Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 16:29:52 (4792)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Herra forseti. Ég vil í upphafi máls þakka mönnum fyrir áhugaverðar og góðar umræður sem tengjast afgreiðslu lánsfjárlaganna. Það hafa allmargar athugasemdir komið fram, bæði sértækar og almennar eins og eðlilegt er við umræðu af þessu tagi. Allmörgum fyrirspurnum hefur þegar verið svarað af hv. 5. þm. Norðurl. v., formanni efh.- og viðskn., og eins reyndar af hæstv. félmrh. Menn hafa fjallað nokkuð um vinnubrögð sem tíðkuð voru á síðustu dögum þingsins fyrir jól og sumir hv. þm. hafa haft á því orð að þau vinnubrögð hefðu verið lakari og ómarkvissari heldur en ætíð endranær, eða a.m.k. oftast endranær. Ég hef ekki mikla þingreynslu eins og hefur stundum verkið vakin athygli á úr þessum ræðustól, en mér segja þingreyndir menn að það sé ekkert óvenjulegt að einmitt á þeim dögum þá vinni menn hratt og fljótt og hlutir reynast breytast iðulega hratt og fljótt. Við slíkar aðstæður getur það auðvitað gerst að ekki fari allt á hinn besta veg því við erum öll mannleg og hljótum að gera mistök þegar slík verk eru unnin. Ég vek athygli á því líka að á síðustu dögum haustsins þá blönduðust inn í ákvarðanir sem ríkisstjórn lagði fyrir þingið, almennar efnahagsráðstafanir og breytingar sem gera varð vegna þróunar sem orðið hafði á myntmörkuðum veraldarinnar. Þeir hv. þm. sem talað hafa hafa fagnað þeirri breytingu sem efh.- og viðskn. gerði varðandi virðisauka af vinnu á byggingarstað. Auðvitað er það svo að það er pólitískur veruleiki að jafnan þegar skorað er á ríkisstjórn á hverjum tíma að taka eitthvað til baka af verkum sínum, þá er það jafnan sagt sem svo að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir væru bara meiri menn ef þeir tækju þetta aftur. Síðan er það oft svo þegar ríkisstjórn í einhverjum tilvikum gerir slíka hluti að þá er það frekar tekið sem tákn um það að ríkisstjórnin sé komin á harða flótta og sé farin að viðurkenna mistök sín og gera megi ráð fyrir því og leggja út af því að væntanlega séu mistökin meiri og önnur, þetta sé til vitnis um það. En engu að síður vil ég þakka fyrir að menn taka þessari breytingu vel og greiða fyrir því að hún gangi í gegn með þessum hætti sem ég get viðurkennt að sé kannski nokkuð óvenjulegur.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. kynnti bréf frá lífeyrissjóðum sem lagt hefur verið fyrir nefndin og ég þarf út af fyrir sig ekki að fjalla mjög um það hér vegna þess að hv. 5. þm. Norðurl. v. og hæstv. félmrh. fjölluðu töluvert um það efni í sínum ræðum og færðu rök fyrir því að ekki væri endilega ástæða til að hafa jafnmiklar áhyggjur af því máli eins og kemur fram í bréfi forráðamanna lífeyrissjóðanna.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. og reyndar hv. 1. þm. Austurl. viku að máli sem hér hefur áður verið rætt nokkuð í þinginu varðandi hugmyndir um það sem sagt hefur verið frá um að bæta mönnum þorskbrest hlutfallslega, svo hann yrði jafn að ákveðnu marki og sem hv. þm. höfðu gengið eftir að fá svör um hvenær yrði gert. Það þarf ekki að segja það hér að það mál dróst nokkuð á langinn og það var ágreiningur um það, til að mynda við þær stofnanir sem í hlut áttu, með hvaða hætti það skyldi best gerast allt fram til þess að síðan var nauðsynlegt af þeim ástæðum sem ég nefndi fyrr í ræðu minni að fara í almennar efnahagsaðgerðir. Sú