lögum um Menningarsjóð en það breytir ekki því að þar hefur verið staðið að málum með endemum og verið vaðið áfram í trássi við öll lög, en það gefst tækifæri til að ræða það mál síðar við menntmrh. En ég hygg að framgangur þess máls sé með eindæmum í íslensku stjórnkerfi.
    Þá vil ég koma aðeins að Ferðamálasjóði sem enn stendur til að skerða verulega, eða um 111 millj. kr. Það bætist ofan á hækkun virðisaukaskatts og þá erfiðleika sem verið er að setja ferðamannaiðnaðinn í. Við hljótum að spyrja hvar þessi ósköp enda. Það hefur margoft verið bent á það í umræðunni að ferðaþjónustan hefur verið einn helsti vaxtarbroddur í atvinnulífinu en nú vegur ríkisstjórnin að þessari atvinnugrein þannig að útlit er fyrir að störfum muni fækka. Þar við bætist að hinum opinberu aðilum sem ætlað er að styðja við ferðaþjónustu og skipuleggja kynningu og áróður varðandi ferðamál er gert erfiðara fyrir og þeirra framlag skorið niður um 111 millj. kr., hvorki meira né minna. Þeir fá 68 millj. í sinn hlut en hefðu átt að fá 179 millj. Þetta er gríðarlegur niðurskurður.
    Það mætti fara mörgum orðum um það hvernig landbúnaðurinn er skertur eins og reyndar í fjárlögunum. Margt af því er gamalkunnugt frá því í fyrra en það er erfitt upp á að horfa þegar greinum er mismunað í stað þess að menn skoði málið í heild og fari rækilega ofan í skipulag landbúnaðarins. Ég held að við stöndum frammi fyrir því að það sé orðið óhjákvæmilegt að fara að skoða ofan í kjölinn skipulag landbúnaðarins hér á landi. Það er mín niðurstaða eftir að hafa setið í landbn., og reyndar niðurstaða sem ég var komin að áður, að landbúnaðurinn er alveg ótrúlega njörvaður niður í fjölda fjölda lagabálka sem ég vil meina að standi honum fyrir þrifum í þróun.
    Það mætti nefna miklu fleiri atriði en ég get ekki látið hjá líða að nefna enn einu sinni atriði sem mér er mjög hugleikið og stendur hjarta nær. Það er Húsafriðunarsjóðurinn sem skorinn er niður um 24,5 millj., hefði átt að fá 30 millj. en fær 12 millj. Ég hlýt að vekja athygli á þessu enn einu sinni þó mönnum finnist þetta ekki vera eitt af stærstu málum okkar tíma þegar miklir erfiðleikar blasa við í þjóðfélaginu, samdráttur og atvinnuleysi, en það er nú svo að með auknum framlögum til húsafriðunar má skapa vinnu. En það sem mér er efst í huga er að menn láti ekki samdráttartíma eins og þessa verða til þess að menningarverðmæti glatist eða eyðileggist. Ég get minnt á það enn einu sinni að m.a. torfbæirnir þurfa mikið viðhald. Þeir eru dæmi um staði sem draga til sín ferðamenn og skapa tekjur og eru náttúrlega séríslenskt fyrirbæri sem ekki finnst með sama hætti neins staðar annars staðar og því er mjög mikilvægt að halda þeim við. Ég vil líka benda á að þeim fækkar óðum sem kunna þá list að gera við torfbæina og þar af leiðandi er mjög brýnt að fá peninga til þess að halda bæjunum við og til þess að þeir örfáu menn sem kunna þetta nái að kenna það öðrum. Fáist ekki peningar til viðgerða fer heldur engin kennsla fram. Ég harma það alveg sérstaklega hvernig að þessu er staðið.
    Það var reynt með lögum að koma fótunum undir húsafriðun á sínum tíma en síðan hefur það gerst ár eftir ár að þetta framlag er skorið verulega niður. Ég beini þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnarinnar að hér verði stefnubreyting, ekki síst vegna þess að þarna má skapa vinnu yfir sumartímann og það vinnu sem mjög nauðsynlegt er að flytjist frá kynslóð til kynslóðar.
