Framleiðsla og sala á búvörum

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 14:17:18 (4840)

     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er þetta frv. ekki stórt að vöxtum og felur í sér bráðabirgðaákvæði. Því er ætlað að greiða fyrir því að unnt sé að leggja á verðskerðingargjald á framleiðslu nautakjöts og það án þess að til sé kvaddur fundur í Stéttarsambandi bænda. Ég ætla að lýsa því yfir að ég hef í mínum flokki lýst andstöðu við þetta frv. og mun greiða atkvæði gegn því.
    Það verðskerðingargjald sem hér er ætlað að taka af nautakjöti er 5% af bændum og 5% af afurðastöðvum. Það á að nota til að greiða aðila sem fengi heimild til að selja kjötbirgðir sínar á undirverði, sumir segja flytja út, nokkur hundruð tonn af nautgripakjöti fyrir t.d. 50 kr. kílóið. Síðan á að bera upp þann halla sem þessi aðili yrði fyrir við þá sölu með því að innheimta gjald af öllum öðrum bændum landsins sem þar eiga ekki hlut að máli og öllum öðrum afurðastöðvum sem þar eiga engan hlut að máli til þess að þessi aðili geti fengið fullt verð eða fengið það verð sem hinir fá.
    Ég get ekki stutt þetta frv. og tel að það beri að fara mjög varlega í þá verðskerðingar- og verðmiðlunarleið sem hér er verið að greiða götu fyrir og tel að þeir sem versla með þessa vöru eigi að bera meiri ábyrgð á sínum viðskiptum en þetta frv. bendir til að verði í framkvæmd. Ég bendi þó á að taka þessa gjalds er á valdi hæstv. landbrh. og er ekki einhlít ákvörðun stjórnar stéttarsambandsins eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. gaf í skyn áðan. Ég verð að ætlast til þess, ef þetta frv. verður að lögum, að hæstv. ráðherra hugsi sinn gang um framkvæmd þessa máls og m.a. að þeir aðilar sem fyrir barðinu verða, þ.e. þær afurðastöðvar sem innheimt er af og þeir bændur sem þar standa að baki, hafi samþykkt.
    Ég skal ekki leggja í nein ræðuhöld frekar um þetta mál. Aðeins tel ég sjálfsagt og eðlilegt að úr því að ég hef ákveðið að standa gegn þessu máli og greiða atkvæði gegn því að þá komi skoðun mín skilmerkilega í ljós.