nefnd, sem skipuð var af hálfu fjmrh., sjútvrh. og viðskrh. og í sátu þeir Björgvin Vilmundarson, Magnús Pétursson og Þorkell Helgason, skilaði 5. þessa mánaðar greinargerð til þeirra ráðherra sem hana höfðu skipað. Hugmyndir þeirra voru kynntar þar og með hvaða hætti eðlilegast væri að fara með það mál sérstaklega sem þarna höfðu verið gerðar tillögur um, ráðstöfun á 450 millj. kr. vegna þorskbrestsins. Ég hygg að það sé einfaldast að ég lesi, með leyfi forseta, greinargerð þessara þriggja aðila sem er svolátandi:
    ,,Á fundi ríkisstjórnarinnar 18. sept. sl. var samþykkt að fela nefnd, sem ráðherrar fjármála, sjávarútvegs og viðskipta skipa, að gera tillögur um ráðstöfun á 450 millj. kr. til almennra aðgerða til að draga úr áhrifum aflaskerðingar vegna þorskbrests. Verkefni nefndarinnar er að benda á með hvaða hætti og við hvaða aðstæður umræddum fjármunum verður haganlegast beint til sjávarútvegsins. Með þessari greinargerð gerir nefndin grein fyrir starfi sínu og breyttum aðstæðum í sjávarútvegi frá því að hún var sett á laggirnar.
    Nefndin aflaði upplýsinga um fjárhagsstöðu Fiskveiðasjóðs Íslands og atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar enda var þessum sjóðum ætlað að reiða fram 150 millj. kr. hvorum um sig gegn 150 millj. kr. framlag úr ríkissjóði. Alls skyldi því verða til ráðstöfunar til sjávarútvegsfyrirtækja um 450 millj. kr.
    Lausafjárstaða atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar reyndist ívið betri á síðasta ári en áætlað hafði verið vegna betri innheimtu af veittum lánum en reiknað var með. Þess ber þó að geta að ríkissjóður veitti sjóðnum verulega lánsfjárfyrirgreiðslu.
    Í stjórn Fiskveiðasjóðs var óformlega borin upp tillaga um þátttöku sjóðsins í verkefninu. Afstaða stjórnarinnar var sú að lagaleg heimild sjóðsins til þátttöku í verkefni af þessu tagi sé veik og að fjárhagsstaða sjóðsins 1992 leyfist tæpast þátttöku. Þá hefur sjóðurinn á síðustu árum skuldbreytt verulegum fjárhæðum og skuldbreyting að fyrirmælum stjórnvalda er talin brjóta í bága við viðskiptaleg sjónarmið sjóðsins gagnvart erlendum lánardrottnum.
    Á síðustu mánuðum nýliðins árs breyttust aðstæður í sjávarútvegsmálum í veigamiklum atriðum og varð til þess að rekstrarstaða sjávarútvegsins kom til skoðunar. Í þessu tilliti skal eftirfarandi nefnt:
    Í fyrsta lagi veiktu gengisbreytingar í Evrópu samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs sem og annarra útflutningsgreina og leiddu til þess að gengi íslensku krónunnar var fellt um 6% sem hluti af almennum efnahagsaðgerðum.
    Í öðru lagi beittu stjórnvöld sér fyrir skattbreytingum til áhrifa m.a. á afkomuhorfur sjávarútvegsins í bráð og lengd. Jafnframt voru kynnt áform um stofnun þróunarsjóðs sjávarútvegsins en hann mun hafa til ráðstöfunar fjármuni og eignir annarra sjóða, einkum atvinnutryggingardeild og Hlutafjársjóður Byggðastofnunar.
    Í þriðja lagi hefur sala á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins farið hægar af stað en ætlað var. Til þessa hefur einungis 1 / 3 af kvótaheimild sjóðsins selst, sbr. útboð 1. des. sl. Auk þess reyndist tilboðsverð nokkru lægra en reiknað hafði verið með.
    Í fjórða lagi hefur verið á það bent að inneign sjávarútvegsins í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins nemur nú um 250 millj. kr. og lætur nærri að þar af séu 240 millj. kr. ekki eignfærðar tilteknum aðila/aðilum.
