Uppsagnir ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga á Ríkisspítölum

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 18:02:18 (4876)

     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Hjúkrunarfræðingar nútímans hafa að baki a.m.k. fjögurra ára háskólanám. Sífellt fleiri fara einnig í framhaldsnám. Miklar kröfur eru gerðar til hæfni þeirra og að sama skapi er ábyrgðin mikil. Ætla má að hjúkrunarfræðingar í deildarstjórastarfi á sjúkrahúsi bera að jafnaði ábyrgð á allt að 30 sjúklingum og vinnu a.m.k. 30 starfsmanna. Rekstur sem deildarstjórinn ber ábyrgð á getur numið um eða yfir 40 millj. kr. á ári. Hjúkrunarfræðingar hafa einnig í ríkum mæli gert sér far um að afla sér menntunar á sviði stjórnunar og fjármála og þannig ekki látið sitt eftir liggja. Ábyrgðin er því margföld þótt stærst sé hún efalaust gagnvart sjúklingum. Þess ber einnig að geta að afkastageta sjúkrahúsanna hefur aukist mjög á síðustu árum og þar með álagið en stöðugildum hjúkrunarfræðinga hefur ekki fjölgað að sama skapi.
    Það er alkunna að hefðbundnar kvennagreinar hafa verið metnar til lægri launa en eðlilegt mætti telja. Með tilkomu háskólamenntunar hefur þetta misræmi orðið enn augljósara og þar með nauðsyn að gera bót þar á. Almennir hjúkrunarfræðingar í dag ná ekki tekjum háskólastétta með sama námstíma að baki og það ekki einu sinni innan heilbrigðisþjónustunnar og það er skiljanlegt að undan svíði. Launakerfi opinberra starfsmanna er afar óþjált og erfitt að hreyfa við heilum hópum launþega nema flóðbylgja krafna komi í kjölfarið. Það verður því mun erfiðara eftir því sem hóparnir eru stærri. Hjúkrunarfræðingar hafa goldið stærðar hópsins í launalegu tilliti, menntun þeirra er varla í askana látin og spyrja má hversu lengi ungt fólk sækist eftir menntun sem verður ekki arðbær.
    Ég hef áður nefnt úr þessum ræðustól hversu brýnt það er að breyta launakerfi opinberra starfsmanna í þá veru að sveigja megi laun þeirra í ríkara mæli eftir mati vinnuveitenda. Afstaða til vinnunnar er misjöfn og ég tel rétt að umbuna að einhverju leyti í samræmi við frammistöðu einstaklingsins en miða ekki eingöngu við heilu hópana. Ég tel að sveigjanlegra launakerfi geti aukið bæði afköst og gæði án þess að kostnaður þurfi að vaxa.
    Hjúkrunarfræðingar hafa sýnt þessu mikinn skilning. Vil ég í þessu sambandi vísa til tilmæla samninganefndar hjúkrunarfræðinga til fulltrúa stjórnarnefndar Ríkisspítala í maí sl. og einnig benda á þær breytingar sem gerðar voru á ráðningu hjúkrunarfræðinga á Borgarspítala sem ekki hafa aukið launakostnað að sögn starfsmanna þar.
    Ég vil því beina tilmælum mínum til stjórnarnefndar um að taka strax upp samningaviðræður við hjúkrunarfræðinga byggðar á þeim hugmyndum sem gerðar voru á Borgarspítalanum og til ríkisstjórnarinnar og til viðsemjenda að taka höndum saman og breyta og bæta launakerfi opinberra starfsmanna án þess að til komi flóðbylgja krafna sem gerðu slíka vinnu að engu.