Samningar við EB um fiskveiðimál

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 18:23:21 (4815)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Fiskveiðisamningur sá sem við nú greiðum atkvæði um tryggir að við höldum óskoruðum yfirráðarétti yfir auðlindum okkar. Þær umræður sem fram hafa farið á undanförnum dögum hafa leitt ótvírætt í ljós að í raun er ekki pólitískur ágreiningur um að gagnkvæmar veiðiheimildir komi til greina. Þessi samningur felur einmitt í sér gagnkvæmar og jafngildar veiðiheimildir á milli okkar og Evrópubandalagsins.
    Þegar samningurinn er metinn er það einmitt meginatriði að það sé gert á grundvelli aðferðar sem notið hefur almennrar viðurkenningar hér á landi. Verðmætastuðlar þeir sem sjútvrn. gefur út í upphafi hvers fiskveiðiárs njóta slíkrar viðurkenningar og því er eðlilegt að leggja þá til grundvallar eins og samningurinn gerir.
    Þessi samningur tryggir haldgott eftirlit með veiðunum. Hann leggur EB-þjóðunum þá skyldu á herðar að bera margs konar kostnað við veiðarnar, bæði vegna eftirlitsins svo og vegna þess að reglur um útbúnað veiðarfæra eru í veigamiklum atriðum frábrugðnar þeim sem annars staðar þekkjast. Margt bendir því til þess að veiðar EB-skipa á grundvelli samningsins verði taldar lítt fýsilegar. Með þetta í huga m.a. styð ég þennan samning og segi því já.