    Í ljósi þess sem að framan er rakið telja undirritaðir að fjárfyrirgreiðsla við sjávarútveginn vegna aflabrestsins komi að meiri og betri notum verði litið á það mál sem hluta af heildaraðgerðum til þess að styrkja samkeppnisstöðu útvegsins.
    Um leið og nefndin skilar áliti sínu lýsir hún sig reiðubúna til þess að taka þátt í mótun reglna um þróunarsjóð sjávarútvegsins, verði af stofnun hans, þannig að sjónarmiðum ríkisstjórnarinnar, með samþykkt sinni 18. sept. sl., verði best til haga haldið.``
    Hæstv. sjútvrh. svaraði spurningum varðandi þróunarsjóð sjávarútvegsins og hvar það mál væri á vegi statt, sérstaklega spurningum hv. 1. þm. Austurl., og ég ætla út af fyrir sig ekki að bæta neinu við það efni, en eins og kemur hér fram í lok greinargerðarinnar þá má gera ráð fyrir því að þessi þáttur verði sameinaður þeirri umræðu sem um þann sjóð mun fara og það mál mun koma síðan til kasta þingsins eins og hæstv. sjútvrh. gerði grein fyrir fyrr í dag.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. ræddi jafnframt í máli sínu um Landsvirkjun, sem hann reyndar sagði að væri ríkiseign, sem er jú rétt að hluta til, og taldi nauðsynlegt að fara

ofan í saumana á því fyrirtæki. Ég er ekki þingmanninum sammála um að það sé út af fyrir sig nauðsynlegt. Ekki vegna þess að það sé ekki hárrétt hjá hv. þm. að hér er um gríðarmikið fyrirtæki að ræða sem er í frumskuld við útlönd, ætli það sé ekki um fimmtungur af erlendum skuldum þjóðarinnar, en ég hygg að það fyrirtæki sé nokkuð opin bók og fulltrúar ríkisvaldsins hafa aðgang að fyrirtækinu. Bæði hefur hæstv. iðnrh. sérstakan trúnaðarmann á fundum stjórnarinnar og þingið sjálft á síðan kjörna fulltrúa sem sitja í stjórn fyrirtækisins. Fyrirtækið kynnir síðan sína stöðu samkvæmt lögum um fyrirtækið á sérstökum ársfundum þar sem fjöldi manna í lykilstöðum af landinu öllu kemur saman og ég hygg að þar sé gerð mjög góð grein fyrir stöðu fyrirtækisins, rekstrarafkomu þess, afkomuhorfum, skuldastöðu, lánafyrirgreiðslum, verkefnum sem þá standa yfir, brýnum verkefnum í náinni framtíð o.s.frv. þannig að ég hygg að það þurfi ekki, eins og hv. þm. kaus að orða það, að fara sérstaklega ofan í saumana á þessu fyrirtæki. Ég tel það ekki vera. Ég tel að fyrirtækið sé vel rekið, því vel stjórnað og eigendur þess, ríkisvaldið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, hafi góða og trygga stöðu til að fylgjast mjög náið með rekstri þessa fyrirtækis.
