Grunnskóli

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 17:31:45 (4863)


     Frsm. minni hluta menntmn. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hvarflar ekki að mér eitt augnablik að hreppsnefnd Kjósarhrepps og Kjalarhrepps sýnir lítinn metnað í skólamálum. Mér er kunnugt um það að þeir sem þar eru í hreppsnefnd hafa mikinn metnað í skólamálum. Þeir hafa mikinn metnað í skólamálum í Höfnum og í Fellsstrandarhreppi og í Djúpuvík, í Breiðdalsvík og víðar. Þá vantar ekki metnaðinn. Þá vantar peningana. Það er þess vegna sem grunnskólalög eru óhjákvæmileg til að tryggja að börnin í þessum byggðarlögum njóti líka lágmarkstíma, lágmarksaðstöðu og hafi kennara með lágmarksmenntun. Þess vegna er ekki hægt að henda grunnskólalögunum í sveitarfélögin, því miður.