Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 17:03:14 (4794)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég bað hæstv. forsrh. að gefa okkur upplýsingar um það hvar stæðu loforð hæstv. ríkisstjórnar um að bæta útgerðum, sem urðu fyrir sérstakri skerðingu á veiðiheimildum, upp þann skaða með styrkjum eins og lofað var á sl. hausti. Ég verð að segja að ég er ákaflega litlu nær eftir svör hæstv. forsrh. Nú skýtur hæstv. forsrh. sér á bak við það að þar sem ákveðið hafði verið að stofna hinn mikla sjóð, þróunarsjóð, þá muni það mál ganga inn í þær umræður eða þann undirbúning sem þar sé á ferðinni. Í hinu orðinu er talað um það að almennar aðstæður sjávarútvegsins hafi breyst með gengisfellingu, niðurfellingu aðstöðugjalds o.s.frv. Hæstv. forseti, satt best að segja er þetta ekki svar við beinni spurningu og fyrir alla málsaðila, þar með talið hæstv. ríkisstjórn, væri miklu betra að koma hreint til dyranna í þessu máli og viðurkenna það ef sú er staðreyndin að ríkisstjórnin sé fallin frá því að veita þessa styrki og ætli sér að gleyma yfirlýsingum sínum og loforðum frá sl. hausti. Með því að spinna þennan lopa svona áfram, hæstv. forseti, er áfram verið að halda mönnum í von um það að e.t.v. komi einhvern tíma að því að þeir fái sendar ávísanir og það er illa gert að draga menn þannig á asnaeyrunum. Hæstv. forsrh. væri maður að meiri ef hann gæti komið upp og gefið einfalda yfirlýsingu um það að þetta mál væri úr sögunni, ríkisstjórnin hefði ákveðið að falla frá fyrri yfirlýsingum og loforðum um að veita þeim aðilum sérstakan stuðning sem urðu fyrir mestum samdrætti í veiðiheimildum. Það að vísa yfir í nýjan stórsjóð, þennan nýja Davíðssjóð Íslandssögunnar, er ekki svar í sjálfu sér.
    Varðandi það sem hér var rætt um Landsvirkjun þarf hvorki að lesa meira né minna út úr ummælum mínum í því sambandi. Ég sagðist ósköp einfaldlega telja að aðstæður þess fyrirtækis gerðu það að verkum að ástæða væri til þess fyrir efh.- og viðskn. Alþingis að afla gagna um stöðu fyrirtækisins og fara ofan í saumana á því máli.