Framleiðsla og sala á búvörum

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 14:21:26 (4841)

     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Afstaða þessara tveggja hv. þm., 1. og 2. þm. Norðurl. v., kemur að sjálfsögðu ekki neitt á óvart. Afstaða þeirra hefur legið fyrir í þessari umræðu. Það vill svo til að sá sem hér mælir á óskaplega auðvelt með að skilja þá afstöðu. Hins vegar er óþarft að fara í efnislega umræðu um það mál núna fram yfir það sem áður hefur átt sér stað í þessum efnum.
    Ég tek undir það sem hér hefur komið fram hjá þessum báðum hv. þm. að verðskerðingu af þessum toga á ekki að beita fyrr en aðrar leiðir hafa lokast. Ég vitna í ummæli hv. 6. þm. Norðurl. e., samnefndarmanns míns úr landbn., Jóhannesar Geirs, sem mun væntanlega tala hér á eftir, sem hann viðhafði þegar við ræddum þessi mál í desember. Eins og menn vita hefur hann verið þátttakandi í þessum málum um langan tíma. Ég tek sérstaklega undir það sem kom þar fram að þessum ákvæðum yrði beitt af mikilli varúð. Ég held ég fari ekki rangt með þegar ég vitna til þessara ummæla sem mér fundust afar verðmæt. Og með því að hæstv. landbrh. er í þingsalnum fannst mér m.a. af þeirri ástæðu mikil ástæða til þess að undirstrika þessa skoðun.
    Hafi ég skilið hv. 2. þm. Norðurl. v. rétt er það reyndar misskilningur að aðrar framleiðslugreinar verði skertar fyrir t.d. nautakjötið í þessu tilviki. Sú heimild nær einungis til viðkomandi framleiðslugreinar. Það er best að hafa það alveg á hreinu. Það verða auðvitað ekki nýttar heimildir gagnvart nautakjöti nema í þeirri grein. Það verður að vera alveg á hreinu.
    Ég vil líka taka það alveg sérstaklega fram í þessu máli, og ég hef rætt það við landbrh. og fulltrúa hans sem hefur fjallað um undirbúning þessa máls, Sigurgeir Þorgeirsson, að það verði að sjálfsögðu haft rétt form á því hvernig kallað verður eftir skoðunum stéttarsambandsfulltrúa þannig að þar fari fram skýr og afdráttarlaus skoðanakönnum og það verði nákvæmlega sömu aðilarnir sem ákvörðunin byggist á. Hvort heldur við breytum lögunum eða látum þau standa eins og þau eru í dag verði byggt á afstöðu kjörinna fulltrúa stéttarsambandsins en mönnum verði með þessu gert kleift að taka þessa ákvörðun án þess að koma til fulltrúafundar stéttarsambandsins.
    Það er svo annað mál, sem ég get vissulega tekið undir, að bændur hafa mikla þörf á því að ræða sín mál. Ég fullyrði reyndar að hér er ekki um það tilefni að ræða sem sérstaklega gæti réttlætt slíka fundarboðun en þessi ákvörðun, ef að lögum verður, hindrar ekki að bændur landsins komi saman til þess að ræða sín mál, sem full þörf er á eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur réttilega bent á.

    Þrátt fyrir að ég treysti því að þetta mál nái fram að ganga þá er ég þakkláttur fyrir þá umræðu sem farið hefur fram um þetta mál, bæði í landbn. og eins við þessa afgreiðslu og reyndar fyrri líka vegna þess að hún undirstrikar að hér er um að ræða ákvæði sem er ekkert sjálfgefið að eigi að standa í lögum. Ég er ekkert viss um að mínar skoðanir falli svo afar langt frá því sem hefur komið hér fram frá öðrum ræðumönnum í þessum efnum. En hér er um samkomulagsmál að ræða sem ég ber alveg fulla ábyrgð á. Reyndar hefðum við séð betur fyrir afgreiðslu málsins við fyrri umræðu að þessu leyti nema af því að staða þess var ekki svo sterk í þinginu.
    Ég vona að þessar skýringar séu fullnægjandi og ég held að ég geti ekki mikið betur skýrt þetta mál en ég hef hér gert. En mér fannst sérstaklega nauðsynlegt að það kæmi hér fram að réttur kjörinna fulltrúa stéttarsambandsins er ekki með þessu frv. skertur. Í staðinn fyrir að honum verður í framtíðinni fullnægt á aðalfundi stéttarsambandsins eða sérstökum fulltrúafundi er núna gerð undantekning í þá veru að þeir geti tekið ákvörðun um þetta heima í héraði.