Grunnskóli

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 16:00:47 (4849)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að bera fram þrjár spurningar til hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi hefur hann nú staðfest að hann gerði sér enga grein fyrir því að niðurskurðurinn mundi koma niður á íslenskukennslu og stærðfræðikennslu. Fullyrti þvert á móti í þinginu að það væri sinn vilji að svo ætti ekki að vera. Spurning mín er þessi: Hvernig getur ráðherran staðið að niðurskurði í skólamálum ef hann hefur ekki upplýsingar sem gera honum kleift að lýsa því hvernig sá niðurskurður fer fram? Er þá bara blindandi höggvið í námsgreinar, íslensku og stærðfræði, þvert á vilja ráðherrans og annara sem töluðu fyrir hann og ríkisstjórnina á sínum tíma? Er ekki eitthvað meira en lítið að þegar menn eru í niðurskurði sem þeir segja svo sjálfir að þeir viti ekki hvernig bitnar á skólastarfinu í landinu?
    Önnur spurning mín er þessi: Er það ekki ósmekklegt af hæstv. ráðherra að vera að dylgja um það hér í ræðustól að Kennarasamband Íslands hafi fyrst og fremst áhuga á því að biðja um frí fyrir meðlimi sína? Það var það eina sem ráðherrann í reynd vék að Kennarasambandi Íslands að draga upp eitthvert bréf þar sem Kennarasambandið hafði óskað eftir því að tillit yrði tekið til þess varðandi vinnuskyldu að félagsmenn þess gætu rætt þá stóru spurningu hvort grunnskólinn ætti að vera hjá sveitarfélögum eða ríkinu. Það var auðvitað gert af hálfu ráðherrans Kennarasambandinu til háðungar og til að reyna að koma því að hjá þjóðinni að kennarar í grunnskólum á Íslandi hefðu bara áhuga á því að fá frí.
    Þriðja spurning mín er þessi: Þegar hægri stjórnin í Svíþjóð undir forsæti hægri flokksins, bræðraflokks Sjálfstfl., stóð að niðurskurðaraðgerðum í efnahagsmálum sínum sl. haust þá var það gert með þeim hætti að framlag til menntamála var aukið. Svo mikilvægt telja hægri menn í Svíþjóð skólakerfið vera að jafnvel í umfangsmiklum niðurskurðaraðgerðum bæta þeir við fjármagni til menntamála. Telur hæstv. menntmrh. að þessi stefna hægri manna í Svíþjóð sé röng?