Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 17:51:23 (4808)


     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætti kannski ekki að vera að bera blak af efh.- og viðskn. en ég vil gera það af því að formaður hennar er ekki mættur og ég geri auðvitað ráð fyrir að hann standi alveg fyrir sínu máli. En eins og ég sagði: Það koma inn vegna þessarar ákvörðunar gjaldaliðir í fjárlagafrv. og þegar hv. fjárln. er að reyna að skoða hvernig megi spara á öllum liðum þá hlýtur hún að skoða vaxtaútgjöldin líka og eins barnabætur sem hækka vegna þessara hluta. Og þegar það liggur fyrir að þessir tveir útgjaldaliðir, eins og kemur fram í bréfi frá aðilum vinnumarkaðarins, hækka vegna þessarar ákvörðunar meira

en tekjuliðurinn í frumvarpinu þá held ég að nefndin, sem hefur málið til meðferðar í heild og á að hafa yfirsýn yfir bæði tekjur og gjöld og hvernig útkoman verður, hljóti að verða að skoða þessa hluti. Mér a.m.k. finnst að það séu ekki nægilega góð vinnubrögð ef það er ekki gert og sérstaklega þá vegna þess sem ég sagði hér áðan að það er sífellt að koma betur og betur í ljós hversu óvandaðar tillögurnar eru frá hæstv. ríkisstjórn. Stjórnarþingmenn verða að fara að vera betur á verði við því að taka ekki tillögur ríkisstjórnarinnar eins og þær eru umhugsunarlaust og greiða þeim atkvæði. Það þarf að kryfja þær betur.