Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 14:43:48 (4786)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að ég var ekki að gagnrýna vinnubrögð í efh.- og viðskn. í mínu máli heldur finnst mér fyrst og fremst að sökin liggi hjá ríkisstjórninni og því hve seint tillögur koma fram. Það gildir ekki síst um skattamálin. Þar var allt of lítill tími til þess að skoða það viðamikla mál. Að mínum dómi hefur verið afar vel unnið í efh.- og viðskn. hvort sem þar er um að ræða hin svokölluðu fylgifrv. EES eða fjármáladæmið og menn þar tilbúnir til þess að leggja á sig hina ótrúlegustu vinnu og fjölda funda jafnt kvöld sem morgna. Ég var því ekki að kvarta yfir því en ábyrgðin er fyrst og fremst ríkisstjórnarinnar sem veður áfram. Ég þykist vita að þótt nefndarmenn í efh.- og viðskn. séu ekki alltaf ánægðir með allt sem frá ríkisstjórninni kemur, þá vinna menn auðvitað þær tillögur og þau frumvörp sem þangað koma.
    Ég ætla aðeins að bæta við, virðulegi forseti, af því að ég var að reyna að stytta mál mitt áðan og sleppti því að fjalla um járnblendiverksmiðjuna, og lýsa því hér að mér

finnst afar erfitt að taka afstöðu til þess máls þar sem allar upplýsingar vantar. En við hljótum að verða að velta mjög alvarlega fyrir okkur framtíð þess fyrirtækis og vara okkur á því að þar sé ekki verið að leggja út í nýtt --- hvað á ég að segja, Kröfluævintýri eða Álafossdæmi. Menn verða að meta stöðu þess fyrirtækis af mikilli alvöru, en okkur vantar hreinlega nauðsynlegar upplýsingar til þess að geta það.