Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 17:09:25 (4797)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir hæstv. forsrh. ekki hlusta vel á þær umræður sem fara fram því að ég hef sjálf bent á leiðir til sparnaðar, m.a. í heilbrigðiskerfinu. Það er auðvitað ekki spurning um það hvort menn vilja spara og hagræða heldur hvar og hvernig það er gert.
    Það er alveg ljóst að við þær kringumstæður sem við búum við þarf að spara, en sú stefna sem ríkisstjórnin hefur rekið, að klípa af hér og þar án þess að spyrja um orsakir og afleiðingar, getur ekki leitt nema illt eitt af sér í flestum tilvikum og skilar að mínu dómi ekki árangri til lengri tíma litið. Ég held að menn vilji virkilega ná árangri í því að ná niður ríkisútgjöldum, við hljótum að horfast í augu við það hver skuldastaða þjóðarinnar er. Þetta þarf að að gerast með langtímaskipulagningu, að menn setji sér markmið og vinni að þeim og ég held að varanlegur árangur náist ekki öðruvísi en að endurskipuleggja ríkisstofnanir og beina sjónum að fyrirbyggjandi aðgerðum sem spara kostnað til lengri tíma litið.