Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 17:14:06 (4800)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Augljóslega er einhver misskilningur í sambandi við þessar 500 millj. og sem mér þykir afar leitt. En ég tek undir með hæstv. forsrh. að ég vona svo sannarlega að völvan hafi haft rangt fyrir sér þó að það sakaði nú ekki að hæstv. forsrh. hitti Delors með þeim hætti. Ég held að hann hefði út af fyrir sig ekkert illt af því. En það er þetta með vextina. Ég hlýt að lýsa furðu minni á því að svo langt er gengið með þessu afskiptaleysi hæstv. ríkisstjórnar að samráð væri ekki haft við bankastjóra ríkisbankanna. Ég hélt að það væri lágmark og ef hæstv. forsrh hefur ekki gert það þá langar mig til þess að spyrja hvort honum sé kunnugt um að hæstv. viðskrh. hafi gert það. Er það virkilega svo að bankarnir hafi ekki verið beðnir um ítarlega greinargerð um vaxtahækkun sem á ársgrundvelli leiðir til aukinna útgjalda upp á 7 milljarða? Ég hygg að ef þetta helst út árið --- ég vona að þetta lækki, ég tek undir það með hæstv. forsrh. --- þá mundi það leiða til þess að það tæki til baka bókstaflega allt það sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að reyna að gera. Án þess að ég ætli að tala enn einu sinni um handafl í þessu sambandi, menn geta kallað það hverju nafni sem þeir vilja, þá er að náttúrlega staðreynd að allar þjóðir sem eru að glíma við ástand eins og okkar hafa lagt á það áherslu að lækka vextina og hafa gert það með opinberum aðgerðum. Það er athyglisvert að efnahagsráðgjafar kanslara Þýskalands sögðu honum að nauðsynlegt væri að ríkisstjórnin beitti sér þar fyrir vaxtalækkun til þess að koma efnahagslífinu af stað. Á ég virkilega að trúa því að ríkisstjórnin ætli sér ekki að gera það, t.d. gagnvart bönkunum?