Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 17:45:08 (4803)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil aðeins gera athugasemd við það sem hv. 2. þm. Suðurl. sagði að þegar annars vegar ég og síðan hæstv. utanrrh. hafi gert athugasemdir við framgöngu einstakra þingmanna hér á þinginu þá sé verið að ráðast á Alþingi. Ég tel að hv. þm. geti ekki samsamað það með þeim hætti. Framganga einstakra þingmanna er ekki eðlileg og menn kannski ganga svo úr hófi fram með málfrelsi sitt að þeir ganga á málfrelsi annarra og ef menn finna að því þá er ekki verið að víkja að Alþingi sem heild, það er rangtúlkun hjá hv. þm.
    Þessi sami hv. þm. hefur margoft sagt að ríkisstjórnin hafi hækkað vexti með

handafli í upphafi síns ferils. Þá stóð þannig á að sú vaxtatala, sem fyrrv. ríkisstjórn hafði tryggt sína sölu á ríkisskuldabréfum og slíkum pappírum á, stóðst ekki. Pappírarnir seldust ekki við því verði. Þannig að ríkisstjórnin færði vextina til veruleikans en færði þá ekki upp með handafli. Ég tel áríðandi að þetta komi fram. Jafnframt vil ég geta þess að ég tel að með þeim breytingum á lánsfjárlögum sem gerðar eru til að veita víkjandi lánsheimild þá eigi að vera kleift að standa við þá viðbótarbókun við búvörusamning sem menn hafa reynt að tryggja að hægt væri að standa við.