    Það er ekki vafi á því að rekstur fyrirtækisins verður erfiðari en menn höfðu gert ráð fyrir hér fyrir ekki mörgum árum síðan vegna þess að fyrirtækið hefur ekki fengið kaupanda að þeirri orku sem til staðar er eftir að Blanda var fullgerð þannig að annað tveggja gerist eða hvort tveggja í senn að kostnaður vegna Blönduvirkjunar meðan svo er verður annaðhvort borinn uppi með lánum ellegar að hluta til er honum velt til stundar yfir á almenna neytendur í landinu sem ekki stóð til auðvitað þegar til Blönduvirkjunar var stofnað. Ég held að í sjálfu sér sé ekki ástæða til þess að reyna að finna einhverja sökudólga í þeim efnum að við eigum þarna orkuver en ekki kaupendur að þeirri orku. Við höfum nú séð að það er erfitt að spá fyrir um þróun í þessum efnum. Lærðustu menn og fróðustu hafa gert það iðulega. Spár um orkumarkað hafa reynst mjög blendnar, ekki ætíð betur en spár hagfræðinga eða fiskifræðinga og má færa fyrir því mörg dæmi. Auk þess sem þær hafa verið skakkar hvað almenningsnotkun varðar. Þá þekkjum við líka mjög vel að horfur varðandi stóriðju hafa líka verið orðnar aðrar heldur en menn spáðu og það var eitt af þeim efnum sem reyndar hv. þm. fjölluðu um, m.a. hv. 1. þm. Austurl. Hann fjallaði nokkuð, og reyndar fleiri hv. þm., um þann þátt í brtt. vegna lánsfjárlaga sem snúa að Íslenska járnblendifélaginu og þeim erfiðleikum sem það fyrirtæki er í. Ég hef óskað eftir því að iðnrn. beiti sér fyrir því hið fyrsta að efh.- og viðskn. fái fyllri upplýsingar heldur en hún hefur fengið og vona ég að það verði gert og í framhaldi af því finnst mér einnig eðlilegt að þegar kemur að notkun þeirra heimilda og ábyrgðar sem þarna er um að ræða, þá verði haft, ef ekki hafa komið fram fullnægjandi upplýsingar nú á þessum dögum til efh.- og viðskn., náið samstarf við þá nefnd um framkvæmd málsins. Ég tel eðlilegt eins og hv. 1. þm. Austurl. að það sé farið mjög nákvæmlega ofan í það mál. Að vísu verður það nú svo að þrátt fyrir að reikningar og áætlanir liggi fyrir, þá munu menn neyðast til þess að taka í ákvörðunum sínum heilmikla áhættu vegna þess að stór hluti af þeim þætti sem til staðar þarf að vera verður byggður á spám á verðlagi á vörum verksmiðjunnar. Og reynslan sýnir því miður að það er mjög erfitt að spá um þessa hluti. Reyndar er það svo og er óþarfi að leyna því að allmargir sérfróðir aðilar hafa miklar áhyggjur af því að það sé ekki öruggt og fjarri því að gera ráð fyrir því að þarna verði horfur og aðstæður þessa fyrirtækis orðnar miklu betri eftir tvö ár þegar neyðarráðstöfunum linnir samkvæmt þeim hugmyndum sem í gangi eru, þá verði menn komnir fyrir vind. Þannig að þó að ég sé ekki að draga úr því sem hv. þm. sagði, að nauðsynlegt væri að hafa gögn við hendina, þá munu menn á endanum verða að taka þarna allmikla áhættu. Hjá því verður ekki komist, reyndar á hvorn veginn sem menn kjósa að fara með sínar niðurstöður eða hvað þeir vilja gera.
    Nokkrir hv. þm. ræddu sérstaklega í framhaldi af því að ríkisstjórnin hefur tekið sig á í einu afmörkuðu máli, eins og það hefur verið orðað. Þegar þeir voru að tala um það að fleiri mál mættu gjarnan fylgja með í þessum afturbata, þá var hjá allmörgum hv. þm. sérstaklega rætt um virðisaukaskatt, skattlagningu á ferðaþjónustu og þá stöðu sem þar með

hafði skapast gagnvart þeirri mikilvægu atvinnugrein. Ég hlýt að vekja athygli á því að samkvæmt því áliti sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson vitnaði til að Þjóðhagsstofnun hefði sent efh.- og viðskn., þá er skattaaukning út af þessum hækkunum þegar frádrátturinn er kominn til aðeins 48 millj. kr. Þó að virðisaukaskattur sé lagður á upp á 600 millj. kr., þá hafa menn ekki tekið tillit til þeirrar batnandi stöðu sem gengisbreytingin hefur a.m.k. á suma þætti þessara mikilvægu greina. Ég er ekki að draga úr því að innan þessara greina kemur þetta misjafnlega niður. Sumir fara mun betur út úr þessum breytingum heldur en aðrir þættir innan greinarinnar, en ef við tölum um heildaráhrifin, þá er það þó svo að þegar tekið er tillit til raungengisbreytingarinnar, þá ætti þessi atvinnugrein að standa betur eftir en áður og menn hafa náð fram þeirri samræmingu sem menn voru með þessari ákvörðun að leita eftir.