    Ég nefndi í upphafi að það sem gerðist í kjölfar þess að ríkisstjórnarflokkarnir samþykktu ný skattalög fyrir áramót hefur vakið upp ýmsar spurningar og vakið athygli okkar á þeim vísitölutengingum sem hér hafa verið búnar til og áttu fyrst og fremst að vera mælikvarðar til þess að fylgjast með breytingum í efnahagsmálum en eru nú orðnar að sjálfvirku kerfi sem veldur sjálfvirkum hækkunum. Ég verð að segja að það nær ekki nokkurri átt að ekki skuli vera hægt að gera einhverjar breytingar. Þó ég sé ekki að mæla með þessum breytingum sem ríkisstjórnin var að gera þá verður það að segjast prinsippíelt að það er alveg út í hött að ekki skuli vera hægt að gera breytingar án þess það hafi í för með sér gífurlegar keðjuverkanir. Ég heyrði það í fréttum að forsrh. ætlaði að láta skoða þessi mál og ég vil spyrja hann um skoðun hans á þessu vísitölukerfi og hvaða breytingar sé hugsanlegt að gera á því.
    Virðulegi forseti. Þó hér sé um afar stórt mál að ræða og væri hægt að fara mörgum orðum um margar þær breytingar sem hér eru á ferð ætla ég að fara að ljúka máli mínu. Ég vil vekja athygli á því að meiri hluti efh.- og viðskn. varð við þeim tilmælum að setja hin svokölluðu ,,þrátt-fyrir-ákvæði`` upp á þann hátt sem við í minni hlutanum vorum sammála um að væri miklu skýrari og eðlilegri. Eins og þessar tillögur komu fram í upphaflegu frv. var ekki nokkur leið að átta sig á því hvað var þar á ferð heldur var einfaldlega um að ræða gríðarlanga upptalningu og kom ekki einu sinni fram hvaða tölum var verið að breyta. Þessu er kippt nokkuð í liðinn í brtt. og ég fagna því.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég ítreka þá skoðun mína, þó það komi ekki beint lánsfjárlögunum við, að ríkisstjórnin hafi farið fram með miklu offorsi í tillögum sínum og aðgerðum í ríkisfjármálunum. Það blasir við okkur að offorsið var svo mikið að menn vissu ekki hvað þeir voru að gera. Það hafa verið teknar ákvarðanir um miklar skattahækkanir á almenning í landinu. Þar á móti koma nokkrar skattalækkanir til fyrirtækjanna en þar er sá galli á gjöf Njarðar að einstakar atvinnugreinar, og þá hugsa ég einkum um ferðaþjónustuna, verði illa úti. Það verður ekki annað séð en þessar aðgerðir muni valda miklum óróa í samfélaginu. Við fengum margvísleg mótmæli til okkar í efh.- og viðskn. fyrir áramót og hefur nokkuð borið á þeim síðan. Það er nú einu sinni svo að í jólamánuðinum getur verið erfitt að fylgjast með því sem verið er að gera á þingi ef fólk hefur mikið að gera en flestum varð líklega ljóst þegar þeir fengu launaseðlana sína upp úr áramótunum hvað þar var á ferð en mjög margt af því sem var samþykkt á eftir að koma fram.
    Við lok máls míns vek ég athygli á því að ég hef miklar efasemdir varðandi þær tekjuöflunarleiðir sem ríkisstjórnin ætlar að byggja á. Ég tel að með sínum aðgerðum sé hún að auka samdráttinn og að ekki sé sýnt að aðgerðir hennar, sem áttu að hafa m.a. þau markmið að efla atvinnu, skili sér í aukinni vinnu. Því er mín lokaniðurstaða sú, virðulegi forseti, að því fyrr sem þessi ríkisstjórn fer frá völdum þeim mun betra, því hér þarf nýja stefnu og ný vinnubrögð til þess að takast megi að snúa vörn í sókn.