Lánsfjárlög 1993 o.fl.

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 12:00:23 (4826)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í umræðunni um skattamál hafa menn auðvitað oft rætt um skattamálin almennt og síðan skattbyrði einstaklinga. Það sem við höfum verið að ræða undanfarið er fyrst og fremst skattbyrði einstaklinganna. Það er alveg ljóst að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur hún stóraukist, sérstaklega tekjuskatturinn. Hæstv. forsrh. nefndi að aðstöðugjaldið væri lækkað á móti. Það léttir skattbyrði fyrirtækjanna, en það er því miður margt sem bendir til þess að fyrirtækin muni ekki lækka verð á vörum og þjónustu samsvarandi eða að hluta til þannig að einstaklingarnir munu áfram greiða óbreytt verð þótt aðstöðugjaldið lækki hjá fyrirtækjunum og fá því skattahækkunina alla á sig vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Engin verðlækkun mun koma á móti af því sem á horfir nú vegna lækkunar aðstöðugjaldsins.