    Í þessu sambandi varðandi þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur lagt til að væru gerðar, þá hefur verið sagt að ríkisstjórnin tæki ekki mið af, frekar en kannski sumar aðrar ríkisstjórnir og jafnvel verr heldur en aðrar ríkisstjórnir, gagnrýni og athugasemdum sem fram koma í málsmeðferð þingsins. Ég held reyndar, og vitna þá til brtt. efh.- og viðskn. hér á síðustu dögum þingsins, að sú nefnd hafi haft mjög mikil áhrif, og þá bæði meiri hluti og minni hluti, á gang mála. Þó að ríkisstjórnin hafi haldið sér við, eins og venja stendur mjög til, sínar megintillögur, þá hefur þessi nefnd unnið sérstaklega vel og nál. og brtt. báru þess merki að nefndin hefði unnið afskaplega vel að málum fyrir jólin og það varð samstaða um allmargar breytingar. Þó að ríkisstjórnin út af fyrir sig og stjórnarmeirihlutinn endanlega bæri ábyrgð á niðurstöðunni, þá tel ég að nefndastarfið og ekki síst í þessari nefnd hafi töluverðan árangur borið þó ég sé ekki að kenna stjórnarandstæðingum um neitt í því sambandi sem menn telja að miður hafi farið með endanlega niðurstöðu. Ég tel þess vegna að það sé of mikið gert úr því þó að margir hafi meiri reynslu en ég í nefndastörfum, það sé of mikið gert úr því að allt starf í þinginu sé einleikur ríkisstjórnarflokka. Það hefur sýnt sig einmitt í þessari nefnd og auðvitað fleirum að þar fer fram mjög mikilvægt starf og menn hafa þar heilmikil áhrif, þvert á það hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu á hverjum tíma, og auðvitað er það mjög svo æskilegt.
    Hv. 18. þm. Reykv. fjallaði nokkuð um vaxtahækkanir að undanförnu og vildi bera blak af bönkum af einhverjum ástæðum, taldi rétt að gera það og það væri fremur um það að ræða að ríkisstjórn væri um að kenna heldur en bönkunum. Hv. þm. sagði að ríkisstjórninni hefði ekki tekist að draga úr eftirspurn eftir lánsfé og þess vegna væru vextir svona háir. Ég held að þetta sé hárrétt hjá þingmanninum og mér þykir vænt um það að þessi þingmaður skuli vera þessarar skoðunar því að mér hefur fundist að í málatilbúnaði hv. þm. og reyndar samflokkskvenna hennar í þinginu hafi nú ekki verið mikill skilningur á þessu samhengi hlutanna. Og skilning á þessu samhengi hlutanna hafi líka skort reyndar hjá sumum öðrum hv. þm. sem nokkuð fjalla um vexti og vaxtahækkanir. En vegna þessa vil ég taka fram fyrir mitt leyti að mér þóttu bankarnir, þegar þeir gengu til vaxtahækkana, ganga nokkuð langt í því að skýla sér alfarið á bak við ríkisstjórnina, þó að það sé út af fyrir sig gott að geta skýlt sér á bak við hana. Þegar menn skoða þróunina af því að menn vísuðu í skammtímaspár um verðbólgu, þegar menn skoða þróunina annars vegar á innlánsvöxtum og útlánsvöxtum, þá sjá menn glöggt að bankarnir voru að auka vaxtamun. Ég er ekki að segja að það hafi ekki verið nauðsynlegt í ýmsum tilvikum í ýmsum bönkum --- hér ganga nú sérfróðir menn um vexti fram hjá --- að auka vaxtamuninn, þá á bara að kalla það því nafni og segja að það sé nauðsynlegt vegna þess að bankarnir þurfi að hafa borð vegna ákvarðana sem teknar hafa verið hér á árum áður og bankarnir þurfi að leggja gríðarlega háar fjárhæðir, og hafi þurft á undanförnum fáum árum, í afskriftasjóði sína. Ef bankarnir þurfa að auka vaxtamun, sem ég efast ekkert um að þeir hafi þurft, því miður, þá eiga þeir að kalla það því nafni en ekki skýla sér alfarið á bak við það að vegna þess að verðbólgan hafi tekið nokkurn kipp, skammtímaverðbólga, þá hafi þeir ástæðu til þess að hækka vexti með þeim hætti sem þeir gerðu. Alla vega er það svo að einhverra hluta vegna virðist verðbólgan hafa meiri áhrif á útlánsvextina heldur en innlánsvextina, af einhverjum ástæðum, og þegar það er skoðað, þá hygg ég að menn sjái að

það sé ekki alveg full sanngirni í því af hálfu bankanna að kenna ríkisstjórninni um alla þessa þætti.
