Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 17:10:39 (4798)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er rétt til getið hjá hæstv. forsrh. að ég tel að 2--3% verðbólga sé æskilegri en núll. Þetta er vitanlega engin uppfinning frá mér heldur er þetta margsagt af hinum mætustu og þekktustu hagfræðingum því að núllverðbólga merkir í raun og veru stöðnun í þjóðfélaginu eins og hefur komið greinilega fram hér. Ég veit að það er erfitt að rata hinn gullna meðalveg í þessu eins og fleiru. Ég vona að ríkisstjórninni takist það svo sannarlega, en ég óttast og það var það sem ég sagði áðan að ríkisstjórnin muni skjóta mjög langt yfir markið. Ég ætla ekki að taka undir spá einnar völvunnar um áramótin sem spáði 14% verðbólgu, það væri slæmt. Þá erum við komin á skrið aftur.
    Það var síðan með þessar 500 millj. á Suðurnesin. Hæstv. forsrh. segir nú að 300 millj. eigi að leggja til þessara mála en í þeirri ræðu sem hann flutti 23. nóv. sagði hann: ,,Varið skal 500 millj. kr. til aðgerða í atvinnumálum á Suðurnesjum í samstarfi sveitarfélaga, Íslenskra aðalverktaka og annarra fyrirtækja.`` Átti ekki að skilja þessi orð svo að ríkisstjórnin tæki ábyrgð á þessu? Varið skal, sagði hæstv. forsrh. Ég er ansi hræddur um að Suðurnesjamenn hafi skilið það svo að forsrh. ábyrgðist að varið yrði 500 millj. til þessara aðgerða. Ég held að það hljóti að þurfa að leiðréttast.
    Þá vil ég segja að mér þóttu undarlegar þessar bollaleggingar hæstv. forsrh. um vextina. Í lið 4 eru boðaðar aðgerðir til vaxtalækkunar, en hér kom greinilega fram að hæstv. forsrh. hafði engar ábyggilegar upplýsingar um þróun vaxtamála. Mig langar til að spyrja hvort það sé virkilega svo að hæstv. forsrh. hafi ekki haft samráð við bankastjóra ríkisbankanna og formenn bankaráða um þá vaxtahækkun sem varð núna nýlega.