Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 14:45:51 (4787)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Mér er ljóst að hæstv. forsrh. mun fljótlega þurfa að hverfa á ríkisráðsfund og efa ég að ég ljúki máli mínu, þótt ekki verði langt, á þeim tíma sem ég hef en það hefur að sjálfsögðu sinn gang.
    Lánsfjárlög og fjárlög eru þau tvenn lög á Alþingi sem eru eins konar samnefnari fyrir efnahagsaðgerðir þeirrar ríkisstjórnar sem situr. Hér hefur verið farið ítarlega yfir lánsfjárlögin og einstök atriði þeirra af þeim mönnum sem í efh.- og viðskn. sitja og ætla ég ekki að endurtaka það nema að mjög litlu leyti en fara nokkrum almennum orðum um lánsfjárlög og sérstaklega um efnahagsástandið í landinu.
    Mér þótti afar athyglisvert í gær, og ég hygg að fleirum hafi farið svo, hve margir stjórnarsinnar gerðu grein fyrir sínu atkvæði í sambandi við EES og nánast allir á þann veg að þeir teldu að með samningi um hið Evrópska efnahagssvæði væri íslensku atvinnulífi veitt sóknarfæri. Það kom afar greinilega fram í öllum þessum greinargerðum fyrir atkvæðum að þar sjá menn eina vonarneistann í því erfiða efnahagsástandi sem hér er nú. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja að við ættum að ganga í sjálft Evrópubandalagið þótt ekki kæmi það fram í greinargerðum fyrir atkvæðum.
    Þetta er dapurlegt. Það er dapurlegt að stjórnarflokkarnir skuli nú treysta á erlenda aðila til þess að reisa við íslenskt atvinnulíf. Ég hlýt að endurtaka það enn einu sinni, sem ég hef oft sagt hér, að þessi sóknarfæri munu reynast heldur haldlítil ef íslenskt atvinnulíf er í molum. Staðreyndin er vitanlega sú að hver aðili sem ætlar að nota sóknarfæri, sem ætlar að fara úr vörn í sókn verður að vera vel undir það búinn og fær um að takast á við þau mörgu viðfangsefni sem hljóta að verða í slíku alþjóðlegu samstarfi. Það hefur vitanlega komið fram hér afar greinilega að svo er íslenskt atvinnulíf ekki og reyndar hafa varnaðarorð frá mætum mönnum í atvinnulífinu heyrst einmitt í sömu átt og ég hef nú mælt svo. Spurningin er vitanlega sú þegar rætt er almennt um efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar hvað hæstv. ríkisstjórn hefur gert til þess að gera íslensku atvinnulífi kleift að takast á við þessi vandamál og snúa vörn í sókn eða nýta með öðrum orðum þessi sóknarfæri sem hv. stjórnarsinnar telja að nú sé verið að bjóða íslensku atvinnulífi upp á.
    Þessi ríkisstjórn hóf sinn feril með því að lýsa því yfir að afskipti af atvinnulífinu, samstarf með atvinnulífinu eða aðgerðir til þess að styrkja atvinnulíf, væru ekki á hennar dagskrá. Hún var kölluð ýmsum nöfnum í því sambandi sem lýsti því að hún hygðist engin afskipti þar af hafa. Hæstv. forsrh. nefndi afar lítilfjörleg afskipti af atvinnuleysinu stílbrot í sinni stefnuræðu sl. haust. Ríkisstjórnin var hins vegar neydd til þess þegar atvinnuleysi fór vaxandi og kröfur um opinberar aðgerðir og samstarf stjórnvalda við aðila atvinnulífsins urðu háværar að setja á fót atvinnumálanefnd. Sú nefnd starfaði að vísu hægt en starfaði þó eitthvað. En aðgerðir þær sem ríkisstjórnin greip til að lokum og lýst var á Alþingi 23. nóv. voru í engum takt við það sem þó hafði verið unnið í þessari atvinnumálanefnd. eins og margsinnis hefur komið fram.
    Í raun hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar eins og þær hafa lýst sér í fjárlögum og lánsfjárlögum einkennst af stórhækkun skatta og reyndar gert það bæði þau ár sem ríkisstjórnin hefur setið. Gleggst fannst mér þetta koma fram í yfirliti sem kom fram á Stöð 2 og hefur reyndar ekki að því er ég hef séð verið vefengt svo að hald sé í. Það hefur verið klórað í bakkann má segja en ekki verið vefengt svo að hald sé í, enda gekk Stöð 2 ærið langt í því að ætla ekki þessari ríkisstjórn sumar þær hækkanir sem fram hafa komið heldur telja þær til aðgerða fyrri ríkisstjórnar en læt ég það algerlega liggja á milli hluta. Engu að síður kom fram að skattahækkanir þessarar ríkisstjórnar, umfram þær lækkanir sem hafa orðið, eru um 6 milljarðar kr. á ári hverju, þ.e. 6 milljarða kr. hærri skattar eru greiddir

af atvinnulífi og einstaklingum, og alveg sérstaklega einstaklingum, á ári en voru fyrir tíð þessarar ríkisstjórnar og munar satt að segja um minna.
    Ég hygg að það sé rétt sem mjög greinilega hefur komið fram að engin ríkisstjórn hefur gengið svo langt í að hækka skatta. Nú vil ég út af fyrir sig taka undir það að það er nauðsynlegt að draga úr ríkissjóðshallanum og ber að leggja mikla áherslu á það. En ég vek athygli á því sem hagfræðingar sem einna mests álits njóta nú --- eru taldir af nýrri skóla og hafa snúið baki við frjálshyggjunni, sérstaklega hópur hagfræðinga í Bandaríkjunum, sem oft hefur verið nefndir hér og ég ætla ekki að endurtaka --- hafa bent á með mjög sterkum rökum að til þess að unnt sé að ná jafnvægi í ríkisfjármálum verði hjól atvinnulífsins að snúast vel. Þetta kemur afar greinilega fram hjá nýjum forseta Bandaríkjanna sem hefur með skipun slíkra manna í lykilstöður undirstrikað og reyndar einnig í stefnu sinni vilja sinn og sinnar ríkisstjórnar til þess að taka á þessum málum með atvinnulífinu. T.d. kemur það greinilega fram í einu sem Clinton lagði hvað mesta áherslu á og mjög miklar fjárveitingar til, þ.e. samgangna, má kalla það, eða tengsla upplýsinganeta um öll Bandaríkin sem er undirstaða allra framfara. Það kom líka greinilega fram í mjög mikilli áherslu á auknar rannsóknir, aukna menntun og yfirleitt flestöll undirstöðuatriði nútímaþróunar. Og það kemur fram í því að þegar eru hafnir fundir og viðræður á milli manna forsetans, forsetans sjálfs og fulltrúa atvinnulífsins.
    Ég sá, virðulegi forseti, að hæstv. forsrh. vék af fundi og það skil ég mætavel, en ég óska ekki að flytja ræðu mína að honum fjarverandi. ( Forseti: Forseti ætlaði einmitt að bjóða hv. þm. að fresta sinni ræðu.) Það er þegið.