    Hv. 18. þm. Reykv. nefndi líka framtíð Byggðastofnunar í þessu samhengi öllu saman og spurðist fyrir um framtíð hennar. Ég tel að í sjálfu sér sé ekki efni til þess að eyða löngu máli á það. Þar eru engar sérstakar breytingar í vændum og starfsemi þeirrar stofnunar komin mjög í fast form með þeirri reglugerð sem sett var með stoð í lögum sem Alþingi hafði sett. Vegna þess að mér heyrðist það nefnt, þá hefur ekki enn verið lagt fyrir Alþingi og Alþingi ekki tekið efnisafstöðu til þess sem hefur verið vilji ríkisstjórnar og væntanlega kemur þá hér fram í þinginu að Byggðastofnun verði flutt noður til Akureyrar eins og hefur verið nefnt. Ég vek á hinn bóginn athygli á því að Byggðastofnun hefur á undanförnum missirum breytt nokkuð um vægi að því leyti til að starfsmönnum hefur fækkað hér í Reykjavík en verið fjölgað á hinum ýmsu svæðum sem Byggðastofnun hefur útibú á úti á landi. Það tel ég vera mjög mikilvægt og heilmikið innlegg í umræðuna um Byggðastofnun almennt.
    Varðandi það sem hv. 18. þm. Reykv. sagði um vísitölukerfið, þá er það rétt að í tengslum við það að ákveðið var að falla frá þeim þætti virðisaukaskatts sem hefur hér verið umræddur þá var það jafnframt samþykkt í ríkisstjórn að settur skyldi á laggirnar hópur sérfræðinga til þess að endurskoða vísitölugrundvöllinn í heild og ég held að það sé full ástæða til þess og ætti ekki út af fyrir sig að þurfa að verða um það mikill ágreiningur að nauðsynlegt sé að gera það. Út af fyrir sig sé kominn tími til þess að það sé gert vegna þess að við höfum núna um nokkra hríð a.m.k. búið við litla verðbólgu og þykjumst sjá fram á það að svo muni það áfram verða og þá er full ástæða til að taka þessi mál til endurskoðunar. Líka sú aðgerð sem rædd hefur verið um virðisaukaskatt eða lækkun á endurgreiðslu vegna virðisaukaskatts á byggingarstað. Hún sýnir manni í hnotskurn í hvaða ógöngur kerfið er komið. Ef slík tiltölulega lítil breyting, óháð því hvort hún er góð eða vond, getur valdið slíkum efnahagslegum usla þá held ég að það eitt sé út af fyrir sig sjálfsagt tilefni til þess að taka vísitölukerfið allt til gagngerðrar endurskoðunar og ég hygg að það ætti að geta skapast um það bærileg samstaða. Ég skal ekki fjalla um það hér og nú hvaða þættir það væru aðallega sem þar kæmu til álita. Til þess gefst væntanlega betri tími síðar.
