Grunnskóli

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 17:28:35 (4861)

     Frsm. minni hluta menntmn. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að hæstv. menntmrh. þakki hv. 4. þm. Reykn. fyrir þetta. Hann hefur ekki áður, hæstv. ráðherra, fengið jafneindreginn stuðning úr Alþfl. Eins og kunnugt er, hefur hv. formaður þingflokks Alþfl. talið ástæðu til þess að sverja Ólaf Garðar af sér með opinberum hætti en það mun vera hæstv. menntmrh. sem þar er átt við ( Gripið fram í: Það er gagnkvæmt.) þannig að nú hefur hæstv. menntmrh. hlotnast hér stuðningsmaður úr Alþfl. og er það athyglisvert og sérkennilegt að það skuli akkúrat vera þessi þingmaður miðað við þær sögur sem af honum fara.
    Verst þótti mér þó við ræðu hans að hann flutti í raun og veru málsvörn fyrir því að það skipti engu máli hver situr í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Ég ætla að segja honum það að núv. bæjarstjórn í Hafnarfirði og sú síðasta er betri en meðan íhaldið fór með málefni skóla í Hafnarfirði. Á því er reginmunur. Ef menn bera saman þróun skólamála í Hafnarfirði á undanförnum missirum, þá verð ég að segja manninum það ef hann hefur ekki kynnt sér það sjálfur að núv. bæjarstjóri stendur sig mun betur en forverar hans úr hópi íhaldsins. Og þetta segi ég hérna, virðulegi forseti, vegna þess að hann lét eins og allar sveitarstjórnir væru eins. Það er ekki þannig. Sumar sveitarstjórnir sinna skólamálum vel, aðrar sveitarstjórnir sinna skólamálum illa. Hvaða sveitarstjórn ætli það sé sem sinnir skólamálum í landinu einna lakast? Það er borgarstjórnin í Reykjavík. Það er hvergi meira um að það séu yfirbókaðir bekkir og hvergi meira um að það sé skorin niður kennsla og alls konar fjármunir til þróunarvinnu. Ég bið því bið hv. þm. að gera sér grein fyrir því að grunnskólalögin eiga að tryggja börnunum ákveðin lágmarksréttindi. Þau eru ekki sett af því að þingmenn eða ráðherrar, hverjir sem það eru, eigi að stjórna öllu í skólunum. Við viljum tryggja börnum þessi lágmarksréttindi ef svo illa fer að fólkið í sveitarfélögunum kýs yfir sig sveitarstjórnir eða bæjarstjórnir sem eru t.d. verri en núverandi bæjarstjórn í Hafnarfirði.