    Hv. 7. þm. Reykn. ræddi hér almennt um efnahagsmálin vítt og breitt auk þess sem hann kom inn á nokkrar af þeim fyrirspurnum sem ég hef aðeins vikið að hér fyrr. Ég minnist þess að hv. 7. þm. Reykn. sagði fyrir ekki allt of mörgum vikum síðan þegar verðbólga var mjög lág eða nálægt núllinu að það væri reyndar ekki gott að hafa verðbólguna svo lága, það væri eiginlega hættulegt. Það væri betra að hafa svona dálitla verðbólgu þannig að ég hefði haldið að hv. þm. ætti þá að vera nokkuð bærilega ánægður núna því að þetta er svona eins konar óskaverðbólga hans sem þá væri komin upp núna, svona 2--3% hugsanlega, eftir að þessi afturköllun hefur verið gerð.
    Ég hlustaði með athygli á þá ræðu hv. þm. um að þessi núllverðbólga hafi ekki staðið neitt mjög lengi en hún væri ekki æskileg og menn ættu að reyna að koma sér upp smáverðbólgu aftur ( StH: Og þú hefur farið þá eftir því.) og ég hef bersýnilega farið eftir því og ég veit að ráðherrann fyrrv. mun fagna því. Ég býst nú við að það muni verða þannig, hv. þm., að niðurstaðan á þessu ári verði sú að verðbólga verði nálægt 3%. Hv. þm. nefndi nú ekki nákvæmlega hvar hann vildi vera, a.m.k. ekki þannig að ég muni, að til væri einhver sérstök tala yfir verðbólgu sem æskileg væri, en ég vil benda honum á það að margar þjóðir hafa komist ágætlega af án þess að búa við verðbólgu sem nokkru nemur.
    Hv. þm. ræddi heilmikið um skattamálin og vitnaði þá í yfirlit Stöðvar 2 um þau efni. Ég reyndar sá þessa frétt en hef ekki fengi útskrift eins og hv. þm. af fréttinni, en ég verð að segja það alveg eins og er að mér fannst þessi frétt ekki mjög vel unnin. Bæði vantaði þar í ákveðna hluti. Ég get nefnt dæmi um það, sem ég var að rekja hér áðan, að það var sleppt, þó það sé ekki stór punktur, endurgreiðslum á tryggingagjaldinu sem mínus. Það var tekið sem 1.200 millj. kr. skattahækkun þær álögur sem menn reikna af því

með hvaða hætti persónuafsláttur er reiknaður eftir þeim lögum sem sett voru í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og í fjármálaráðherratíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Þeirri reglu hefur ekki verið breytt og þau lög hafa verið óbreytt. En það var reiknað sem skattahækkun núv. ríkisstjórnar. Jafnframt voru í þessu yfirliti eins og ég man það, ég sá þetta nú bara einu sinni, ýmsir þættir sem mér fannst mjög orka tvímælis um að telja til skattahækkana. Um þetta geta menn deilt vel og lengi, en eins og ég segi, mér fannst þetta yfirleitt ekki mjög vel unnið satt best að segja.
    Hv. 7. þm. Reykn. ræddi eins og hann hefur gert áður um EES-samninginn sem var afgreiddur hér í þinginu fyrir nokkru og gaf til kynna að menn sæju þann samning sem einasta vonarneistann og það þótti þingmanninum, eins og hann orðaði það, dapurlegt. Og hann fjallaði um málið með þeim hætti að EES-samningurinn gæti verið hagstæður af ýmsum ástæðum ef atvinnulíf væri sterkara en það er nú. Og auðvitað bar að skilja dæmið svo að það væri ríkisstjórnarinnar sök að atvinnulífið var ekki eins sterkt og æskilegt væri. Ég held að íslenskt atvinnulíf sé vel í stakk búið í sjálfu sér, þó að erfiðleikar hafi dunið nokkrir yfir, til að taka á móti þeim tækifærum sem EES-samningurinn býður upp á. En ég vil í þessu sambandi líka vekja athygli á að auðvitað var mikilvægast fyrir Ísland að nota vel það góðæri sem var hér fyrir fáeinum árum meðan verð á okkar afurðum var með allra hæsta móti og afli var með allra mesta móti, þá áttu menn auðvitað að nota það góðæri vel til að búa varanlega í haginn fyrir íslenskt atvinnulíf. Það var því miður ekki gert og það er það sem menn súpa seyðið af. ( Gripið fram í: Þorsteinn Pálsson var þá forsætisráðherra.) Ja, ég get bent hv. þm. á það hver hefur verið lengst forsrh. á sl. 10 árum ef þingmaðurinn á erfitt með að reikna. Það var því miður það sem ekki var gert og ég hygg að það ætti þingmaðurinn að hafa í huga þegar hann er sífellt að tala um þessa þætti.
    Hv. þm. rétt einu sinni baðar sig upp úr hrifningunni á Clinton verðandi Bandaríkjaforseta. Ég vona svo sannarlega að sá forseti reynist vel fyrir sína þjóð og reyndar heiminn allan því að Bandaríkjamenn hafa eins og kunnugt er mikil áhrif á veröldina alla og jafnvel meiri áhrif en nokkru sinni fyrr þar sem þeir eru í raun eina stórveldið sem eftir er. Ég tel að það ætti að spyrja að leikslokum samt sem áður í þeim efnum og sjá hvernig þær efnahagshugmyndir sem menn eru nú að halda á lofti og fagna muni reynast þegar til kastanna kemur. Ég verð ekki var við annað en í skrifum manna í erlendum blöðum séu þegar farnar að vakna efasemdir um ýmsar þær hugmyndir sem mest var haldið á lofti og tilvonandi forseti lofaði að koma í framkvæmd sem allra, allra fyrst. En miklar efasemdir voru um að allar þær hugmyndir gangi upp eða geti gengið fram.
    Hv. 7. þm. Reykn. ræddi jafnframt um þær 500 millj. kr. sem hafa verið eyrnamerktar Suðurnesjum og nefndi hvort ekki ætti að koma eitthvað sérstaklega úr ríkissjóði í því sambandi. Ekki var gert ráð fyrir því. Það var gert ráð fyrir því að þessar 300 millj. kæmu frá Íslenskum aðalverktökum og lá fyrir viljayfirlýsing um það þó að það hafi ekki verið afgreitt. Á hinn bóginn mun það þýða að ríkissjóður mun verða af nokkrum tekjum vegna þess að arður frá fyrirtækinu mun þá minnka um einhverjar upphæðir sem ég kann ekki skil á á þessu augnabliki. Þær 200 millj. sem á vantar ef 300 millj. kæmu frá fyrirtækinu var síðan gert ráð fyrir að kæmu frá fyrirtækjum og sveitarfélögum á svæðinu.
    Hv. þm. ræddi einnig heilmikið um hækkun vaxta og vitnaði í viðtal við formann Samtaka fiskvinnslustöðva um að 1% hækkun vaxta tæki til baka helminginn af þeim ávinningi sem sjávarútvegurinn átti að hafa af lækkun aðstöðugjalds og voru það 700 millj. ef ég man rétt sem áttu að koma í hlut sjávarútvegsins af þeirri lækkun. Ég vek athygli á því að hann var þá að fjalla um það sem ég vildi kalla skammtímavaxtahækkun bankanna, byggða á skammtímaspá um verðbólgu sem mun væntanlega breytast vegna þeirra ákvarðana sem hið háa Alþingi tekur í framhaldi af tillögum efh.- og viðskn. en afslátturinn um aðstöðugjaldið er varanlegur og það skiptir meginmáli í þessu sambandi.
    Virðulegi forseti. Ég hygg að ég hafi tæpt á allmörgum þeirra atriða sem hv. þm. hafa nefnt í umræðunni en eins og ég sagði hafði formaður nefndarinnar, hv. 5. þm. Norðurl. v. og hæstv. félmrh., einnig svarað allmörgum fyrirspurnum en ég vil á nýjan leik þakka þeim þingmönnum sem þegar hafa talað fyrir málefnalegar og gagnlegar athugasemdir og umræður varðandi þetta mál.